Þórdís Guðmundsdóttir | laugardagurinn 3. september 2011

Hittingur árgangs 47 frá Ísafirði

Tekin af svölunum hjá Stúdíó Dan
Tekin af svölunum hjá Stúdíó Dan
« 1 af 10 »
Eitt af því skemmtilega sem við höfum gert í sumar var að hitta árgang 47 frá Ísafirði. En á síðustu helgi héldum við uppá 50 ára fermingarafmælið okkar. Það var vel mætt við vorum 64 með mökum. Við hittumst við Hótelið kl. 11 á laugardagsmorgni og löbbuðum uppí kirkjugarð og lögðum blóm á leiði 3 skólabræðra okkar sem þar eru jarðaðir. Einn er jarðaður í garðinum í Engidal og fórum við með blóm þangað daginn áður.
Síðan röltum við um Ísafjörð, niður í bæ og um gömlu göturnar í fylgd Sigurðar Péturssonar sagnfræðings og var það ótrúlega fróðlegt og margt sem maður vissi nú ekki um sinn fæðingarstað og þá skemmtilegu sögur sem hann sagði okkur um gamla Ísfirðinga. Við kígtum við í Stúdíó Dan í gömlu Rækjustöðinni og þaðan fórum við í Tjöruhúsið og fengum hina rómuðu fiskisúpu sem Maggi Hauks eldar. Það kemur víst fólk alla leið frá útlöndum bara til að borða í Tjöruhúsinu.
Um kvöldið eða um 7 leytið hittumst við svo á Hótel Ísafirði til að borða hátíðarkvöldverð og var þar mjög góður matur og fallega fram borin, Humarsúpa, lambafillet, og ávextir með ís á eftir. Ásdís Magg hélt hátíðarræðu og margir brandarar flugu um loftið og gamlar sögur síðan við vorum yngri.  Skemmtileg stund með gömlum skólafélögum. Þar sem gömul vináttu bönd voru bundin, og góð vinátta á milli okkar.
Það er svo dýrmætt að eiga svona góða félaga sem maður hefur þekkt frá því maður byrjaði í skóla og hefur þekkt alla tíð síðan. Það slitna oft bönd en það er ekki erfitt að binda þau aftur með því að hittast svona, eins og okkar árgangur hefur gert á fimm ára fresti og stundum oftar, alveg frá því við vorum að ég held 15 ára gagnfræðingar.
Takk fyrir ánægjulegar stundir öll sem mættuð og vonandi sjáumst við sem fyrst aftur.
Nú erum við Dúddi lögð af stað frá Ísafirði, byrjum í Bifröst en í dag var Hrefna tengadóttir mín útskrifuð úr frumgreinadeild hér við háskólann, hún er svo að fara í lögfræðina og byrjar á mánudaginn. Duglega kona, Ágúst sonur minn er í Danmörku að læra ljósmyndun svo hún er ein hér með börnin tvö, þangað til í byrjun des. þegar hann kemur heim úr sinni fyrstu önn.
Hér voru einnig í dag Atli, Edda og börn en Edda er að byrja í frumgreinadeild utanskóla með lítið barn á brjósti, þetta eru alveg hörkuduglegar tengdadætur sem við eigum, húrra fyrir ykkur, ég er mjög stolt af ykkur.
Við Dúddi höldum svo áfram með smá viðkomu á Akranesi eða ég en Dúddi fer áfram í Kópavog til Helenar ég kem svo seinna.
Eigið góða daga.