Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 17. mars 2014

Vorið er að ganga í garð

Hafragrautur, aðalbláber, jarðarber, kanill og mjólk hollur morgunmatur
Hafragrautur, aðalbláber, jarðarber, kanill og mjólk hollur morgunmatur
« 1 af 12 »
Gerði áðan heiðarlega tilraun til þess að fara í sólbað, ég reyndar lá og bylti mér í klukkutíma, þá var ég orðin svo sveitt  að það lá við að ég rynni útaf bekknum, sem betur fer var nú handklæði á dýnunni sem hélst aðeins við.
Það var líka 28 gr. og logn á þakinu þetta er jú ljúft í miðjum mars, en sólböð eru bara ekki skemmtileg lengur finnst mér. Jú gott að sitja og lesa eða prjóna en að liggja bara onei.
Veðrið hér núna er alveg yndislegt en það er enn frekar kalt á nóttunni en þá er maður bara inni, allavega hér í sveitinni.
Það hefur nú verið bæði mikið að gera og lítið að gera undanfarið, alltaf einhver veislan í gangi sem er jú bara skemmtilegt að fara og hitta fólkið sitt og aðra sem maður þekkir bara lítið eða ekki neitt.
Harpa og Vishnu buðu okkur í afmælismat um daginn, sonur þeirra var hér í heimsókn frá Íslandi og var voða gaman að hitta hann, þar var auðvitað voða fínn matur eins og alltaf. Og það var nú gaman að þarna mættust 3 þjóðir með mismunandi tungumál. Ensk hjón og vinir þeirra voru þarna og svo vinir okkar spænsku Felí og Eladio og svo við íslendingarnir þetta var stundum svolítið erfitt að ná þessu öllu en það gekk nú alveg stórslysalaust en heilinn var orðin ansi þreyttur þegar heim var komið. Dúddi var því miður heima með flensu svo hann missti af öllu geiminu. Takk fyrir Harpa og Vishnu fyrir skemmtilegt kvöld.
Daginn fyrir bolludag kom hingað í heimsókn hann Auðunn Einars Vals. mikið var gaman að fá hann í stutta heimsókn og geta gefið honum bollur, hann var svo ánægður að hann fékk þrjár í nesti. Hann var hér farastjóri norðmanna sem voru að spila golf á einum vellinum hér hjá okkur. Takk fyrir Auðunn þetta var svo gaman bara eins og fá eitt af sínum.
Við fórum í grill um daginn þar sem mættir voru bara Íslendingar þetta var haldið á veitingastað í Los Altos sem Íslendingar eru farnir að kalla Múlakaffi af hverju veit ég ekki.
Dúddi fór um daginn enn eina ferðina á fjallið okkar, nú með Bertu, Auðunn, Jenný og Bergsvein þetta var voða fín ferð hjá þeim og ekki spillti veðrið, allt gekk vel og svo beið þeirra súpa þegar ferðin var búinn.
Það gengur svona og svona í skólanum, málfræðin er alveg að fara með gamla heilann, en það hefur gengið vel hjá mér í þessu litlu verkefnum sem ég á að skila en að fara í lokapróf fær mig bara til að skjálfa, en ég sé til ég má taka það í Mí ef það verður þá ekki allt í verkföllum enn í maí.
Nú er farið að stittast mikið í heimkomu ekki nema 10 dagar svo maður þarf að nýta tímann vel sem eftir er.
Árshátíð á næsta laugardag hjá Íslendingum hér og verður hún haldin á hóteli í San Pedro og það hefur alltaf verið voða gaman. Svo fer maður að pakka niður fyrir heimferð.
Innilega til hamingju með daginn þinn í dag Ágúst minn, það er eins og það hafi gerst í gær þegar þú komst í heiminn, á elliheimilinu í Skælskor í Danmörku, stór knús á þig.
Eigið góða daga elskurnar mínar og farið vel veð ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 24. febrúar 2014

Smá blogg núna

Coche de oro eða Gullvagninn
Coche de oro eða Gullvagninn
« 1 af 10 »
Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er ég orðin voða löt að blogga, hef mig bara einhvernveginn ekki í það, því ég sit avo mikið við tölvuna orðið við að læra. Þetta er orðið svo fjandi erfitt núna alltaf að þygnjast og svo mikil málfræði sem bara vill ekki tolla á harðadiskinum í hausnum á mér.
Þessi heili í manni ætti að vera bara eins og í tölvunum bara skrifa þetta eða segja einu sinni og þá er þetta komið inn, svo eftir því sem hann eldist þá verður hann bara verri og verri, hann ætti frekar að vera tilkyppilegri eftir því sem hann eldist því meiri viska ætti að vera þar hmm, en þetta gleymist allt og ekki bara þetta, maður kemst ekki fyrir horn þá er maður búin  að gleyma hvað maður var að fara að gera.
Hvað er gott ráð við svona vitlausum heila, á ég að fara að taka einhverjar pillur svo ég verði ekki svona gleymin eða á ég bara að gleyma þessu og hætta þessu rugli í mér????
Við vorum í helgarreisu í gamla húsinu fyrir um viku, byrjaði með afmæliskvöldverði á Tælenskum veitingastað á valentínusardaginn, þar var góður matur og dansað á milli rétta. Frænkurnar Helga og Harpa voru að halda uppá afmælið sitt sem var reyndar ekki fyrr en á sunnudeginum. Svo var bara leti á laugardeginum fórum reyndar á markaðinn og keyptum okkur kjúkling, soðna skinku svaka góða og paté svakalega gott og kjúklingurinn alveg æði. Hann er að selja þarna nágranni okkar sem á kjúklingaverksmiðjuna hérna á bak við okkur, hann er í neðsta básnum alveg við hringtorgið. Mér finnst þetta besti kjúllinn ekkert fullt af einhverju krydddrasli inní honum. Við vorum svo komin í hálfgert sólbað þegar Helga og Gummi birtust og vildu fá okkur með í göngutúr í Torrevieja og það var farið þangað og borðað aftur smá tabasrétti og labbað mikið enda var ég alveg búinn á því.
Við fórum svo heim til þeirra með skinkuna og fengum okkur svo kvöldmat með þeim.
Á  sunnudeginum ætluðum við svo heim og fórum að kveðja Helgu og Gumma, nei þá átti frúin afmæli og ekki við það komandi að fara heim. Frúin bauð svo uppá kampavín, sem var auðvitað vel þegið og þetta var nú ekkert 1 evur cava heldur.
Afmælisbarnið vildi svo fara í göngutúr á ströndinni þó það væri nú ekkert sérstakt veður og við fórum á hálfgert pöbbarölt með þeim og enduðum svo á að fá okkur að borða á góðum stað. Þetta var alveg yndisleg helgi með góðum vinum, víni og mat. Alveg ekta helgarferð.    Takk fyrir helgina kæru vinir.
Nú svo var drifið í því að fara og skoða bílinn sem okkur stóð til boða að kaupa á mjög góðu verði og við drifum okkur til Santa Pola til Jóns og Elínar til að ræða kaupin á þeirra bíl þar sem þau voru að fá sér nýjan.
Og í síðustu viku festum við kaupin og gátum meira að segja selt gamla skrjóðinn fyrir smápening, bara gott mál og allir ánægðir.
Það er nú frekar kalt hérna núna einhver lægð sem kemur frá Íslandi og hingað niður engin sól en 15 gr. hiti og fer líklega að rigna. Fínt ég sit bara inni og læri og leik mér.
Eigið góða daga vinir mínir og Guð veri með ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | sunnudagurinn 9. febrúar 2014

Sunnudagur

Sólarpönnukökur á sólardag Ísfirðinga, haldið í Helgu húsi. Gummi, Helga og Dúddi.
Sólarpönnukökur á sólardag Ísfirðinga, haldið í Helgu húsi. Gummi, Helga og Dúddi.
« 1 af 11 »
Það er rólegt í sveitinni á sunnudegi, allt fólkið hans Fermíns mætt í sunnudagsmatinn, smá rigning í loftinu en hitinn 16. gr.
Við skelltum okkur á sunnudagsmarkaðinn til að kaupa kartöflur og var það nú ekki mikill peningur 2 kg. á 1 evru. Við komum svo við á danska pylsubarnum og keyptum okkur eina með öllu, bara góðar og alltaf gaman að koma þar við og fá norsku blöðin í leiðinni. 
Hér er nú búið að vera ansi mikið að gera sérstaklega hjá Dúdda, hann og Gumma voru að hlaða heilan vegg fyrir Helgu Þurý og voru að því í næstum tvær vikur og á meðan bjuggum við í húsinu hennar sem er rétt hjá gamla húsinu. Þetta er búið að vera ansi mikið flakk á okkur og svo skemmtanir inná milli. 
Þóra og Stefán sem eiga heima langt fyrir norðan Barcelona komu hingað til að fara á þorrablótið með okkur vinum sínum og keyrðu í 7 tíma, svo var þorrablótinu frestað því spánverjar vildu rannsaka þennan mat betur. Og þá skruppu þau bara í ferðalag og komu svo til baka. Gistu hér eina nótt og var mikið gaman hjá okkur. Næsta dag var svo farið á þorrablót. Við gistum þá í gamla húsinu eina nótt og komum svo heim og höfum í sannleika sagt bara verið í því að slappa af og njóta þess að vera heima hjá okkur. Takk kærlega fyrir komuna Þóra og Stefán það var svo gaman að hitta ykkur aftur.
Við vorum svo boðin í 90 ára afmæli Högna Þórðar á fimmtudaginn, öll börnin hans mættu og tvö tengdabörn og var alveg yndislegt að hitta þau öll, og Högni var í sínu besta formi, lék við hvern sinn fingur. Takk fyrir okkur kæru hjón.
Nú er ég aftur byrjuð í skólanum í spænskunáminu og er komin í áfanga 303 og er bara montin af mér, en mikið er þetta nú erfitt fyrir gamlan heila, en mikið hefur  hann gott af þessu. Það versta er að ég hefði átta að vera duglegri að læra íslenska málfræði í skólanum í  gamla daga, hún bara festist aldrei, bara stafsetningin ég skrifa að ég held nokkuð rétta stafsetningu en það er nú bara sjónminnið sem reddar því. Spænska málfræðin er stundum alveg að drepa mig.
Nú dettur mér í hug að spyrja er einhver sem fer inná þessa síðu sem á gamla íslenska málfræðibók sem hann getur lánað mér í sumar það væri voða gott að rifja aðeins upp í henni. Ég er búin að fara í margar bókabúðir heima og á bókasafnið en hún fæst hvergi. Bara þessar nýjustu sem ég skil ekkert í. Vantar bara gamla góða Íslensk málfræði sem var kennd þegar ég var í skóla á Ísó, fyrir mörgum árum síðan.
Og nú er búið að kaupa nýja myndavél næstum alveg eins og þessa gömlu svo að nú koma myndir teknar með henni.
Eigið góða daga og farið varlega í lífinu og passið hvert annað. Lífið er ljúft.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 20. janúar 2014

Flensa og fleira.

Bara svona minna á sumarið.
Bara svona minna á sumarið.
« 1 af 15 »
Það er ansi erfitt að fara að skrifa blogg, þegar maður hefur vanið sig á að blogga eftir myndum. Það er svo gott að taka fullt af myndum fara svo yfir þær og muna þá hvað maður hefur verið að gera. . En nú er bara engin myndavél til.
Við höfum ekki komið því í verk að kaupa okkur nýja. Við lögðumst bæði í flensu og það hefur nú ekki verið farið neitt í búðir að undanförnu, ég sem ætlaði að vera svo dugleg að fara á fínu útsölurnar hérna núna.
Dúddi var komin  með smá vinnu fyrir frænku sína að byggja einn vegg, og við flutt í húsið hennar svo við þyrftum ekki að vera að keyra alltaf á milli, en nei,nei, fyrst byrjaði ég með flensu eða bölvaðan hósta og svo hann, og við flúðum bara heim til okkar. Þarna var ekkert sjónvarp og lítið til af mat svo það vara betra að fara bara heim. Ég er orðin hress en Dúddi er hálf slappur enn, en er á batavegi.
Okkur var boðið í barnaafmæli um daginn hjá Sólmari og Ivani strákunum hennar Helgu Þirý, var það ansi skemmtileg upplifun, börnin hafa líklega verið um 8-10 á mismunandi aldri, öll voða prúð og skemmtileg. Þetta barnaafmæli var svolítið frábrugðið þessum íslensku, engar pylsur eða pizza, það var boðið uppá brauðbollur, skinku, hráskinku, ost, og malakoff og fleiri kjöttegundir og ostaköku, já og marmelaði líka,  börnunum var líka boðið uppá gos en þau vildu bara safa og vatn með ég, gapti nú. Svo kom Helga með afmælisköku sem var súkkulaðikaka sem þau gerðu góð skil. Afmælissöngurinn var að sjálfsögðu sungin tvisvar, því þetta voru afmæli þeirra beggja, Ivan 13. jan og Sólmar 20. jan. Og ég brosti með mér þegar hann var sunginn, það er alveg sama hver eða hvar, á hvaða tungumáli hann er sunginn hann er alltaf falskur, hafið þíð ekki tekið eftir þessu? En ég held að ég kunni bara ekkert við hann öðruvísi, þetta má sjá í bíómyndum og öðru alveg magnað lagið er það sama næstum hvar í heiminum sem er og alltaf falsk. Hafið þið heyrt hann öðruvísi nema þá kannski hjá einhverjum fínum kór.
Nú förum við aftur til vinnu á morgun, flensan á undanhaldi og ekki þýðir að sitja auðum höndum, Helga ætlar að koma og raða í geymsluna um mánaðrmótin og þá þarf Dúddi að vera búinn að þessu.
Svo er þorrablótið þann 30 janúsr og hlökkum við mikið til að fá að borða góðan íslenskan þorramat. Ég ver nú að vera búin að kaupa myndavél þá.
Svo er búið að panta heim til Íslands 27. mars og verðum við í fermingarveislu Arons Viðars þann 30. mars og verður gaman að hitta allt liðið þar. Förum svo líklega fljótlega vestur til að passa Sögu Líf en pabbi hennar hann Ágúst er að fara í skólann í Danmörku til að halda áfram að læra ljósmyndun, það verður gaman að upplifa íslenska páska aftur eftir 6 ára fjarveru. 
Setti inn gamlar myndir frá í fyrra bara svona til gamans og minna mann á næsta sumar.
Eigið góða daga og góðan þorra.

Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 9. janúar 2014

2014 hvað ber það í skauti sér?

Með Óla á ströndinni 30. des. 2013
Með Óla á ströndinni 30. des. 2013
« 1 af 10 »
Það er óhætt að segja að eitthvað er maður nú farin að vera latur við að blogga hérna, eða afsökun númer eitt, mikið að gera. Nú koma hérna nokkrar línur svo ég gleyni nú ekki öllu sem skeður hér í kringum mig. 
Jólin voru góð hjá okkur Dúdda bara tvö ein í kotinu með góðan mat og pakka frá Íslandi. Við fórum í skötuveislu til La Marina 27. des. og þar hittum við marga Íslendinga og var skatan mjög góð sterk og fín, einnig var hægt að fá saltfisk. Þetta var frábær skemmtun.
Svo þann 28. des. kom Óli með nýju fjölskylduna sín hana Díönu og þrjú börn og var sko kátt á hjalla og mikið um að vera allan tímann sem þau voru hér eða þangað til í gær, þegar þau fóru heim.
Fyrsta daginn sem þau voru eða daginn fyrir gamlársd. fórum við á ströndina í Guardamar og börnin létu sig hafa það að vaða út í sjó, sólin skein og það var alveg um 18. gr hiti.
Á gamlárskvöld borðuðum við kalkún sem Óli og Díana sáu um að elda og heppnaðist hann mjög vel, fylling var úr ávöxtum og grænmeti svakalega góð. Ég bjó til minn árlega ananasfrómas svo kvöldið var bara fullkomið. 
Ég fór í kínabúð til að kaupa eitthvað sem springur en það var nú fátt um fína drætti, keypti einhverjar sem ég hélt að væru svona innibombur en sem betur fer vissi Óli betur og við fórum með þetta út og úr þessu kom allavega bréfadrasl sem við vorum lengi að sópa upp og heitir víst confettídrasl. Kínaverjar kunna sko að selja allt!!!!!!!!!!
Það var líka farið í minigolf í Quesada og farið í búðir og bara dundað sér.
Við fórum líka í Rio Safari sem er dýragarður í Elche það þótti börnunum svaka gaman, að sjá öll dýrin og enda svo daginn með að fara í gokart bíla það toppaði allt.
En það sem leiðinlegt var við þá ferð var að myndavélinni okkar var stolið, já ég segi stolið, við gleymdum henni á bekknum þegar við vorum að horfa á sæljónin, Óli sá þegar henni var skilað til konunnar sem sá um að selja myndir gotterí og annað drasl, en svo þegar við fórum 10. mínútum seinna til að gá að henni þá neitaði hún að hafa tekið við henni og allt í einu skildi hún ekkert í ensku, djö...........
Þessar myndir sem ég set inn núna eru flestar teknar á Díönu vél, þess vegna eru engar myndir af henni og svo gleymdist að láta mig fá síðustu myndirnar þar sem Elísabet mín er  líka. Því Elísabet Ósk þessi elska kom hingað 4. jan. og var hér í 3 daga með okkur. Mikið var gaman að hún skildi geta komið. Við fórum í stóra mollið í La Zenia og þar fóru krakkarnir aftur í bíla.
Það var auðvitað kíkt í búðir og eitthvað verslað enda komnar flottar útsölur núna.
Við fórum 2 ferðir á völlinn í gær og eina í fyrradag með Elísabetu, Óla og co í gærmorgun og svo sóttum við Þorstein son Unnsteins í gærkvöldi í svartaþoku hérna og hálfa leiðina út á völl og svo mestalla leiðina til baka.
Nú er orðið rólegt hér í kotinu og er hálf skrítið að vera bara að drolla svona tvö, veit eiginlega ekkert hvað ég á af mér að gera, það er svo hlýtt á daginn að ég hef setið uppá þaki og prjónað og hugsað um allan þvottinn eftir svona góða heimsókn.
Eigið góða daga á nýju ári, og farið varlega með ykkur.