08.10.2009 - 22:12

Minning - Júlíus Kristján Thomassen

Júlli viđ opnun sýningar sinnar í Edinborgarhúsinu í janúar 2008
Júlli viđ opnun sýningar sinnar í Edinborgarhúsinu í janúar 2008
1 af 19
Fyrir rúmlega viku, þann 28. september fékk ég þær fréttir að hann Júlli væri dáinn. Júlla hef ég þekkt síðan ég man eftir mér, fyrsta minningin var einhvernvegin þannig að hann og félagar hans, sem ég man ómögulega hverjir voru, bundu mig fastann við hús. En ekki lengi, voru bara svona rétt að stríða litla stráknum. Hann leysti mig fljótt og baðst afsökunar og sagðist svo þekkja hann Óla bróður en Ingi bróðir Júlla og Óli eru vinir. Í gegnum mín djammár hittumst við oft, ég Júlli og Ingi, en við Ingi höfum alltaf verið mestu mátar. Einnig vorum við Bára systir hans góðir vinir og brölluðum ýmislegt saman á tímabili. Júlli var einn aðal karlinn þegar ég var yngri og báru allir mikla virðingu fyrir þessum dreng.

Ég missti svo af Júlla í nokkur ár en undanfarin ár höfum við alltaf rætt málin þegar við höfum hist og er mér sem ferskast í minni hvað hann var alltaf duglegur að hrósa manni og hvetja til að gera betur og meira í ljósmynduninni. Hann var mikill listamaður og ég hef alltaf munað eftir honum að búa einhvað til. Fyrsta sem ég sá var leðurblaka sem var gerð úr vír og leðri og var svona frekar scary. Síðastliðin ár hefur hann svo verið í grjótlistinni og hefur gert fjöldamörg verk úr grjóti, flotta fiska og alls kyns kynjaverur og má segja að þetta sem hann var að gera sé mjög frumlegt. Einu sinni hittum við Saga hann Júlla og hann gaf henni einn nettan fisk sem Saga geymir í herberginu sínu og fannst henni það ansi merkilegt að einhver gæti gert svona úr grjóti. Júlli var duglegur að sýna steinana sína og ef maður gengur um fallegasta hverfi bæjarins má sjá listaverkin hans þar og inn í tjöruhúsi en þar hitti ég Júlla nánast alltaf þegar ég kom við. Hann hjálpaði oft við eldhússtörfin á veitingastað þeirra hjóna Magga og Rönku.

Ég gleymi því ekki þegar við Matt fórum í heimsókn til hennar Ásthildar vegna verkefnis sem við erum að vinna að og tókum við viðtal við hana. Við Matt röltum svo aðeins um heimakynni Ásthildar á eftir til að mynda og þegar við vorum að fara vildi Ásthildur að við settumst aðeins niður, hún ætlaði að segja okkur sögu af honum Júlla, en þegar Júlli var í fangelsinu gerði hann verk úr vírum stáli og nöglum og sagði hún að mikil heift og reiði hefði fylgt þessu verki. Þegar hann kom með það í húsið var auðvelt að skynja þessar tilfinningar. En einn daginn hvarf þetta verk bara og greinilega einhver kaflaskil urðu og Júlli snéri sér að steinlistinni. Hún sagði okkur söguna af innlifun og tók okkur svo inn í hús og sýndi okkur nokkur af listaverkum sonarins, sem greinilegt var að hún var stolt af. Það verk sem stóð upp úr var skúta gerð úr steini með leðursegli, algert meistaraverk. Mig minnir að skútan hafi verið nefnd í höfuðið á þeim hjónum á skemmtilegan hátt.

Ætlunin var að taka Júlla einnig í viðtal fyrir verkefnið og var hann meira en til í að vera með, en því miður hljóp tíminn frá okkur. Síðasta skiptið er ég heyrði í Júlla var svo bara rétt fyrir andlát hans en hann var alltaf svolítið spes og í rauninni datt ég næstum því af hjólinu mínu er hann kom akandi að mér og sagði hátt og snjallt að steinskúlptúrinn sem hann ætlaði að gera fyrir mig færi að verða tilbúinn, en við höfðum mælst um að hann gerði fyrir mig hnefa úr steini sem ég ætlaði svo að kaupa af honum. Hann stoppaði ekkert þarna, heldur ók bara hlægjandi í burtu, sínum prakkarahlátri.

Júlli átti sína djöfla að draga en aldrei týndi hann sjálfum sér sem stórhjarta strákur sem vildi allt fyrir alla gera.

Minning hans mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Elsku Ásthildur og Elli, Úlfur og Sigurjón Dagur, Ingi, Bára og Skafti og aðrir aðstandendur og vinir, innilegar samúðarkveðjur.

Endilega rúllið í gegnum myndirnar að ofan en þar má sjá nokkur verk Júlla.

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun