07.03.2015 - 09:00

50 dagar heima

Sturta sig
Sturta sig
1 af 4

Ég er búinn að vera heima í 50 daga! Þetta er að vísu ekki í fyrsta skiptið sem ég geri þetta, yfirleitt í kringum 65 dagar törnin áður en maður getur farið að láta sjá sig. Hugsið um alla þá sem gera þetta árið um kring, þeir eru ansi margir, sem slást við langvinn veikindi alla daga. Það eru hetjur.

 

Þannig að ég þakka nú bara fyrir að fara að komast af stað. Nú fer ég vonandi að komast í endurhæfingu og þá kemst maður út á meðal fólks. Að vera svona mikið heima gerir manni ekkert gott. Maður hefur kafað í dýpstu djúp meðvitundarinnar, þreifað á þunglyndi, sem er óumflýjanlegt í aðstæðum sem þessum. Ég er búinn að detta í sjálfsvorkun, kvíða og vonleysi og allskonar vesen á mér. Aðrar aðstæður í lífinu hafa líka tekið á, eins og ástvinamissir Hrefnu ásamt ýmsu öðru sem ég ætla ekkert út í hérna. Hrefna sagði við mig að þetta hlyti að vera einskonar prófraun á okkur, ég trúi henni alveg.

 

Ég fór til læknis um daginn í Reykjavík og náði að gista undir öðru þaki eina nótt af þessum 50 og þótti mér það afar gott, gerði ferðalagið langt og skemmtilegt, sirka 35 tíma. Fór með vini mínum honum Snorra, en hann vinnur við að keyra fluttingabíl. Þetta var mesta kikkið alla 50 dagana. Lækninum leist vel á mig, en fór svo að útskýra afleiðingar og eftirköst aðgerðarinnar, en nú er fóturinn á mér fastur, frá fyrir neðan hné og niður í tær. Eins og L. Ég þarf að læra að ganga upp á nýtt við þessar aðstæður og mun ég mjög líklega alltaf verða haltur héðan frá. Mér fannst þetta ekkert rosalegt þegar hann sagði þetta við mig, einhvernvegin bara já ok, hmmm....en svo fór þetta að síast inn og ég verð að viðurkenna að þetta tekur svolítið á mig og er ég enn að melta þetta. Ég mun þurfa að nota sérsmíðaða skó með veltibotni og kannski ég nái eðlilegu göngulagi þannig.

 

Nú, þegar ég er búinn að fara á botninn andlega og líkamlega, hlýtur leiðin að fara að liggja upp á við. Þangað stefni ég allavega. Margir hafa það verr en ég og við fjölskyldan, mjög margir. Nú er ég farinn að æfa hérna heima með lóðum og á gólfi og einnig útvegaði Stebbi Dan mér trimmform tæki til að þjálfa og  stækka á mér kálfann á veika fætinum, en hann er nánast horfinn og er orðinn grennri en handleggurinn á mér. Vonandi kemst ég svo að hjá sjúkraþjálfara í næstu viku og á fætur í apríl, en næsti fundur með lækni er 21 apríl.

 

Mér hefur þótt gott að skrifa mig út úr þessum köflum í lífinu og er þessi pistill skref í því að loka leiðindarkafla og vonandi opna nýjan og betri kafla með hækkandi sól :)

 

Persónuleg markmið: Jamm, vera jákvæðari, komast á skíði næsta vetur og geta ekið mótorhjóli. Leikið við börnin, tekið göngutúra. Finna hamingjuna aftur!

 

Læt fylgja með nokkrar myndir, en ég hef reynt að dokúmentera heimaveruna , leiðist ekki á meðan.

 

PS: Svo duttu inn mjög jákvæðar fréttir um vinnu fyrir Hrefnu rétt á meðan ég skrifaði þetta, kannski er taflið að snúast, við skulum sjá til. Meira um það síðar!

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun