Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 29. febrúar 2012

29. febrúar 2012

Dúddi var að leika í bílaleik með Adolfo á laugardaginn
Dúddi var að leika í bílaleik með Adolfo á laugardaginn
« 1 af 7 »
það er nú ekki oft sem maður notar þessa dagsetningu þess vegna fannst mér alveg tilvalið  að nota hana sem fyrirsögn í dag.
Þegar Óli minn var lítill átti hann vin sem var fæddur á þessum degi og hét einnig Óli og var hann af þeim sökum alltaf kallaður Óli litli því hann var ári yngri. Þetta fannst börnunum þá ansi skrítið að hann átti bara afmæli 4 hvert ár. Ekki veit ég hvar Óli Högna er í dag, en ég bið fyrir kærar kveðjur til hans þeir sem þekkja hann og óska honum til hamingju með daginn.
Lífið hefur verið tekið með miklum rólegheitum síðan við komum frá Madrid, það þurfti að hvíla sig rækilega eftir allan þennan mat og drykk svo ekki sé nú talað um allt labbið um borgina. Nú er bara verið að dunda sér við að læra á morgnana, gera mósaik seinnipartinn og fara í sólbað í leiðinni og svo er prjónað á kvöldin, stundum skroppið í smá göngutúr um sveitina.
En sveitin er að breytast hérna í kringum okkur, þar sem áður voru appelsínutré eða sítrónutré eru nú komnir stórir akrar af ætiþristlum og ýmsu káli og hellingur af hvítlauk. Þetta er víst eitthvað markaðsöflunum að kenna þeir fá sama og ekkert fyrir appelsínur og sítrónur en mikið fyrir ætiþirsla. En eins og ég sagði um daginn um brokkolíakurinn sem var allur spændur upp viku seinna hefði hann getað selt fyrir helmingi hærra verð, þar sem ræktunin í öðrum héruðum eyðilagðist í frosti. Svona getur þetta orðið enginn veit hvað getur skeð bara á nokkrum dögum. Eins eru að rísa hér ný hús og verið að gera upp eldgömul sem voru nærri að hruni komin það er eitt voða flott hús hérna í Mudamiento sem er að verða tilbúið og á að selja, með stórum akri þetta var bara hálf ónýtt hús sem er með öllu nýju núna en hann vill fá margar evrur fyrir það skilst mér.
Á sl. laugardag fengum við góða gesti frá Madrid, Helga Þurý og fjölskylda kom í heimsókn og borðuðu með okkur kjötsúpu með kalkúnakjöti sem var mjög góð. Áður höfðum við farið í göngutúr og fórum ránshendi um akur og fengum okkur sítrónur og appelsínur, þetta er akur sem hætt er að hugsa um og verður líklega ætiþistla akur eftir einhverja mánuði. Appelsínur eru dýrar í Madrid eins og Helga segir það er allt dýrt í Madrid. Hér færðu 5 kg. af appeslínum á 2 evrur í Madrid kostar kílóið 2 evrur. Eins er með annað, glas af bjór getur kostað 5 evrur en hérna á litla barnum okkar færðu 1 bjór 1 rauðvínsglas og eina litla flösku af vatni fyrir 3 evrur. Gott að búa í Mudamiento!
Það hefur bara verið mikið að gera í dag hjá mér fyrst skólinn með nýja kennaranum henni Isabellu, svo fór ég að skrifa og svo í klippingu og eldaði svo fyrir okkur steikan fisk með frönskum sósu og salati.
Og svo kemur landsleikur í fótbolta milli Spánar og Venesúela á eftir, áfram Spánn.
Eigið góða daga elskurnar.