Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 27. janúar 2010

Gúrkutíð

Kaktusarnir blómstra nú samt
Kaktusarnir blómstra nú samt
« 1 af 9 »
Ef ég á að segja eins og er þá er hér voðalítið fréttnæmt eða skrifþurð, ef það má segja svo, hér er allt í svo lágum gír vegna þess að veðrið hér er alveg einstaklega skrítið. Alltaf hægt að tala  um veðrið, því það ræður svo miklu um hvað við gerum á þessum og þessum tíma ekki satt. Hér hefur verið leiðinlegt íslenskt sumarveður alveg síðan í byrjun árs. Kalt, rigning og næstum snjóað en ekki hér á okkar svæði við höfum sloppið svona með heppni. Það hefur verið kalt núna alla þessa viku svo arininn og gasofninn sem Jón og Elín létu okkur fá hafa alveg bjargað lífi okkar hér, takk fyrir enn og aftur. Svo höfum við auðvitað verslað við rándýra Ibendrolu sem er okkar Okrubú.  Ég veit að það hefur verið góður vetur heima og kannski stundum hlýrra hjá ykkur, en hér er miklu bjartara og einhvern veginn blíðari veðrátta þó hitastigið sé kannski það sama, rakinn vill stundum vera leiðinlegur en svo kemur sólin og þá brosir maður aftur við lífinu og tilverunni.  Það snjóar nú enn fyrir norðan og skrítið að sjá skaflana á götum Spánar, bara vitlaust veður og kafaldsbyl.
Við höfum það samt alveg svakalega gott. Dúddi er enn að dunda við sturtuna og laga vaskinn sem hann ætlar að hafa fyrir sig til að raka sig, en þetta rými þarna frammi sem er eins stórt og allt húsið hefur verið skírt og heitir nú húsbóndaherbergið, og það með réttu, því þar er hann öllum stundum, það er nú með þeim stærri húsbóndaherbergjum sem ég hef séð. Ekki lítill bílskúr eða kjallarahola nei, 63 fermetrar að ég held. Það var Dedda litla systir hans sem fann þetta nafn á það og er það fínt, ekki bakherbergi eða bakgarður.
Svona aðeins til að viðra okkur fórum við í bíltúr til Crevillente í gær og fengum okkur göngutúr um bæinn, vorum nú reyndar í útjaðri hans en þar voru ekkert nema arababúðir og var ansi gaman að kíkja þar inn ægði öllu saman föt matur og rafmangstæki, ekkert verðmerkt þurftir að prútta held ég en við létum það nú vera. Þetta var svona tilbreyting frá Kínabúðunum sem við köllum svo og eru hér út um allt, annað á borðstólum þar.
Það rignir yfir okkur appelsínum og káli frá Fermín svo það er mikið borðað af þessu.
Hann hristir sig allan og segir fríó, fríó, kalt,kalt.
Góðir og kaldir dagar, en sól framundan. Guð veri með ykkur.