Þórdís Guðmundsdóttir | sunnudagurinn 9. febrúar 2014

Sunnudagur

Sólarpönnukökur á sólardag Ísfirðinga, haldið í Helgu húsi. Gummi, Helga og Dúddi.
Sólarpönnukökur á sólardag Ísfirðinga, haldið í Helgu húsi. Gummi, Helga og Dúddi.
« 1 af 11 »
Það er rólegt í sveitinni á sunnudegi, allt fólkið hans Fermíns mætt í sunnudagsmatinn, smá rigning í loftinu en hitinn 16. gr.
Við skelltum okkur á sunnudagsmarkaðinn til að kaupa kartöflur og var það nú ekki mikill peningur 2 kg. á 1 evru. Við komum svo við á danska pylsubarnum og keyptum okkur eina með öllu, bara góðar og alltaf gaman að koma þar við og fá norsku blöðin í leiðinni. 
Hér er nú búið að vera ansi mikið að gera sérstaklega hjá Dúdda, hann og Gumma voru að hlaða heilan vegg fyrir Helgu Þurý og voru að því í næstum tvær vikur og á meðan bjuggum við í húsinu hennar sem er rétt hjá gamla húsinu. Þetta er búið að vera ansi mikið flakk á okkur og svo skemmtanir inná milli. 
Þóra og Stefán sem eiga heima langt fyrir norðan Barcelona komu hingað til að fara á þorrablótið með okkur vinum sínum og keyrðu í 7 tíma, svo var þorrablótinu frestað því spánverjar vildu rannsaka þennan mat betur. Og þá skruppu þau bara í ferðalag og komu svo til baka. Gistu hér eina nótt og var mikið gaman hjá okkur. Næsta dag var svo farið á þorrablót. Við gistum þá í gamla húsinu eina nótt og komum svo heim og höfum í sannleika sagt bara verið í því að slappa af og njóta þess að vera heima hjá okkur. Takk kærlega fyrir komuna Þóra og Stefán það var svo gaman að hitta ykkur aftur.
Við vorum svo boðin í 90 ára afmæli Högna Þórðar á fimmtudaginn, öll börnin hans mættu og tvö tengdabörn og var alveg yndislegt að hitta þau öll, og Högni var í sínu besta formi, lék við hvern sinn fingur. Takk fyrir okkur kæru hjón.
Nú er ég aftur byrjuð í skólanum í spænskunáminu og er komin í áfanga 303 og er bara montin af mér, en mikið er þetta nú erfitt fyrir gamlan heila, en mikið hefur  hann gott af þessu. Það versta er að ég hefði átta að vera duglegri að læra íslenska málfræði í skólanum í  gamla daga, hún bara festist aldrei, bara stafsetningin ég skrifa að ég held nokkuð rétta stafsetningu en það er nú bara sjónminnið sem reddar því. Spænska málfræðin er stundum alveg að drepa mig.
Nú dettur mér í hug að spyrja er einhver sem fer inná þessa síðu sem á gamla íslenska málfræðibók sem hann getur lánað mér í sumar það væri voða gott að rifja aðeins upp í henni. Ég er búin að fara í margar bókabúðir heima og á bókasafnið en hún fæst hvergi. Bara þessar nýjustu sem ég skil ekkert í. Vantar bara gamla góða Íslensk málfræði sem var kennd þegar ég var í skóla á Ísó, fyrir mörgum árum síðan.
Og nú er búið að kaupa nýja myndavél næstum alveg eins og þessa gömlu svo að nú koma myndir teknar með henni.
Eigið góða daga og farið varlega í lífinu og passið hvert annað. Lífið er ljúft.