Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 26. febrúar 2013

Fjarnám og annað skemmtilegt

Svona lítur portið okkar og Fermíns út í dag.
Svona lítur portið okkar og Fermíns út í dag.
« 1 af 11 »
Ég hefði nú aldrei trúað að það væri svona erfitt að byrja í fjarnámi, maður hugsaði bara sem svo að fólk sæti fyrir framan tölvuna og lærði sitt fag eða fög. Nei ekki aldeilis, að minnsta kosti ekki ég. Maður þarf bara að vera ansi góður á tölvum. Minn tími er búin að fara eiginlega bara í það að reyna að finna það sem ég á að læra, fá ný forrit og annað.
Sem betur fer er ég svo heppin að eiga 2 tengdadætur sem voru búnar að kenna mér heilmikið áður en ég fór hingað út, og svo sonur minn í Danmörku sem var í klukkutíma að kenna mömmu sinni gegnum skype hvernig hún átti að gera hitt og þetta. Svo allur tími minn á daginn fer í nám svona 4-5 timar á dag fyrir utan allt sem maður hugsar þegar maður stelst til að prjóna aðeins.
Nú lít ég allt öðrum augum á þá sem eru í fjarnámi eða bara öðru námi þetta er bölvað puð, sem maður er löngu búinn að gleyma eftir 40 ár síðan ég tók próf í því sem hét tækniteiknun, hvort það er við lýði enn í dag veit ég ekki. En þetta er alveg svakalega gaman að þrælast í gegnum þetta, með smá blóti og smá reiðiköstum yfir því að skilja ekki allt þetta  tölvudót.
Edda og Hrefna ég er stolt af ykkur tengdadætrum mínum hvað þið eruð duglegar við ykkar nám nú skil ég ykkur aðeins betur. Verst að vera svona langt í burtu til að aðstoða ykkur, sendið bara börnin hingað til mín, þá hef ég ekki tíma til að læra heheh.
Það má nú ekki gleyma skemmtanalífinu hér sem fór náttúrulega á flug um leið og við komum. Afmælisveisla og út að borða.
Vorum í 2 daga í gamla húsinu og þar fór hitakúturinn svo Dúddi skellti einum nýjum í, það tók nú lungan úr einum degi. Við vorum reyndar að bíða eftir að Þorrablótið yrði haldið, en það er ekki búið að halda það enn, verður víst á föstudaginn. Það þurfti að senda matinn aftur til Íslands út af einhverjum reglugerðum sem eru nýjar hér á Spáni, annars er ég ekki mjög fróð um þetta mál, ætla bara að mæta þegar það verður. 
Nú svo á laugardagskvöldið fórum við til lítils bæjar sem heitir San Carlos og er ekki langt hér frá, þar var okkur boðið í afmælisveislu hjá Carolinu dóttur Felí og Eladio spænsku vinanna okkar. Það var skemmtilegt kvöld innan um eintóma spánverja. Það var byrjað á danskennslu að læra Mambo, Samba og fleiri dansa svona á milli rétta og eftir matinn og á miðju balli, þetta var alveg þrælskemmtilegt góður matur 3 rétta ekta spænskur og góð vín og kostaði ekki mikið 14 evrur á mann.
Mjög skemmtilegt kvöld með góðum vinum.
Nú er fermín búinn að mála hjá sér vegginn sem snýr hingað til okkar hvítan og húsið sitt að framan sem er orðið gult. Þetta er svakalegur munur portið orðið svo bjart og fínt. Svo lætur hann rigna yfir okkur hvítlauk og ætiþyrsla voða gott saman í eggjahræru eða tortilla.
Það er best að fara að hugsa um námið aftur, kennarinn er svo góður að hún ætlar að hringja í mig á skype til að hjálpa mér aðeins að skilja þetta betur, gamli heilinn er ekki voða fljótvirkur eins og þið skiljið sem eruð komin á sama aldur.
Eigið góða daga og Guð veri með ykkur alla daga.