10.01.2015 - 08:30

Allt gott

Jólakortið í ár
Jólakortið í ár

Hvað segir þú í dag? Allt gott! Þetta segjum við oft, líka þegar það á ekki við. Stundum er ekki allt í góðu hjá okkur. Ég er að fara í gegnum eitt þannig tímabil núna, reyndar í 5ta eða 6ta sinn, en hver er að telja? Það er uppskurður framundan, næsta föstudag, til að reyna að losa mig við sársauka sem ég hef lifað við í nokkur ár núna. Sumir vita hvað gerðist, en fyrir forvitna má lesa slysasöguna hérna. Nú á að stífa liðina fyrir neðan með þremur skrúfum og í framhaldi taka við 3 mánuðir í gifsi. Þá mun ég hafa eytt einu ári og þrem mánuðum til í gifsi, aðeins vegna þessa slyss, geri aðrir betur! Ég ætlaði að vera í sveinsprófinu mínu í ljósmyndun núna og eru allir bekkjafélagarnir að klára úti í Danmörku, það var sárt að fara ekki, en ég mun spreyta mig í ágúst.

 

Í framhaldi af þessu öllu saman, hef ég ákveðið að loka stúdíóinu mínu og hætta því sem ég hef verið að gera síðastliðin ár. Hvíla mig aðeins og vonandi koma ferskur til baka. Ég ætla að reyna að fá mér öðruvísi vinnu í einhvern tíma og sjá svo til að ári liðnu, þannig að ég mun ekki taka að mér neina ljósmyndavinnu fyrr en ég tel mig tilbúinn til. Að sjálfsögðu mun ég klára allt sem lofað hefur verið. Ég ætla samt að halda áfram að selja myndir sem ég tek og hef tekið og er stefnan að búa betur um þá hnúta og vinna í þeim málum á meðan ég ligg í sófanum. Ég mun einnig taka að mér alla hönnunarvinnu, nafnspjöld, auglýsingar, plaköt og þannig lagað og er stefnan að framfleyta fjölskyldunni þannig í gegnum þetta tímabil. Mér einmitt tókst að safna fyrir fartölvu með tilboðinu mínu núna fyrir áramótin og þakka ég þeim sem versluðu af mér myndir!

Þannig að ef þið vitið um einhvern sem vantar þannig vinnu unna eða ykkur sjálfum vantar þannig vinnu unna, endilega sendið mér póst í kringum mánaðarmótin :)

 

Hrefna hefur verið að sækja um vinnur hérna heima og ekki fengið neitt og algeng svör eru "overqualified" vegna menntunar hennar. Hún hefur verið að vinna í Jón&Gunnu og hefur Sigga "okkar" verið dugleg að hjálpa okkur með vinnu og svo var að koma upp á að Hrefna fær tímabundna vinnu á Sýsluskrifstofunni en það er að vísu bara mánuður, en a.m.k mánuður fékk að fylgja, þannig að vonandi fær hún meira að gera þar. Við höfum ákveðið að Hrefna sæki nú um hvar sem er á landinu og ætlum við að elta vinnuna, þó okkur langi ekkert að fara, og við vonum innilega að svo fari ekki, en við lifum ekki á loftinu einu saman. Óvissan er óbærileg og höfum við fengið okkar skammt af henni.

 

Svo eru auðvitað ljósir punktar í þessu öllu saman, en Hrefna mun svo verja ritgerðina sína á sama tíma og ég er í uppskurði og útskrifast snemma í febrúar, húrra fyrir henni!

Og tryggingarnar bættu mér upp tjónið á myndavélinni að hluta, þurfti að bæta aðeins í til að geta keypt góða vél, en nú hef ég skipt yfir í Sony, frá Canon og ætla að taka smá séns með það svona fyrst staðan er svona hjá mér :)

 

Ég ákvað að skella þessu hérna öllu á einn stað því maður er sífellt að segja sömu söguna aftur og aftur þegar fólk er að spyrja og nú setja allir allt á netið :)

 

Svo langar mig í lokin að þakka nokkrum aðilum, þið vitið hverjir þið eruð - Takk fyrir að meta það þegar ég hef verið setja myndir á netið undanfarin ár, þið eruð yndisleg :)

 

Ég sendi öllum hugheilar nýárskveðjur og þakka fyrir allt á liðnum árum, persónulega og í viðskiptum.

 

Enda þetta svo á þessum fleygu orðum:

 

"Það styttir alltaf upp og lygnir"

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun