Ţórdís Guđmundsdóttir | sunnudagurinn 14. desember 2008

Desember

Jólaljósin komin ákirkjuna í Torrevieja
Jólaljósin komin ákirkjuna í Torrevieja
« 1 af 10 »
Í mínum huga var alltaf heitt á Spáni, og þegar við vorum að íhuga að fara að búa hér á veturnar, þá hugsaði ég aldrei um að það gæti verið kalt, jú það var búið að segja manni það og við fórum með hlýju fötin okkar, sem voru nú reyndar öllum stolið en það er önnur saga. Núna í desember er nefnilega búið að vera óvenju kalt hér og þá meina ég kalt, ekki eins og heima heldur Spánarkuldi sem er allt öðruvísi en sá Íslenski. Það er nefilega svo mikill raki hér. Í 10 stigum eins og núna hefur verið undanfarna daga seinnipartinn og á morgnana er svona eins og kaldur sumardagur heima, eða hlýr vetrardagur.
Hér inni erum við nú búin að læra að hafa heitt án þess að kynda eins og brjálæðingar með rafmagni sem er dýrt hér að okkur finnst. Við erum nefnilega búin að læra að láta sólina hita það upp fyrir okkur, eins og Spánverjar gera. Húsið er gott, og þarf ekki að kynda það í 9 mánuði á ári en þess meira hina 3. Við fórum í hjóltúr áðan og þurfti ég að hafa hanska það var bæði vindur og engin sól og þegar við komum hingað heim kom bölvað rok og rigning. Enda bara 11 gráður úti.
En mikið er nú gott að vera laus við snjóinn, aldrei þurfa að moka neitt eða skafa af bílnum oooooooooo gott.
Annars höfum við nú bara verið róleg þessa vikuna, verið að ditta að hér heima og setja upp jólin, en mig vantar bara allt skrautið mitt gamla. það eru til svo fallegir jóladúkar hérna að ég skreyti bara með þeim og svo jólarósir sem fást hér í þúsundatali ég keypti tvær í gær á 5 evrur.
Á sl. föstudag fórum við í heimsókn með Helgu (nýju frænku minni ) og Guðmundi manninum hennar, til frænku hennar sem heitir Harpa og á sítrónubúgarð hér ekki langt frá eða nálægt Orihuela. Mikið var gaman að koma til hennar og mannins hennar þau keyptu næstum niðurfallið hús og eru búinn að vera að gera það upp núna á 4 ár, og mikið verður þetta skemmtilegt hjá þeim þegar það verður búið. Gaman að fá að sjá hvað aðrir eru að gera hér þetta var alveg ótrúlegt hjá þeim, en þau eru út í sveit eins og við en með stærðar sítrónuland.
Í kvöld höfðum við góða gesti. Auðunn og Fríður komu og borðuðu með okkur saltfisk.
Nú bíðum við bara eftir jólunum ekkert stress bara tíminn látinn líða, og gert það sem mann langar til, en við mættum nú alveg vera duglegri í því að þvælast um.
Það mætti nú stundum halda að maðurinn minn væri í vinnu og hefði það gott á tímann hérna á sínu vinnusvæði, því þar mætir hann strax eftir morgunverð og hættir þegar kvöldar, hann hefur nóg verkefni næsta mánuðinn hugsa ég við að dunda og ditta að, fara út og hjóla, sækja smá spýtu hingað og þangað kannski einn stein með, nokkur glerbrot fyrir mig og saga í eldinn. Alltaf nóg að stússast.
Fínir dagar hér í desember.
Set svo fleiri myndir í ýmsar myndir.