Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 23. desember 2013

Gleðileg jól

Jólarósirnar okkar hérna úti.
Jólarósirnar okkar hérna úti.
« 1 af 10 »

GLEÐILEG JÓL

 FELIZ NAVIDAD


Nú er komin þorláksmessa hér á Spáni og þó víðar væri leitað, þó þeir haldi nú ekki uppá hann með skötuáti og tilheyrandi þá er þetta  bara venjulegur dagur hér, við höldum hann nú svona eins og heima. Skreytum jólatréð og fáum okkur saltfisk að borða því við eigum enga skötu núna en förum að borða hana 27. des. með Íslendinum sem búa hér á Spáni. Förum til La Marina.
Annað kvöld verðum við bara tvö hér heima og ætlum að borða önd í aðalrétt og steiktar rækjur að hætti spánverja í forrétt þetta er stórar rækjur sem þeir kalla Langostinos svakalega góðar svona aðeins hent á pönnu og svo pillar maður þær á meðan maður er að borða þær. 

Það hefur nú gengið á ýmsu hér á heimilinu síðustu viku, skólplögnin fór í sundur á tveim stöðum. Það var oft að hálfstíblast svo Dúddi fékk menn með háþrýstigræjur til að smúla í gegn, en þeir söðgu að eitthvað meira væri að.
Þá var kallað í menn með myndavélar og þeir sáu að þetta værí í sundur á einum stað, en þegar til kom voru þeir tveir. 
Dúddi fór að brjóta upp flísar tvær í eldhúsinu og eina á baðinu, sem betur fer voru til aukaflísar svo að ekki þurftum við að fara að leita að eins. Önnur flísin er á miðju eldhúsgólfinu.
Við fluttum úr húsinu á meðan Dúddi var í mestu skítverkunum en hann var hér  alla daga að gera við, kom svo bara á kvöldin en ég var í húsinu hjá Helgu og Gumma vinum okkar en þau halda jólin í Tyrklandi hjá Óðni syni sínum og kærustu en hann er flugmaður þar. 
Við nutum góðs af þeirra gestrisni og góðmennsku og fengum að vera þarna í viku. Takk fyrir þetta kæru vinir, ómetanlegt. Nú er þetta allt orðið gott Dúddi búin að vinna eins og skepna til að þetta væri búið fyrir jólin. Ég fékk svo konuverkið að þrífa. Það þurfti að þrífa alla veggi bæði á baðinu og eldhúsinu, því það kom svo mikið ryk af því að ná flísunum af gólfinu, baðið var bleikt af ryki, en nú er þetta allt svo fínt og flott og jólin mega alveg koma.

Um daginn fórum við í kaffiboð til Hörpu og Vishnu ásamt Gauta og Jaqulín og var það voða gaman að fá fínar kökur og gott spjall, þar voru líka aðrir vinir þeirra sem gaman var að kynnast. Maður fór svo heim með fullan poka af sítrónum frá sítrónubóndanum. Annars er bara allt í rólegheitum hjá okkur. Fjörið byrjar 29. des. þegar Óli, Díana og börn koma í heimsókn og verða farm á 8. janúar svo kemur Elísabet mín líka 4 des og verður til 7. jan. En hún kemur frá London, okkur hlakkar mikið til að fá allt þetta fólk í heimsókn.

Hafið það sem best kæru börn fjölskyldur og vinir eins aðrir sem fara á þessa síðu. Og eigið góða jólahátíð.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár þakka allt innlitið á liðnu ári það er alltaf gaman að sjá að einhver kíkir hingað inn og les hvað er í gangi hjá okkur, stundum er ég löt og þá er bara ekkert að ske.
Guð veri með ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 11. desember 2013

Jólin nálgast

Þarna er verið að undirbúa hampinn hrista úr honum rusl.
Þarna er verið að undirbúa hampinn hrista úr honum rusl.
« 1 af 10 »
Það hefur verið mikið að gera hjá frúnni sé ég, það hefur engin tími gefist hjá henni til að skrifa hér inn nokkrar línur, en svona er þetta stundum.
Nú er ég búin að tala prófið í spænsku 203 og þurfti ég að hafa mikið fyrir því að læra undir það því ég var orðin svo mikið á eftir út af rugli í mér og tölvunni. En ég sem sagt tók skriflegt próf, hlustunarpróf í gegnum tölvuna og svo munnlegt próf sem tók mig marga klukkutíma að reyna að gera, prófa margt í minni tölvu sem ekkert gekk og svo að fara og fá að gera þetta í pc tölvu sem ekkert gekk heldur, þá var bara talað við Ágúst minn þessa elsku og hann sagði mér hvernig ég gæti gert þetta og það tók þá 5 mín. að lesa inn þetta litla sem ég þurfi að segja tók 1 og 1/2 mín. Ég var nú að verða svolítið pirruð ég verð nú að viðurkenna það langaði bara til að hætta við þetta allt á síðustu mínútunum, svo kemur bara í ljós í næstu viku hvernig þetta gekk hjá mér.
Annars er lífið bara ljúft og gott hér þó kalt sé orðið í húsum á næturnar en þá er bara að kynda svolítið, annars er ótrúlegt hvað maður venst þessu vel og sefur miklu betur í smá kulda heldur en í þessum hita í húsum á Íslandi, prófið bara að sofa við opinn glugga með 12-15 gr. í herberginu.
Við fórum annars í afmælisveislu til Felí eða við buðum henni og fjölskyldu á veitingastað að borða það var voða gaman og góður matur. Einnig voru með okkur Þóra og Stefán sem eiga heima í Emburiabrava skemmtilegum bæ rétt sunnan til við Frakkland. Þau voru svo góð að leyfa okkur að gista hjá sér þegar við vorum að keyra bílinn heim til Íslands, við vorum  hjá þéim í þrjá daga, yndislegur tími. Það var svo gaman að hitta þau svo hér og fórum við með þeim út að borða og einnig með Helgu og Gumma og skemmtum okkur mjög vel. Takk fyrir samveruna Þóra og Stéfán.
Það var gaman hérna einn laugardaginn þegar við fórum á markaðinn þá var verið að sýna allavega vinnu úr hampi og hvernig þeir búa til garnið úr honum á gamla mátann, rifjaðist nú upp gamlar endurminningar frá Netagerðinni en svona var til þar. Og munið þið ekki eftir svona hampi sem hægt var að geyma greiðurnar í með hring og slaufu?
Þarna var einnig verið að sauma undir skóna sem hægt er að kaupa hér í öllum strandbúðum, allt handgert og ábyggilega ekki auðvelt. Þarna sátu konur á stólum við að hnýta net, mig langaði nú til að fá að taka í og gá hvort maður er búin að gleyma þessu! 
Rétt í þessu var verið að færa stóra kalkúnin til slátrunar hann var að verða of stór fyrir búrið, það er jólamaturinn þeirra hérna við hliðina.
Nú eru jólapakkarnir farnir af stað til Íslands en jólakortin gleymdust, sko að skrifa þau líka. En jólin koma samt við verðum bara tvö hér á aðfangadagskvöld það er bara allt í lagi við erum með góða granna þar sem fjör er. Svo verðum við líklega með smá jólafjör hér á jóladag, kemur allt í ljós ekkert stress hér. Kannski baka ég piparkökur til að fá smá jólalykt hér í hús.
Jólarósirnar eru komnar í hús ein úti og ein inni.
Eigið góða daga í jólaundirbúningi og verið ekkert að stressa ykkur á þessu,
jólin koma samt og slappið bara af og njótið þeirra.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 19. nóvember 2013

Allt mögulegt

Síðasta grillið, því það er ónýtt, og nýja borðið og lambakjöt að borða.
Síðasta grillið, því það er ónýtt, og nýja borðið og lambakjöt að borða.
« 1 af 11 »
Ég veit nú ekki um hvað ég á að skrifa það er orðið svo langt síðan ég hef gefið mér tíma til þess.
Skólinn hefur tekið ansi mikinn tíma uppá síðakastið því það fór svo mikill tími í byrjun annar við að sinna gestum svo ég var orðin svo langt á eftir að ég mátti bara sitja við í marga daga. Við fórum nú samt og hreyfðum okkur því það er alltaf svo mikið að gera í skemmtanalífinu, og svo stundum við mínigolfið alveg á fullu með öðrum Íslendingum tvisvar í viku. Við skrópuðum nú síðast vegna anna hjá mér við lærdóminn. En mér tókst samt að skila þessum prófum eða verkefnum sem ég átti að skila 16. nóv. 
Gerði það 15. nóv. og fór svo á hörkuball með Íslendingum á sundlaugarbarnum á laugardaginn. 
Helgina á undan var okkur boðið í afmæli til Eladio en hann varð 67 ára voða fín veisla hjá þeim Felí, matur á spænska vísu og mjög góður. 
Við héldum svo smá boð hérna fyrir nokkra vini sem eru með okkur í minigolfinu og var mikið fjör og gaman. Dúddi bauð öllum að fara í golf í húsbóndaherberginu, við mikla kátiníu. Svo var sungið við undirleik Dúdda og mikið stuð.
Svona hefur þetta verið undanfarið og samviskan hefur nú ekki alltaf verið góð útaf lærdómnum en nú er ég í upplestrarfríi það eru nú komin nokkuð mörg ár síðan maður hefur fengið svoleiðis frí. Ég fer í lokaprófið í þessari önn 4. des. í Algorfa hjá íslenskri konu sem býr þar og ég er nú ekkert yfir mig spennt, því ég kann ekki neitt til að fara í próf.
Það mætti nú stundum halda að ég væri að fara í doktorspróf eða Guð má vita hvað því ég tek þetta svo alvarlega að fara í eitt próf og það í spænsku sem ég er nú bara að leika mér að, til að hafa eitthvað að gera. En það er nú skemmtilegra að standa sig en falla, er það ekki?
Um daginn var Dúdda gefið voða fínt borð, það var tengdasonur Fermíns sem gaf honum það, en það var búið að liggja hérna úti hjá þeim í 4 ár, og var orðið aðeins brotið á plötunni en Dúddi er nú búin að gera við það og þetta er orðið eins og nýtt.
Annars gengur lífið hér bara sinn vanagang, það hefur kólnað ansi mikið hérna núna og verður þessa viku það eru kuldalægðir sem eru að koma hingað í hrönnum frá Íslandinu mínu, en sólin skín á daginn svo þetta er nú ekkert svo voðalegt. Það slæma er að húsin eru ekkert kynt hér eins og heima þannig að á nóttinni kólna þau mikið þegar sólar nýtur ekki við. Við kyndum arininn og gasofninn hér og svo rafmagnsofn í svefnherberginu svona áður en við förum undir sængina en þá er þetta bara fínt.
Ætla nú ekki að láta verða svona langt á milli næstu skrifa , maður dettur úr æfingu, en það verður nú samt eitthvað að gerast til að skrifa um. Ég get auðvitað gefið ykkur nokkrar uppskriftir á spænsku svo þið getið æft ykkur líka en ég horfi alltaf á kokkinn minn á daginn.
Hafið það sem best og eigið góða daga, og Guð veri með ykkur í blíðu og stríðu.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 29. október 2013

Seint en kemur þó.

Gróa, Helga og ég á bleika deginum hér á Spáni
Gróa, Helga og ég á bleika deginum hér á Spáni
« 1 af 13 »
GLEÐILEGAN VETUR OG TAKK FYRIR SUMARIÐ

Það er nú orðið ansi langt síðan ég skrifaði eitthvað síðast, það hefur bara verið svo ansi mikið að gera hjá mér og okkur. Önundur og Gróa okkar yndislegu vinir frá Ísafirð, voru reyndar að koma til Helgu og Lilla  og voru nú mest hjá þeim í gamla húsinu en við fluttum til þeirra í nokkra daga og svo komu þau hingað í sveitina í tvo daga. Þetta voru alveg yndislegir 10 dagar sem þau voru hérna. Mikið hlegið og bara margt gert bæir skoðaðir og farið á veitingastaði og svo bara samveran hún er nú það sem skiptir máli hjá góðum vinum.
Við héldum eitt heimboð fyrir vini sem fóru svo með okkur á spænskan veitingastað þar sem horft var á Flamenco og flotta stráka sem voru að syngja saman og svo var borðaður góður matur og gott vín drukkið með, Þetta var mjög góð kvöldstund.
Strákarnir fóru svo á pöbbarölt hérna í sveitinni einn daginn og fengu sér tapas og eitthvað fleira gott og góðan göngutúr því hér er langt á milli bara. Innilega takk fyrir heimsóknina kæru vinir.
Tíminn hjá mér hefur líka farið í að læra og reyna að halda mér við námið, en það hefur farið svo mikill tíma í annað,
að ég var komin langt á eftir með námið og nú er allt komið í rugling hjá mér og helv. málfræðin er alveg að drepa mig, mér finnst ég bara ekkert komast áfram, eins vantar mig svo að æfa mig í að tala, en þetta kemur vonandi ég verð kannski einhverntíma mellufær í spænsku, það er nú nóg af þeim hér á hverju torgi, kannski ég fari bara og tali við þær heheheh.
Það hefur verið ansi heitt hér í haust alveg óvenjulega, þeir segja að hitinn núna og undanfarið sé um 6 stigum hærri en hann hefur verið síðustu ár. í dag t.d. var hér 28 stiga hiti og var búist við rigingu en hún er nú ekki komin enn kl. 7. Ég hef ekki nennt að fara í sólbað því maður svitnar svo mikið að maður rennur útaf bekknum læt bara göngutúra duga þegar það er hægt.
Fermín bóndi er alltaf samur við sig færandi manni melónur, granadepli, hvítlauk og annað góðgæti, svo komu þeir hingað með stærðar tréborð til að gefa okkur sem við ætlum að setja í patíóið í staðinn fyrir það sem nú er, svolítið stórt en kannski maður haldi bara stórt matarboð eða að maður fær marga gesti í einu frá Íslandi þá er bara nóg pláss.
Á laugardaginn fórum við í fiskiveislu við sundlaugarbarinn þar var eldaður allavega fiskur sem góður maður kom með frá Íslandi og eldaði fyrir okkur hina og var þetta alveg stórkostleg veisla hjá þeim hafið kærar þakkir fyrir framtakið gótt fólk.
Í dag var ég að baka rúgbrauð því á morgun erum við boðin í afmælisveislu til Heladió og ætlum við að færa honum brauð þeim finnst það svo gott og kalla það pan negro. Vonandi hefur það tekist vel hef ekki þorað að kíkja ennþá.
Þetta er nú bara gott hjá mér eftir svona langan tíma.
Eigið góða daga og fallegan vetur og góðan og Guð veri með ykkur kæru vinir og vandamenn

Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 2. október 2013

Ferðalag til Andalúsíu

Verið að borða súpu fyrsta kvöldið í Castil de Campo
Verið að borða súpu fyrsta kvöldið í Castil de Campo
« 1 af 38 »
Nú situr maður bara inni í 35 stiga hita og ætla eg að reyna að skrifa nokkrar línur á meðan ég þurka svitann svo hann renni nú ekki niður í tölvuna. Það versta er að hitinn lækkar lítið hérna næstu daga. Við höfum enga kælinu hér bara nokkrar viftur sem stoppa ekki allan daginn. En maður hugsar bara um þennan hita í vetur og hleypur honum þá út aftur í hugsunum um hvað það er nú gott að veðrið breytist og við ráðum sem betur fer ekkert um það.
Ferðalagið til Andalúsíu var alveg frábært, við keyrðum sem leið lá fyrsta daginn í 4 tíma í húsið hennar Jakobínu eða Binnu frænku minnar, það er í litlum bæ sem heitir Castil de Campo (ef ykkur langar að skoða myndir af því þá er síða á fb Casarural Jakobina hún leigir þetta út.) Þangað vorum við komin seinnipartinn og var farið að koma sér fyrir og elda súpu ofan í okkur. Á meðan súpan sauð fóru strákarnir að skoða bæinn og fóru og fengu sér bjór hjá Felix.
Daginn eftir lá leiðin í skoðunarferð stóran hring, fórum í einn fallegasta bæ í Andalúsíu en hann stendur á stórri hæð með á allt um kring ég hef skrifað um hann áður 2010 þegar við fórum þangað með Helgu og Gumma en nú voru það Helga og Lilli. (Skrifaði einnig í sömu grein um húsið hennar Binnu
Bærinn heitir Iznájar þar er einnig stór stífla og rafmagnsstöð. Fórum í þessari ferð líka til Lucena, Capra og svo aftur heim gegnum Priego de Cordóba sem er næsti stóri bærinn við þorpið hennar Binnu. 
Næsta dag var ekið til Córdoba en við komum við í enn einu litlu þorpi með fallegum gömlum miðbæ og þröngum götum en hann heitir Martos. Þaðan var ekið til Córdoba þar var labbað um og skoðað, hittum svo vel á að finna gamla bæinn með þröngum götum, fallegum gömlum búðum og veitingastöðum. Fórum og settumst á torgið og fengum okkur kaffi og skoðuðum fólkið. Córdoba er mjög fallegur bær með fallegum görðum og húsum, mjög gaman að koma þangað, þar sem margir hafa þó sagt að ekkert sé varið í að fara þangað, við sjáum ekki eftir því. Við fórum svo aftur heim um kvödið í húsið.
Það var alveg yndislegt að hafa svona hús til umráða og geta keyrt út frá því, þá hefur maður góðan tíma til að skoða í kringum sig. Húsið hennar Binnu er stórt með fjórum herbergjum, stofu, borðstofu, flottum svölum og öðru patíói á bak við, lítið eldhús og bað. Og þorpið lítið með bröttum og þröngum götum og viðkunnanlegu fólki sem heilsar þér þegar þú gengur framhjá.
Áfram með ferðasöguna á fimmtudaginn var svo farið til Sevilla og var ákveðið að gista eina nótt þar því það þarf góðan tíma til að vera þar og margt að skoða, eiginlega alltof mikið fyrir einn dag. Við ákváðum að fara í skoðunarferð með bíl á tveimur hæðum og við sátum uppi undir berum himni og fengum heyrnatól sem við stungum í samaband til að fá að heyra sögu borgarinnar þetta tók alveg klukkutíma og fræddist maður bara nokkuð vel, við hlustuðum bæði á þetta á sænsku og ensku.Sevilla er mjög falleg borg með stórkostlegum byggingum og flottum brúm fyrir þessa stóru á sem þar rennur í gegn.  Um kvöldið fengum við okkur nokkra tapasrétti á einum staðnum og var hann alveg sælgæti og auðvitað rautt og hvítt með og svo eftirrétt á öðrum stað á torginu Plaza de Cupa fínn staður.
Daginn eftir var farið og rúntað aðeins áður en haldið var til Arcos de la Frontera en þar biðu okkar góðir vinir sem við ætluðum að hitta og eru þar í golfferð, þau Óli Reynir og Badda. Við fundum gististaðinn okkar eftir mikla leit í þröngri götu og ekki hægt að leggja bíl. Svo það var brugiðið á það ráð að senda strákana í göngutúr til að finna þetta gistiheimili María GPS vildi setja okkur úr í kirkjunni en við vorum ekki sátt við að gista þar. Æ þið vitið???.
Þeir fundu þetta eftir litla leit og var þá farið af stað aftur. Þetta var skemmtilegur staður fyrst komum við að lítilli búð og þar fyrir innan var fallegt patíó þar fyrir innan voru þrjú herbergi en við vorum búin að panta tvö saman erfitt að lýsa þessu. Þetta var alveg stórfínt hægt að fara á netið og kíkja aðeins, og þegar við vorum búin að fara aðeins í skoðunarferð þá kom húsfrúin og bauð okkur uppá þetta líka flotta kaffi hef aldrei séð svona áður eða drukkið þetta var svona froða með kaffibragði og kalt og svalandi og var þetta drukkið af öllum nema mér en þetta var ágætt á bragðið. Við fórum svo að skipta um föt til að fara og hitta Óla Reynir og Böddu á golfvellinum þar voru þau í svaklega flottu húsi alveg við golfvöllin og 9. holan blasi við af svölunum og garðinum. Það var ákveðið að fara og boðra á ítölskum stað í bænum sem fararstjórinn mælti með og var það mikið fjör og gaman að vera með þeim þarna.
Þessi litli bær er alveg einstaklega fallegur líka og allt svo hreint og snyrtilegt mjög þröngar götur og hann liggur líka á hæð ef þið eigið leið þarna um einhverntímann þá skulu þið endilega kíkja á hann.
Svo var farið heim um morguninn en aðeins kíkt á bæinn Ronda í leiðinni heim í Binnu hús og daginn eftir hingað heim á sunnudegi þá var þetta orðið vikuferðalag sem er bara gott. Við vorum heppin með veður alla leiðina ekkert svona heitt eins og er hér núna en á heimleiðinni fór að rigna og var hitinn 12,5 gr. þegar við fórum úr húsinu en orðin 30 þegar við komum hingað.
Þetta er nú orðin frekar langur pistill eða ferðasaga, ég vona að þið hafið gaman af ef þið nennið að lesa þetta.
Myndirnar sem ég set inn eru teknar bæði af mér og Helgu jafnvel Dúdda og Lilla líka.
Myndirnar eru í svolitlu rugli enda tekið á tvær myndavélar.
Eigið góða daga og Guð veri með ykkur.