01.01.2016 - 15:50

Anno 2015

Svona hékk sveinsprófið mitt fyrir prófdómarana.
Svona hékk sveinsprófið mitt fyrir prófdómarana.

2015 mun verða minnst sem skrýtnu ári í mínum huga. Erfitt ár, en líka ár sigra, meira að segja stórra sigra. Árið hófst hjá mér með sjöundu aðgerðinni á sama fætinum. Í upphafi var ég brattur og kátur með þetta, loks kæmi að endalokum sársauka sem ég hef lifað með í mörg ár. Sársaukinn fór loks, ég fattaði í raun ekki hversu mikill hann var fyrr en hann fór. Sigur 1!

Á þessum tíma sökk ég í djúpt þunglyndi og kvíða, ástand sem hefur reglulega dúkkað upp hjá mér síðan ég man eftir mér. Ég fór á þunglyndislyf, kvíðalyf og svefnlyf. Búinn að vera á sterkum verkjalyfjum í 5-6 ár. Ósigur 1.

Eftir þessa aðgerð fóru fleiri meiðsl að koma í ljós í skrokknum. Meiðsli sem ég hafði þróað með 15 mánaða hækjunotkun, en það er alls tíminn sem ég hef eytt á hækjum undanfarin 15 ár, einn mánuð á ári sagði við mig mæt kona um daginn! Og þá er ég ekki að telja með fjöldamörg önnur tilvik sem ég hef endað á hækjum eftir. Mýmörg atvik, ekki satt mamma? Ég ákvað að leita mér hjálpar, ég þurfti á henni að halda. Góður vinur mælti með að ég myndi skoða VIRK ( http://virk.is ) en mér fannst erfitt að troða mér á kerfið, þannig að hann hringdi bara og pantaði fund hjá henni Fanney Páls hjá VIRK hérna á Ísafirði og rak mig svo af stað. Sigur 2!

Þetta var mitt mesta gæfuspor í þessum málum öllum saman. Staðan var ekki góð á þessum tíma, við vorum blönk og ég var búinn að selja mikið af myndavélabúnaði til að lifa af. Ég fékk smáaura á mánuði frá sjúkratryggingunum og eftir að þær voru búnar, fékk ég bætur frá verkalýðsfélaginu. Hrefna var enn að vinna hjá sýslumanni þá en aðeins í tímabundnu starfi, vægast sagt, að þá var lífið frekar ótryggt á þessum tíma.

Fanney hjá VIRK tók mér opnum örmum. Hún hafði margar góðar lausnir í boði og ákvað ég eftir fyrsta fund að vera bara með af öllu hjarta, all in eins og sagt er. Ég fór að sækja skemmtileg námskeið í allskonar, í boði Vinnumálastofnunnar og Hörpu Lind iðjuþjálfa, eins og t.d körfugerð, sem ég lærði hjá Vesturafl. Þar fer gott starf fram. Ég sótti líka námskeið í fyrstu hjálp og næringarfræði. Svo var ég sendur í Sjúkraþjálfun Vestfjarða, en þar tók hann Atli við mér og hefur hann komið mér á fætur aftur. Einnig fékk ég að hitta sálfræðing sem hjálpaði mjög mikið. Öllu þessu hefði ég aldrei haft efni á án VIRK og Vinnumálastofnunnar. Sigur 3!  

Þegar svo líður fram í júní fer ég á fund hjá Fanney og upp kemur í samtalinu að ég á eftir að klára sveinsprófið mitt í ljósmyndun, ég missti af prófinu sem fór fram á sama tíma og ég var í aðgerðinni. Það var í boði að mæta í ágúst og  Fanney og Harpa hjálpuðu mér mjög mikið að komast af stað í prófið og ákvað ég, svona til að gera hlutina einfalda, að fara bara á hjólinu aftur til Danmerkur! Einfalt já, nei, ekki svo mjög, en þægilegt, því þá gat ég búið hjá Sissu og Óla í Randers og ekið í skólann sem var í Viborg, alls 100km á dag. Sissa og Óli eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Sissa passaði mig þegar ég var lítill og ákvað svo að taka við mér aftur á fimmtugsaldrinum. Óli, maðurinn hennar er kletturinn minn í Danmörku og veit ég ekki hvernig ég hefði farið að án þeirra. Ég var alls í rúma 4 mánuði inn á þeirra heimili á síðustu 2 árum. Yndislegur tími, takk fyrir hann. Ég tók prófið og náði topp einkun og er útskrifaður sem ljósmyndari! Sigur 4!

Húrra fyrir mér!

Heimferðin gekk vel og vissi ég þá af vinnu sem ég myndi ganga í, en ég starfa núna á Gamla sjúkrahúsinu við allskonar skemmtileg verkefni. Þvílík lukka að hafa ratað inn í það hús! Sigur 5!

 

Núna ætla ég aðeins inn á persónulegri nótur. Smá opinberun og má segja að ég sé ekkert tabú. Ég ætla bara að vera hugrakkur og segja ykkur sögu af mér og tilraunum í að skilja sjálfan mig. Síðasta vetur fáum við skilaboð frá kennaranum hennar Sögu. Kennarinn hafði grun um að Saga hefði ADHD. Saga er langt frá því að vera til vandræða, eiginlega bara til fyrirmyndar, en hefur átt erfitt félagslega. En okkur Hrefnu hafði grunað þetta sjálfum í einhvern tíma. Við ákváðum að láta slag standa og láta greina Sögu. Í greiningarferlinu þarftu að mæta á fundi með sálfræðingnum sem framkvæmir greininguna og taka próf og svara spurningum. Saga greindist með ADHD, skoraði nokkuð hátt á öllum prófum. Hún var einnig greind með mjög háa greindarvísitölu sem hafði hjálpað henni í gegnum sitt ADHD. Topp einkunnir alltaf. Bara óreiða,  tilfinningarússíbani, hvatvísi og hreyfiþörf með. Þegar ég fór í gegnum ferlið með henni fóru að renna á mig tvær grímur. Ég sá bara mig og mitt líf ljóslifandi fyrir mér. Allt átti við mig líka sem kom þarna fram. Hugsanir á milljón, hvatvísi, óróleiki, ör, þunglyndi og kvíði, ofurfókus, enginn fókus og allt í rugli og ekki í rugli, ofsaskap og jafnfljótur niður. Ég hef alltaf upplifað mig einhvernvegin öðruvísi en aðra, veit ekki hvernig ég útskýri það samt. Ég hef stundað sjálfsniðurrif síðan ég man eftir mér. Ég fór að skoða mig um á netinu, og tók allskonar ADHD próf og satt best að segja ace-aði ég þau öll. Sá svo að hér kemur af og til sálfræðingur sem gerir ADHD greiningu á fullorðnum og ég hafði samband og fékk tíma. Ég auðvitaði ace-aði þessa greiningu líka og er nú greindur með ADHD langt yfir viðmiðunarmörkum. Sigur 6!

Fyrir mig var þetta algert breakthrough, bara að fá að vita hvað þetta var sem var að angra mann alla tíð. Að það sé til heiti yfir það. Nú veit ég afhverju ég var svona brjálaður í skólanum þegar ég var yngri, hendandi borðum og stólum í allar áttir. Öll þessi slys og óhöpp vegna hvatvísi. Námserfiðleikarnir, afhverju skildi ég ekki stærðfræði, á prófum skrifaði ég nafnið mitt og labbaði út. Afhverju ég heyri stundum fólk tala við mig, en skil ekkert og er að hugsa um eitthvað allt annað á meðan, sé bara varir hreyfast. Í margmenni heyri ég bara skvaldur. Tilfinningarússíbanann minn, skapið mitt, sem hleypur með mig í gönur ( afsakið allir sem hafa lent í mér, þið vitið hver þið eruð ). Einhverntíman var sagt við mig að ef ég væri í góðu skapi, þá væru allir í góðu skapi í kringum mig, en ef ég væri í vondu skapi…

Regluleg kröss eftir ofvirknisköstin. Geta ekki lesið bækur.

Ókostir já, en líka margir kostir, eins og t.d hyper fokusinn minn, sem er í boði þegar ég hef mikinn áhuga eins og t.d í ljósmyndun eða mótorhjólum. Listræni hluti minn, ofurorkuna sem ég fæ ef ég þarf að koma einhverju í verk. Hvatvísi og hreinskilni. Kostirnir eru afar margir líka og má ekki gleyma þeim. En nú veit ég a.m.k hvað er að og get byrjað að vinna í mínum málum á réttan hátt. Við Saga ætlum að gera þetta saman með fjölskyldunni. Þess ber að geta að eftir greininguna hef ég lagt á hilluna öll þunglyndis, kvíðalyf&svefnlyf. Núna veit ég hvað var að orsaka þessa líðan og hef getað unnið með það. Ég er hættur að taka verkjalyf líka. Sigur 7!

 

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og erfitt en líka mjög gott. Eins og má sjá, þá eru þetta 7 sigrar á móti 1 ósigri. Og í upphafi þessa pistils var ég viss um að ég hefði tapað á þessu ári, en með skrifunum komst ég að öðru og fann fyrir þakklæti og æðruleysi. Maður verður meirari með árunum og er það bara gott :)

Best að minnast á: Hrefna lauk meistaranáminu sínu, fluttum í dásamlegt hús þar sem okkur líður mjög vel, eignaðist nýtt reiðhjól sem ég elska, Hrefna fékk nýja og góða vinnu, margar góðar stundir með vinum og ættingjum.

 

Ég á mér háleit markmið fyrir 2016. En ég ætla að setja mér nokkur þetta árið og það fyrsta er góð heilsa, því án hennar kemst maður ekki langt.

Já, ég ætla líka á skíði í vetur!

Ég ætla að létta mig um 10kg fyrir 17. mars, en þá verð ég 44 ára, ég er 90kg núna. Svo ætla ég að hlúa betur að mér og fjölskyldunni minni.

 

Hérna má skoða nokkrar myndir frá árinu, sumt frekar persónulegt en flest frekar skemmtilegt :)

Muna að smella á All til að sjá allar myndirnar!

 

Hér eru svo innilegar þakkir til:

Fjölskyldunnar, vina, allir sem standa að VIRK og Vinnumálastofnun, þó sérstaklega Fanney og Harpa Lind, Vesturafl, Sissa&Óli, starfsfólk sjúkraþjálfunar Vestfjarða, Jóna á Gamla sjúkrahúsinu og Ísafjörður, það sannast enn og aftur að hér er gott að búa.

 

Heilhugar nýárskveðjur og takk fyrir lesturinn –

Gústi ofvirki

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun