Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 22. nóvember 2010

Húsbóndaherbergið

Krossinn sem er efst á fjallinu
Krossinn sem er efst á fjallinu
« 1 af 10 »
Það er nú bara orðið langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér. Það hefur bara verið nóg að gera hér í sveitinni.
Við fórum í Ruda Verde göngutúr á laugardeginum og var það 1 1/2 tíma göngutúr með leiðsögumanni, við höfðum reyndar farið í þessa göngu í fyrra líka, en það er alltaf gaman að labba þetta með öðru fólki, það var nú ekki margt núna.
Dúddi fór svo í göngutúr  með Ignacio á sunnudagsmorguninn kl. 8. Þeir keyrðu að Orhiulea fjallinu og löbbuðu upp, það var reyndar keppni í gangi þess vegna fóru þeir svona snemma til að sjá hlauparana koma í mark, en Dúddi vissi það nú ekki en það voru margir sem tóku þátt í þessu hlaupi, annars get ég voða lítið sagt um þessa ferð því ég fór ekki hann bætir kannski einhverju við þegar hann les þetta yfir eins og alltaf.
Þegar hann kom heim þurfti ég að hreyfa mig, svo við fórum í hjóltúr til Catral sem er bær hér við hraðbrautina við vorum um 30 mín að hjóla þangað, svo fórum við aðra leið heim og komum við á bensínstöðinni þar sem við stoppum oft og fáum okkur eitthvað en þar er fínn bar og veitingahús. Þar var voða gaman að sitja í sólinni og horfa á krakka leika sér inní blöðrum sem flutu á sundlaug, þau veltust um og voru að reyna að hlaupa en það gekk nú ekki alltaf sem best hjá þeim. Þarna sátum við lengi og horfðum á.
Vikan hjá Dúdda hefur nú eiginlega öll farið í að klára að laga húsbóndaherbergið sitt, það er búið að setja upp eldhúsinnréttinguna og laga allt þar í kring svo þetta er orðið allt annað. Setja líka skilrúm fyrir ofan sófann og ditta að þessu og hinu voðalega fínt hjá honum núna. Ég bara prjóna og prjóna og hekla inná milli . Það hefur bara ekki verið nein vinna í gangi þessa viku eitthvað aðeins einn daginn sá ég, það hefur verið svo mikill vindur og kalt á morgnana þau sitja kannski einhversstaðar í skjóli sem ég veit ekki hvar er. Það er ekki búið að fastráða mig ennþá eða að semja um kaup, þá gerir maður auðvitað ekki neitt. Ég þarf nú að fara bráðum hvítlaukurinn er að verða búinn.
Við fengum góða gesti á laugardagskvöldið og var þá boðið uppá spænska og íslenska rétti, það var voða gaman og tókst bara vel að ég held og allir skemmt sér vel. Takk fyrir komuna kæru vinir.
Það er aðeins farið að kólna núna sérstaklega á nóttunni en við höfum góðar sængur svo okkur er ekki kalt. Sólin skín núna en það er ansi mikill vindur. Ég ætla að fara núna uppá þak að hengja út þvottinn sem verður svo orðin þur eftir svona tvo tíma.
Eigið góða daga.