Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 3. apríl 2013

Ferðalag með Dísu og Andreu

Við öll komin til Alcalá del Jugar
Við öll komin til Alcalá del Jugar
« 1 af 12 »
Hér er búið að vera ansi gaman í heila viku með gesti, sem er bara alltof sjaldan sem einhver kemur í heimsókn í sveitina í Mudamiento. Dísa og Andrea hafa skemmt sér hið besta eftir því sem þær segja og eru búnar að fara á marga markaði og margar búðir og búnar að kaupa helling og enn eru þær á markaði. Þau fóru til Callosa að kaupa restina en ég sit hér og skrifa og svo ætla ég að læra aðeins meira í spænsku, var svo dugleg í gær á meðan þau fóru á ströndina þá sat ég og lærði enda búin að slugsa í marga daga.
Á páskadag var ákveðið að fara í smá ferðalag, það var svona smá rigning þegar við fórum en vonuðum að veðrið væri betra þangað sem við fórum, það var suddi alla leið til Alcalá del Jugar þangað sem ferðinni var heitið. Þetta tók um tvo og hálfan tíma að keyra því það var ansi mikil umferð komin á hraðbrautina og stundum lúsaðist maður áfram. En þegar þangað var komið var komin sól og logn en hitinn var um 14 gr. Við duttum niður í dalinn eða gilið og þar var ansi margt um mannin enda frí hjá öllum.
Það er alltaf svo gaman að koma í þennan bæ hann er svo stórkostlegur,  hann á engan sér líkan hér á Spáni held ég. Mörg húsin eru grafin inn í fjallið og hanga þar út. Falleg á sem rennur í botninum á gilinu og svo trónar efst upp stór kastali til að passa allt. Kirkjan er nýuppgerð og er ansi falleg, það var verið að taka hana í gegn þegar við fórum þangað með Jóni og Ástu fyrir tveim árum.
Þarna er líka safn inni í helli og þar eru margir munir sem hafa fundist þarna í gilinu og steingerfingar af kuðungum og skeljum sem eru um 400 milljóna ára gamlir, það stóð allavega á skiltinu. Svo gengur maður inn löng göng og þá kemur maður í veitingasal þar sem hægt er að fá mat og hressingu og þá er maður komin gegnum fjallið með flottu útsýni í hina áttina.
Við vorum þarna drykklanga stund og borðuðum nestið okkar bara fyrir utan bílinn.
Það var svo haldið heim á leið og þá byrjaði að rigna og það ringdi alla leiðina heim og allt kvöldið. Við slepptum hraðbrautinni og tókum bara sveitavegina heim, það tók aðeins lengri tíma en það er gaman að skoða sveitir Spánar með öllum þessum fallegu ökrum og gömlu húsum.
Nú fara gestirnir heim á morgun og þá verður rólegt í kotinu, líklega bara of rólegt, en þá tekur lærdómurinn við og að ég nái prófinu í vor. En ég þarf víst að taka próf í spænsku þegar ég kem heim  úffffffff.
Það er líklega frí í skólum hér í dag því öll börnin hans Fermíns eru hér og mikil læti.
Eigið góða og fallega daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 29. mars 2013

Gleðilega páska!!

Úr skrúðgöngunni á miðvikudagskvöld
Úr skrúðgöngunni á miðvikudagskvöld
« 1 af 15 »
Gleðilega páska! Já þeir eru víst að koma eða eins og hér á Spáni er það heil vika sem þeir helga páskum Semana Santa heitir það. Hér er mikið um hátíðahöld í öllum bæjum og borgum á Spáni, ég hef nú líklega sagt frá því áður. 
Á síðasta mánudag fórum við með Bertu Svenna og Auðunni manni hennar til Granada til að skoða Alambrahöllina og var lagt af stað eldsnemma um morguninn til að reyna að komast að til að skoða höllina. En svo var ákveðið að fresta því til daginn eftir því við vorum búin að panta okkur hótelherbergi á mjög góðu  verði. Svo það var bara keyrt i rólegheitum ef hægt er að kalla það svo á hraðbrautum og skoðuðum okkur aðeins um. Stoppuðum t.d. í Lorca þar sem jarðskjálftarnir voru fyrir tveim árum síðan. Það var voða gaman að ganga þar um bæinn og eitthvað sáum við af þeim miklu skemmdum sem urðu þar í skjálftanum.
Við keyrðum svo framhjá kúrekabænum þar sem margar kúrekamyndir hafa verið teknar, en við fórum svo hratt framhjá aflegggeranum að við gátum ekki stoppað en við sáum þetta vel úr bílnum, stoppum bara næst. Við vorum komin fyrir kvöldmat á hótelið og fengum okkur að borða á hótelinu og þar var þetta fína hlaðborð með allavega réttum og fíneríi, og gestirnir auk okkar þar voru bara japanir fimm rútur. Það var svo bara farið snemma að sofa því það var ákveðið að fara snemma að skoða höllina og þangað vorum við komin um 10.00 og vorum að skoða og labba um þarna til kl. 2.00 en þá áttum við að vera komin út, því þá kom næsta holl inn. Því miður föttuðum við ekki að panta miða áður til að sjá það flottasta í höllinni því það var allt uppselt en það þarf víst núna að panta tíma til að fá að komast þangað inn, því ásóknin er svo mikil. En þarna voru líka ansi margir japanir líklega þeir sömu og við vorum að borða með um kvöldið.  En þetta er alveg svakalega gaman að skoða. Það var ekkert sérstakt veður hálf kalt og rigning en ekki mikil. Skrítið að þegar við fórum þarna 1999 með Helgu og Lilla þá helliringdi allan tímann svo nú gátum við skoðað þetta aðeins betur, en þá var þetta fínasta ekki lokað eins og núna.
Svo var haldið heim á leið og þá kom símhringing,, hvar ert þú, ,,ég er á leiðinni heim frá Granada,,  ,,nú ég er á flugvellinum,, ,,ha, hvað flugvelli í Alecante,, já,, ,,ertu lent, en þú áttir ekki að koma fyrr en á morgun,, ,,já við erum á flugvellinum,, Þá var þetta hún Dísa mákona mín og Andrea dóttir Jóns Smára komnar, en við áttum ekki von á þeim fyrr en á miðvikudag, þess vegna fórum við til Granada með Bertu til að vera komin aftur þegar þær mættu þessar elskur. Nú voru góð ráð dýr og hringt var í besta vininn, hann Gumma og spurt getur þú reddað mér systir mín er lent og við komum ekki fyrr en eftir 3 tíma, ,,jújú ég var að koma af vellinum ég fer bara aftur,,. Það er nú óborganlegt að eiga svona góða vini. Heima hjá Helgu og Gumma sátu þær svo stilltar og prúðar og biðu eftir þessum kjánum sem hlusta ekki betur á hvaða dag á að lenda þegar fólk er að koma í heimsókn.
En allt er þetta nú í góðu lagi, það er búið að fara á markað, í stóra mollið og kaupa helling af fötum á litlu verði, og nú er legið í sólbaði uppá þaki. Þær hafa fengið eins og flestir gestir að afhýða baunir. Við fórum líka að horfa á eina skrúðgöngu ætlum líka í kvöld í Almoradí og Rafal annað kvöld nóg að gera og engum leiðist, prjónað á milli.
Eigið góða pákadaga og Guð geymi ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 12. mars 2013

Pára smá á blað

Frænkur á leið í leikhús
Frænkur á leið í leikhús
« 1 af 10 »
Það er nú ekki hægt að segja að það sé mikið skrifað þessa dagana, þetta heitir nú á góðri íslensku leti, eða það er nú ekki heldur mikið til að skrifa um. Tíminn hjá mér fer voða mikið í lærdóm á tölvunni og þá nenni ég bara ekki að skrifa á hana á eftir eða að leika mér í henni. 
Það er ósköp erfitt að vera komin á þennan aldur og altíeinu að fara að taka uppá á því að fara í skóla á netinu og hafa svo allt í ólestri í tölvunni. Ég get ekki opnað þetta sem ég á að opna og læra eftir og margir eru að reyna að hjálpa gamlingjanum að laga þetta, en það vill ganga seint. Ég er orðin alveg pollróleg yfir þessu, annaðhvort næ ég prófinu eða ekki, og það verður í vor þegar ég kem heim, gaman hjá mér. Þetta er nú meiri vinna en ég bjóst við en voða gmana að hafa eitthvað til að glíma við annað en prjónana og Dúdda.
Við fórum á þorrablótið hérna um daginn, og var voða gaman að fara og borða þorramat í glampandi sól og fínu veðri um 18 gr. um kvöldið. Maturinn var alveg svakalega góður, þó hann væri komin langa leið.
Á síðasta laugardag bauð Helga frænka mér svo í leikhús í Torrevieja og við sáum Cats sem ungt fólk sýndi af miklum myndarskap, ég hafði aldrei séð Cats áður og þetta var bara mjög skemmtilegt, allt sungið á ensku, Það var Lionsklúbbur hérna í Torrevieja sem stóð að þessu og voru seldir happdrættismiðar og svo var dregið í hléinu en við keyptum enga miða.
Dúddi var að hjálpa Gumma að losa íbúð fyrir vini sína, svo við vorum þarna um helgina. Fórum svo heim á sunnudag þegar búið var að losa næstum allt.
Það er gott að geta hjálpast að við ýmis verk sem koma uppá, ekki þekkir maður svo marga hér til að betla á um hjálp.
Hér skipast á skin og skúrir, í gær var glampandi sól en í dag hellirignir og svona hefur það verið í smá tíma en sumarið kemur um næstu helgi segir veðurfræðingurinn og ekki skrökva þeir!!!! 
Það er nú voða rólegt hérna hjá okkur í kring enginn hani eða kalkúnn á þakinu hjá Fermín, ég sakna hanans það var alltaf svo notalegt að heyra í honum á morgnana og svo aftur seinna um daginn, eftir að hann vaknaði eftir siestuna, nú er ekkert hjá honum. Hvað þau ætla að borða um pákana væri nú gaman að vita. Fermín gaf okkur helling af baunum og ætiþirslum um daginn og nú er búið að ganga frá því í ískápinn, svo dugleg húsmóðir hún Þórdís hmmm.
Þetta er nú bara gott í bili hjá mér verð bara duglegri næst eða fljótlega þegar ég fer í páskafrí en þá kemur Dísa Guðm. og Andrea barnabarn hennar í heimsókn. Það verður gaman að fá gesti.
Eigið góða daga og farið farið varlega.



Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 26. febrúar 2013

Fjarnám og annað skemmtilegt

Svona lítur portið okkar og Fermíns út í dag.
Svona lítur portið okkar og Fermíns út í dag.
« 1 af 11 »
Ég hefði nú aldrei trúað að það væri svona erfitt að byrja í fjarnámi, maður hugsaði bara sem svo að fólk sæti fyrir framan tölvuna og lærði sitt fag eða fög. Nei ekki aldeilis, að minnsta kosti ekki ég. Maður þarf bara að vera ansi góður á tölvum. Minn tími er búin að fara eiginlega bara í það að reyna að finna það sem ég á að læra, fá ný forrit og annað.
Sem betur fer er ég svo heppin að eiga 2 tengdadætur sem voru búnar að kenna mér heilmikið áður en ég fór hingað út, og svo sonur minn í Danmörku sem var í klukkutíma að kenna mömmu sinni gegnum skype hvernig hún átti að gera hitt og þetta. Svo allur tími minn á daginn fer í nám svona 4-5 timar á dag fyrir utan allt sem maður hugsar þegar maður stelst til að prjóna aðeins.
Nú lít ég allt öðrum augum á þá sem eru í fjarnámi eða bara öðru námi þetta er bölvað puð, sem maður er löngu búinn að gleyma eftir 40 ár síðan ég tók próf í því sem hét tækniteiknun, hvort það er við lýði enn í dag veit ég ekki. En þetta er alveg svakalega gaman að þrælast í gegnum þetta, með smá blóti og smá reiðiköstum yfir því að skilja ekki allt þetta  tölvudót.
Edda og Hrefna ég er stolt af ykkur tengdadætrum mínum hvað þið eruð duglegar við ykkar nám nú skil ég ykkur aðeins betur. Verst að vera svona langt í burtu til að aðstoða ykkur, sendið bara börnin hingað til mín, þá hef ég ekki tíma til að læra heheh.
Það má nú ekki gleyma skemmtanalífinu hér sem fór náttúrulega á flug um leið og við komum. Afmælisveisla og út að borða.
Vorum í 2 daga í gamla húsinu og þar fór hitakúturinn svo Dúddi skellti einum nýjum í, það tók nú lungan úr einum degi. Við vorum reyndar að bíða eftir að Þorrablótið yrði haldið, en það er ekki búið að halda það enn, verður víst á föstudaginn. Það þurfti að senda matinn aftur til Íslands út af einhverjum reglugerðum sem eru nýjar hér á Spáni, annars er ég ekki mjög fróð um þetta mál, ætla bara að mæta þegar það verður. 
Nú svo á laugardagskvöldið fórum við til lítils bæjar sem heitir San Carlos og er ekki langt hér frá, þar var okkur boðið í afmælisveislu hjá Carolinu dóttur Felí og Eladio spænsku vinanna okkar. Það var skemmtilegt kvöld innan um eintóma spánverja. Það var byrjað á danskennslu að læra Mambo, Samba og fleiri dansa svona á milli rétta og eftir matinn og á miðju balli, þetta var alveg þrælskemmtilegt góður matur 3 rétta ekta spænskur og góð vín og kostaði ekki mikið 14 evrur á mann.
Mjög skemmtilegt kvöld með góðum vinum.
Nú er fermín búinn að mála hjá sér vegginn sem snýr hingað til okkar hvítan og húsið sitt að framan sem er orðið gult. Þetta er svakalegur munur portið orðið svo bjart og fínt. Svo lætur hann rigna yfir okkur hvítlauk og ætiþyrsla voða gott saman í eggjahræru eða tortilla.
Það er best að fara að hugsa um námið aftur, kennarinn er svo góður að hún ætlar að hringja í mig á skype til að hjálpa mér aðeins að skilja þetta betur, gamli heilinn er ekki voða fljótvirkur eins og þið skiljið sem eruð komin á sama aldur.
Eigið góða daga og Guð veri með ykkur alla daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 14. febrúar 2013

Íslandsdvöl lokið í bili

Svona kvaddi Ísafjörður okkur, 5. febrúar
Svona kvaddi Ísafjörður okkur, 5. febrúar
« 1 af 12 »
Nú erum við komin aftur til Spánar eftir 6 vikna dvöl á Íslandi, það var yndislegur tími þó vetur væri. Við upplifðum aftur allar sortir af veðri. Hittum alla okkar góðu fjölskyldumeðlimi og vini. Það var ynsilegt að hitta öll börnin og barnabörnin nema Elísabetu mína sem dvelur í London að vinna.  Við gátum klárað það sem við ætluðum okkur að gera og var það að taka baðherbergið í gegn, Dúddi á nú heiðurinn að því og er það orðið svakalega flott. Á leiðinni út fórum við í  5 ára afmæli hjá Hildi Heru og okkur var víða boðið í mat hjá góðu fólki. Allt gekk vel á leiðinni út en þetta var löng ferð við þurftum að millilenda í Köben og bíða þar í 6 tíma sem var nú ekkert gaman en allt í lagi. Það var svo kalt í Köben að við nenntum ekkert að heryfa okkur af vellinum 1 sigs frost og vindur, nei takk og við illa klædd enda á leið til Spánar.
Helga og Gummi tóku á móti okkur og við gistum hjá þeim um nóttina því við lentum ekki fyrr en 23:30. Þau komu á okkar  bíl því þeirra var í yfirhalningu. Gaman var að hitta þau aftur, alltaf sama gestrisnin þar á bæ. Við komum svo hingað á hádegi daginn eftir og hittum Fermín sem var eitt bros við að sjá okkur aftur þessi elska, strax var hann komin með ætiþyrsla í matinn. Við fórum svo í bæinn að versla og var kjúklingur í matinn. Við erum búin að fara á markað í Callosa og versla helling af nýju grænmeti fyrir lítinn pening og fann maður þá hvað allt er dýrt á Íslandi uss uss. 
Svo í dag fórum við í minigolf, og Dúddi vann hvítvínsflösku, ég skil þetta ekki ef við vinnum þá fáum við hvítvín en annars er alltaf rauðvín við drekkum næstum aldrei hvítvín, kannski eigum við bara að fara að drekka það. Svo eftir golfið var farið í bowling með mannsakpnum sem var í golfinu og var það voða gaman því þar vann ég Dúdda með glæsibrag en það er nú sjaldan sem ég vinn hann í einhverju.
Svo kemur nú fréttin ég er komin í fjarnám frá Versló að læra spænsku, það gekk vel fyrstu tvær vikurnar með hjálp tengdadætra minna að koma tölvunni í stand til að stunda svona nám, ég er nú ekki mikill tölvufræðingur en svo í gær var ég alveg stopp skildi ekkert af hverju ég fékk engin ný gögn, þá þurfti ég víst að taka smá próf til að fá að halda áfram. Ég sendi email í skólann og þá fékk ég leiðbeiningar og tók prófið en einkunina gef ég ekki upp strax, því ég má taka það aftur. Svo nú ætla ég að leggjast í spænskunám að fullu því þetta er svo gaman að glíma við þetta, próf hef ég ekki tekið í 40 ár held ég.
Á laugardaginn ætlum við í afmæli til Helgu frænku og svo á þorrablót hjá Íslendingum, eitt þorrablótið í viðbót aldrei nóg af súrum pungum mundi einhver segja.
Það er eitthvað svo mikið á döfinni hjá mér að ég er að verða stressuð eins og ekta Íslendingur, en hérna á maður að slappa af, ég hef alltaf nóg að gera kemst varla til að prjóna.
Hér skein sólin í dag og hitinn 20 gr.
Eigið góða daga og farið vel með ykkur