09.11.2012 - 10:30

Slysasaga - Uppgjör

Hjóliđ sem gekk frá mér
Hjóliđ sem gekk frá mér
1 af 21

Ég hef ákveðið að skrifa hér sögu mína, um slys sem að ég lenti í árið 2000. Ég fæ margar spurningar um þetta og oft hef ég þurft að útskýra ýmsa hluti sem tengjast þessu og ég held að það sé best að taka þetta saman hér og gera þetta upp, fyrir sjálfan mig. Það er tilkomið vegna þess að nú var ég í 6. aðgerðinni vegna þessa slyss og fór hugurinn að leita aftur, um þennan tíma, sem hefur verið mér frekar erfiður. Ég hef þó passað mig á að gefast aldrei upp, heldur halda alltaf áfram.

 

A.T.H: Myndirnar sem fylgja með eru alls ekki fyrir viðkvæma!

 

Árið 2000 vann ég hjá Landssíma Íslands í ljósleiðaradeildinni á Jörfa. Á sumrin vann ég við það að elta línuna um landið og skipta út eða endurreisa merkingar sem merktu hvar ljósleiðarinn lá. Til þess notuðum við Polaris 6hjól, sem er eins og fjórhjól, nema með 6 hjólum. Þetta eru stór og þung hjól og fátt sem stoppar þessa skriðdreka. Ég var staddur á Þverfjalli fyrir ofan Sauðárkrók og var ég að elta línuna upp svolitla brekku, hinu megin við nokkuð stóra á sem liggur þarna niður eftir. Ég ákvað að vera svolítið kaldur, enda vanur hjólamaður síðan um fermingu og lét vaða í frekar bratta brekku, ekkert þannig hættuleg, nema það er stór laut í enda hennar og helmingur hjólsins fer þar ofan í sem veldur því að hjólið veltur. Ég reyni að stökkva af því og eini möguleikinn var að stökkva í þá átt sem hjólið valt, en hjólið hefur mig undir og horfi ég á beinið koma út úr fætinum á mér við öklann. Ég steinlá svo í brekkunni með fullri meðvitund, líkaminn var þungur sem blý. Strax þarna áttaði ég mig á hvað hefði gerst og ég leita eftir talstöðinni sem við bárum alltaf á okkur, en skammt frá, í bíl biðu vinnufélagar mínir, þeir Valdimar og Ingvar. Ég segi þeim að ég liggi fótbrotinn upp í brekku og eftir skamma stund koma þeir hlaupandi. Valdimar ákveður að aka til byggða, en það er frekar kaldhæðnislegt, að vera að vinna fyrir Landssímann og ná svo að slasa sig þar sem akkúrat ekkert símasamband er, ekkert GSM né NMT! Valdimar þurfti að aka góðan spöl til þess að komast í símasamband og biðja um hjálp. Á meðan biðum við Ingvar upp í fjalli og eru það lengstu 3 tímar lífs míns, trúið mér, ég veit hvað sársauki er. Ingvar var ungur strákur á sínum fyrstu mánuðum hjá Símanum. Hann stóð sig vel í að hugsa um mig og til að láta tímann líða, sungum við nokkur lög, aftur og aftur. Ég trúði honum líka fyrir ýmsu, því að á tímabili hélt ég að ég myndi deyja, það var nú bara þannig. Takk Ingvar fyrir að hafa verið þarna. Mikið var ég þakklátur því að við vorum 3 þennan dag, því ég hefði aldrei getað beðið einn á meðan Valdimar ók í símasamband. Valdimar kom svo eftir rúman klukkutíma og klukkutíma síðar kemur sjúkrabíll og læknir. Þá fékk ég góðan skammt af einhverju gleðiefni, sem var svo kærkominn, að ég lék á alls oddi. Þeir þurftu svo að bera mig yfir á og allskonar torfærur svo að ég kæmist í sjúkrabílinn. Rúmum 5 klukkustundum eftir að þetta kom allt saman fyrir, fór ég í aðgerð á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Eftir þetta tóku við erfiðir tímar í að jafna sig, 3 mánuðir í gifsi, sjúkraþjálfun og þetta allt, til að komast á fætur aftur. Brjóskið í liðnum eyðilagðist vegna þess hve brotið var opið lengi og því tók við langur tími aðgerða og að jafna sig. Síðan þá hef ég farið í 6 aðgerðir til að reyna að laga þetta, af því voru 2 stífingar og 2 járnafjarlægingar. Alls 1 ár í gifsi.

 

Lærdómur:

Ég kann vel á hækjur! Og ég hef lært af þessu þolinmæði. Ég hef sætt mig við að geta ekki hlaupið eða farið á skíði og allskonar þannig hluti. 

Ég hef barist áfram í minni ljósmyndun og hef sannað fyrir sjálfum mér að það er margt hægt þó svo að það sé brugðið fyrir mann...ahemm...fæti, ég hugsaði samt oft um það í Grænlandi, að ef það kæmi ísbjörn, þá gæti ég aldrei reynt að hlaupa í burtu, og ákvað það að ef þetta gerðist myndi ég bara berjast við hann með myndavélinni!

 

Mig langaði bara að koma þessu frá mér, hef langað til þess mjög lengi vegna þess að maður fær oft spurningar um þetta og hefur maður sagt sömu söguna ansi oft. Svo er gott að gera hlutina upp!

Og síðast en ekki síst langar mig til að þakka öllum þeim sem hafa hjálpað mér á lífsleiðinni með þetta!

 

Ég þakka þér fyrir lesturinn og vil benda á að myndirnar sem fylgja með blogginu eru ekki fyrir alla að skoða því þarna má sjá fótinn á mér, með beinið úti, þannig að ef þú ert viðkvæm/ur, ekki skoða myndirnar! Læknirinn sem setti mig saman, sendi mér hluta þeirra, og þær eru mjög skýrar.

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun