16.09.2008 - 13:04

Sverrir Karl Stefánsson 1975-1996

Leiði Sverris Karls
Leiði Sverris Karls
Það er 16. september í dag. Vaknaði í morgun með hugann við Sverrir Karl, kæran vin sem lést þann 13.10 1996, þá aðeins 21 árs að aldri. Hann hefði orðið 33 ára í dag. Ég þekkti Sverrir Karl í æsku sem yngri bróðir vinkonu minnar og skólasystur, henni Selmu.  Hann var einnig vinur Atla bróðir, en þeir voru fæddir á sama ári. Foreldrar hans eru Stefán Dan Óskarsson og Rannveig Hestnes(Rannsý) og systkinin Harpa, Selma og Helgi Dan.  Einstakt fólk sem ég þekki vel og voru í rauninni fólkið sem huggaði vinahópinn á erfiðustu stundunum í þessu ferli öllu.

Þannig að alla tíð þekkti ég drenginn og þegar hann var 17-18 ára urðum við góðir vinir. Sverrir Karl kom úr stórum vinahóp hérna á Ísafirði og má segja að hann hafi verið límið sem hélt honum saman. Hann var mikill vinur vina sinna og lét hann ekkert eftir sér ef einhvað hrjáði vini hans og gekk í málin umsvifalaust við hvaða aðstæður sem er. Enda sást það í kveðjuveislu sem við héldum til minningar um hann hversu marga vini hann átti. Veislan sú var haldin upp á gamla skíðaskála og var húsið fullt af fólki sem hann þekkti og voru vinir hans og vá hvað það var gaman þetta kvöld. Einhvað sem þyrfti að endurtaka á næstu árum jafnvel?

Sverrir var mikill listamaður í sér og skildi hann eftir sig fjöldamargar myndir, ljósmyndir og ljóð sem kom út í bók sem var prentuð í kringum lát hans. Hef ég beðið um eintak af þessu í tölvutæku formi og er ætlunin að reyna að koma þessu á netið fyrir okkur öll til að skoða. Ef einhverjir eiga myndir af eða eftir Sverrir Karl í tölvunni sinni og vilja deila, er þeim bent á að hafa samband við mig. Líka væri gaman að fá myndir til innskönnunar. Stefnan er að búa til svæði á netinu þar sem þetta verður aðgengilegt og stakk Harpa systir hans upp á því að vinir gætu sent inn myndir og texta jafnvel.

Þar sem ég veit að þessi stóri vinahópur er orðinn dreyfður um allar hjarðir fór ég inn að leiði Sverris í dag og skildi þar eftir blóm og logandi kerti frá okkur öllum sem þekktum hann.

Sverrir Karl Stefánsson, blessuð sé minning þín.

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun