09.10.2013 - 13:30

Að láta drauma rætast

Druzla
Druzla

Í sumar sem leið, fór ég aðeins að hugsa um vinnuna mína og áhugamálin, og komst að því að ég vinn við áhugamálið, allavega það sem ég stunda mest, ljósmyndun. Því skaut upp í huga mér að ég gæti fengið nóg og brunnið upp ef ég gerði ekkert annað og fór að hugsa mikið um hvað veitti mér mesta ánægju hérna áður fyrr. Það var aðeins eitt sem kom upp í hugann, aðeins eitt - mótorhjól!

 

Þeir sem þekkja mig vel vita þetta, dellan hefur alltaf verið þarna og má þá nefna að ég keypti mitt fyrsta mótorhjól, eða öllu heldur skellinöðru, fyrir fermingarpeningana mína. Reyndar keypti ég 2, fyrir heilar 17 þúsund krónur. Þetta voru 2 Suzuki TS 50, árgerð 1980 að mig minnir, fann þær í Súðavík. Átti svo hjól alla tíð fram að 2004, alls 12 talsins, en þá hófst mín eyðimerkurganga, þangað til núna!

 

Í sumar fór ég að skoða hjól á netinu og langaði í gamlann garm, sem þurfti að skrúfa svolítið í, fann einn á 120.000 hérna á Íslandi, en það var í fáránlega slæmu ástandi og seldi gæinn það öðrum eftir að hafa nánast lofað mér því. Ég var því eiginlega feginn, enda ekki alveg það hjól sem mig langaði í! En það triggeraði áhugann á að finna hjól enn meira og endaði það með innfluttningi á einu slíku, en fyrst ég var að þessu, ákvað ég að kaupa tegund sem ég var alltaf veikur fyrir og vanda mig aðeins við þetta. Ég talaði við minn besta vin, sem var í heimsókn hérna á Íslandi, hann Auðunn Braga, en hann býr í Bandaríkjunum. Hann féllst á að skoða hjól fyrir mig, en ég notaði Craigslist, en þar er hægt að leita svæðisbundið og leitaði ég að hjóli í nágrenni við hann. Mikill mótorhjólafrömuður í Reykjavík hafði nýlega farið þessa leið og gaf mér góð ráð í kringum ferlið á þessu. Svo heyrði ég í Atla bróðir, en hann vinnur hjá Icetransport, sem er inn/útfluttningsfyrirtæki, og skipulagði hann alla fluttninga heim, og kom hjólið með flugi núna í september. Ók því svo vestur á Ísafjörð á kerrunni hans Húlíó. Hafði ætlað mér að aka því sjálfu vestur, en flýtiþjónusta Umferðastofu virkaði ekki alveg sem skildi og því fór sem fór :)

 

En þetta var púsluspil sem gekk upp, réttur maður á réttum stað, alla leið!

 

Hjólið er semsagt Honda CB750 árgerð 1977. Hjólið er í góðu ásigkomulagi og ætla ég að gera það persónulegt og breyta því að mínum smekk. Hægt verður að fylgjast með því hér, en ég gerði Facebook Like síðu bara til að motivate-a sjálfan mig og leyfa áhugasömum að fylgjast með. Endilega kíkið, er búinn að setja upp myndasögu alveg frá upphafi og heim komið, og smá texta með :)

 

Hjólið hefur hlotið nafnið Druzla

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun