Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 5. apríl 2012

Allt að gerast

Hektor í Sirkus,
Hektor í Sirkus,
« 1 af 10 »
Já það er óhætt að hér sé allt að gerast, eða eins og Hektor er búinn að læra að segja á spænsku ?Que pasa? Það er búið að gera margt og skoða margt, og upplifunin fyrir litla krakka er mikil. Það er búið að fara í Sirkus í Rafal og var það ansi gaman fyrir alla stóra og smáa þó ekki væri sirkusinn stór í sniðum. Mörg dýr og svo auðvitað trúður sem vakti mesta lukku hjá þeirri yngstu Hildi. Svo var farið á ströndina og farið í sjóinn en hann var ansi kaldur svo það var bara vaðið útí og reynt að byggja kastala sem var víst ansi brösugt því græjurnar voru ekki nógu góðar. Þetta var ljúfur dagur og allir þreyttir þegar heim var komið.
Svo var farið í dýragarðinn Rio Safari og var það ansi skemmtilegur dagur og mikið labbað um, það var farið á fílasýningu, páfakaukasýningu og sæljónasýningu og einnig var hægt að fara í lest til að skoða betur dýrin þegar þau gengu laus um sum svæðin og þar voru líka svakastór ljón. Þetta tók allan daginn, það var nú ekki mikil sól en enginn rigning.
Við fórum líka í minigolf einn daginn það fannst þeim Hektor og Hildi voða gaman og gekk þeim bara vel að munda kylfuna. Hver vann man ég nú ekki enda skiptir það ekki máli í svona leik. Það er búið að vera fínt veður bæði skýjað og sól nema í gær þá rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við fórum aðeins að versla og á leiðinni heim kom svona hellirigning að Dúddi blotnaði innúr við að hjálpa okkur hinum að komast inn í húsið.
Hektor missti aðra tönnina í gær og svo kom tannálfurinn spænski og gaf honum 5 evrur, en við töluðum við spænska tannálfinn um það að Hektor fengi að halda tönninni svo hann gæti farið með hana til Íslands til að sýna ömmu sinni hana líka og það var bara í fínu lagi sagði tannálfurinn, því hann á svo margar.
Svo hafa Hektor og afi farið saman út að hjóla, Hektor á litla hjólinu sem Dúddi gerði upp hérna um árið og hefur bara komið sér vel fyrir stráksa, það er nú ekki hægt að fara langt því hér er oft mikil umferð um akurvegina. Þá hefur verið farið í göngutúr um svæðið og tekið ein og ein appelsína eða sítróna. ÞAð hefur svo margt skeð að ég bara man það ekki allt og kemur kannski síðar en þau fara nú ekkert fyrr en á sunnudag og eitthvað á eftir að gera þangað til.
Mikið er nú gaman að hafa fjölskylduna hérna hjá okkur og yndislegt að þau skyldu sjá sér fært að koma, við erum ekki oft að fá svona unga gesti og erum því ekki alveg viðbúin þessu . En ég held að allir skemmti sér vel því það gerum við.
Við spilum svo kana  oft á kvöldin, við fullorðnu og er oft mikið fjör á meðan.
Góða páskahelgi öll og farið farlega og Guð geymi ykkur.