Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 8. júní 2012

Ferðalagið heim með bílinn III

Þórshöfn
Þórshöfn
« 1 af 10 »
Nú er orðið langt síðan tími hefur gefist til að klára að skrifa um ferðalagið heim. En sjóferðin með Norrænu var bara engin skemmtisigling, mig er alveg hætt að langa í skemmtisiglinu um Karabíahafið, Atlantshafið fór alveg með þá löngun.
Við fórum frá Hirzhals á laugardegi síðdegis eftir langa bið og leiðinlega. Veðrið var fínt um nóttina og næsta dag fór það að vesna og var sagt að við værum að fara inní 6m ölduhæð um kvöldið. Við vorum nú svo skynsöm að við keyptum okkur sjóveikitöflur í Þýskalandi og má segja að þær hafi alveg bjargað þessari sjóferð. Um kvöldmatarleytið fór skipið að taka ansi miklar dýfur, skuturinn hentist upp í loft og þar sem matsalurinn er þar aftast fór maturinn út um allt og skrækir og öskur hljómuðu um salinn. Þarna voru danskir krakkar að fara í heimsókn til Færeyja og voru ansi miklir píkuskrækir þegar maturinn og gosið flóði um allt. Svona var þetta alla nóttina og varð maður að skorða sig í kojunni til að velta ekki út á gólf. Maður gat nú lítið sofið fyrr en undir morgun þegar skipið var komið til Þórshafnar. Maður svaf út og þegar við komum upp sáum við að það var búið að fresta brottför frá Þórshöfn um sólarhring vegna veðurs, gaman gaman, eins og mann var farið að hlakka til að koma heim. Við fórum svo í göngutúr upp í bæ en það var svo kalt úti, slydda og mikill vindur og hitinn um 1-2 gr. og svo sjóriðan hún var nú ekki til að bæta upp á göngulagið.
Það var nú lítið gert þarna við bara nenntum ekki út í þetta veður þennan dag, en daginn eftir fórum við aftur á kreik fengum okkur að borða, og þarna smakkaði ég það alversta dietcoke sem til er ojjjjjjj.
Það var aftur lagt af stað um 6 leytið og eftir nokkra tíma byrjaði veltingurinn aftur og ölduhæð eitthvað svipuð og þetta var eins, bölvaður veltingur alla leið til Íslands, það var ekki fyrr en við siglinguna inn Seyðisfjörð sem veðrið fór að batna. Ferleg sjóferð þetta, það skemmdust víst nokkrir bílar þarna um borð. Þeir buðu uppá 2 fríar máltíðir út af seinkuninni en ansi voru samt margir sem ekki höfðu list 'a að borða og svo var Ragnar Ingi um borð sem kokkur og bauð hann okkur uppá fínar mátíðir og takk fyrir Ragnar það var voða gaman að hitta þig.
Það var komið að bryggju um tvöleytið og þa´tók við biðröð að komast frá borði og gekk það bara vel fyrir sig. Og þá áttum við eftir að bruna í Bifröst sem var fyrsi áfangastaður hjá Ágúst og Hrefnu. Þetta var löng keyrsla eftir svona svaðilfarir á sjó og vorum við orðin ansi lúin um kvöldið þegar við komumst alla leið í rúmið. Við vorum svo heppin að Svenni bróðir og Ása voru að fara norður og fengum við okkur kaffibolla á Blönduósi gaman að hitta þau.
Á Bifröst vorum við í 2 daga og þá var haldið áfram lengra suður og fyrst til Atla Geirs og Eddu en þar gistum við.
Hektor sonur Helenu átti svo afmæli á laugardeginum 19. maí og þangað var farið í veislu. Mikið var gaman að hitta alla fjölskyldumeðlimi aftur og okkur vel tekið knúsuð og kysst. Maður finnur hvað maður er ríkur þegar maður sér hópinn sinn aftur. Svo eftir nokkra daga fyrir sunnan var haldið vestur á Ísafjörð og svo aftur í bústaðinn og svo aftur á Ísafjörð, svo það er hægt að segja að við séum á eilífu flandri. Nú erum við búin að afhenda Tangagötu 8 og Dúddi alveg að klára bílskúrinn og þá verður hægt að anda léttar.
Eigið góða daga.