13.05.2014 - 08:13

Endalokin nálgast

Jólamyndin 2012
Jólamyndin 2012

Nú er ég staddur í Sviss hjá honum Snorra félaga mínum og á meðan rigningin beljar á rúðunum og Snorri í vinnunni fór maður að hugsa og líta yfir farin veg. Og skoða hverju hefur verið áorkað og hverjar fórnirnar hafa verið. 

Já það er bara þannig. Undanfarin 4 ár höfum við Hrefna verið í námi, Hrefna leggur stund á lögfræði við Háskólann á Bifröst og ég skellti mér í ljósmyndanám í Danmörku. Námið mitt er lotutengt og þess á milli hef ég starfað á Ísafirði. Saga Líf kom svo með mér vestur síðasta vetur og hóf nám í Grunnskólanum á Ísafirði. Systkinin hafa tekið þessu vel, en alltaf erfitt að kveðjast.

Lífið hefur verið pínulítið flókið fyrir ökkur öll og á stundum hefur þetta reynst erfitt, sérstaklega í lotunum í Danmörku. Það kemur upp mikil heimþrá af og til og núna á endasprettinum hefur mér þótt þetta erfiðara en áður. En þessu líkur öllu í sumar, svona að mestu. Hrefna líkur meistaranáminu í endaðan júní og þá kem ég heim líka. Þá eigum við bæði eftir lokasprettinn, en hjá Hrefnu felst það í ritgerðarskrifum og í gær skilaði hún inn umsókn til meistararitgerðarskrifa, vá, það er sko fullorðins! Ég verð svo heima fram í febrúar og tek þá sveinsprófið mitt í seinustu lotunni, sem spannar 5 vikur. Hrefna útskrifast á sama tíma. Þá erum við búin!

 

Stefnan er sett á fluttninga vestur og höfum við fengið hús til leigu á Engjavegi 24. Sem er hús Afa&Ömmu, og líka húsið sem við Hrefna kysstumst fyrsta kossinn og hófum svona eiginlega sambúð fyrir 12 árum, allavega höfum við deilt húsi saman síðan þá :) Sverrir ætlar svo að koma og vera hjá okkur næsta vetur og ganga í MÍ. Þannig að þá verðum við öll sameinuð!

 

Það er gott að hugsa um allt þetta í miðri lotu, endalokin nálgast, sem þíðir aðeins eitt!

 

Nýtt upphaf!

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun