Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 3. mars 2011

Fyrirlestur

Hádegismatur á þakinu, kjötsúpa með miklu  grænmeti
Hádegismatur á þakinu, kjötsúpa með miklu grænmeti
« 1 af 5 »
Það er óhætt að segja að það er margt sem maður gerir hér sem manni hefði nú aldrei dottið í hug að gera heima.
En svona til að brjóta upp þennan venjulega dag þá fórum við Dúddi á fyirlestur á spænsku sl. laugardag. En þannig er mál með vexti að Helga Þurý frænka Dúdda bauð okkur með sér og haldið ykkur fast, við fórum á fyrirlestur um Herbalife í Santa Pola ásamt annari konu frá Íslandi. Hún var nú reyndar búinn að bjóða mér þetta áður, en þá var hann ekki haldin. Þetta  var kl 6 um daginn og Dúddi keyrði mig til hennar og ætlaði svo heim aftur og sækja mig svo, en þær plötuðu hann til að koma með. Þetta var ansi fróðlegt þó maður skildi nú ekki mikið af því sem sagt var. Þarna kom fólk upp og sagði hvað það væri búið að losna við mörg kíló og voru þau ansi mörg hjá sumum, svo komu aðrir og sögðu hvað þeir væru búinir að græða mikið á að selja þetta. Maðurinn sem stjórnaði þessu var ansi skemmtilegur og sagði brandara. Hann sýndi myndir  af því hvar hann vann á markaðnum þegar hann var ungur og fyrstu íbúðina sem hann bjó í og svo húsið sem hann býr í í dag ásamt fínu bílunum sem hann á núna. Það er stór sundlaug í garðinum hjá honum og á botninum er merki Herbalife sem flugmennirnir sjá þegar þeir fljúga yfir á leið til lendingar í Alecante. Á eftir fengum við svo nokkra Tapas rétti frítt vín og öl. Þetta var bara ansi skemmtilegt og tók 2 tíma. Gaman að prófa eitthvað svona bara talað á spænsku.
Nú er ég búinn að finna þessa fínu sápuóperu í sjónvarpinu sem ég horfi á á daginn kl. 5, alveg ekta sápa sem Dúddi kallar Leiðarljós en er nú ekki eins leiðinlegt. Þetta heitir á spænsku Soy tu duena og google orðabókin þýðir á íslensku Ég er húsbóndi þinn, þetta snýst að sjálfsögðu um ást, afbrýði, lygar og svik eins og góð sápa. Það er unga fallega og góða  stúlkan sem er voða rík eftir foreldra sína, vonda unga frænkan sem heldur við unnusta góður frænkunnar, svo er mamma vondu stúlkunnar og barnfóstran og svikuli unnustinn, og ég býð spennt hvort það verði af flotta brúpkaupinu, þetta er nú ekki komið langt, en er þetta ekki bara góð lýsing hjá mér.
Mér finnst fínt að sitja og hlusta á spænskuna hafa textavarpið á þá skil ég meira og þetta er bara góð kennslustund sem ég fæ þarna. Kokkurinn minn sem ég horfði á í fyrra er komin á aðra stöð og er alltaf þegar Dúddi horfir á gömlu kúrekamyndirnar svo ég hef alveg misst hann úr í vetur. Svo sápan kemur í staðinn.
Annars er ansi kalt þessa dagana og lítið hægt að dunda sér við mósaik og ég ákvað  að taka mér viku frí frá prjónunum það er bara ansi erfitt að sitja og gera ekki neitt og því er ég duglegri við spænskunámið.
Við fórum með góða fína bílinn okkar í skoðun í dag og allt gekk vel.
Hlakka til á morgun, segi frá því seinna.
Allir dagar eru góðir dagar og hafið það sem best.