Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 5. ágúst 2010

Júlí

Flottur pallur!!!!!!!!!
Flottur pallur!!!!!!!!!
« 1 af 10 »
Langt síðan síðast.
Það er óhætt að segja að það hafi verið nóg að gera hjá okkur þennan júlímánuð. Pallurinn var kláraður á afmælisdaginn minn þann 5. júlí með miklum glæsibrag, hann er sko flottur þessi pallur og eigandinn er mjög ánægður með hann. Fín barnapía, því strákarnir geta hlaupið í hringi.
Það var svo haldið heim dainn eftir á gömlu bílunum þessum 20 og 25 ára og gekk ferðin vel, nema hvað ég var orðin ansi þreytt á síðasta kaflanum og var bara farin að keyra á 50 síðustu kílómetrana. Það var haldið  á Ísó til að undirbúa ættarmót Góustaðabræðra sem haldið var 9-11 júlí á Góustöðum sem er hér fyrir innan bæinn. Þessi mót hafa verið haldinn á 5 ára fresti síðan 1980 og hafa alltaf verið vel sótt, enda alltaf mjög skemmtileg og við höfum haldið góðu sambandi sérstaklega þau sem alltaf hafa mætt. Við fengum líka mjög gott veður eins og alltaf, þar er bara eins og einhver komi og þurki skýin af himninum þessa daga. Því það var ansi kalt dagana á undan. Það var startað á föstudagskvöldinu með súkkulaði fyrir börn og fullorðna og við maulum Sæmund í vinnugallanum með. Á laugardeginum var farið í kirkjugarðinn svo var farið í gönguferð um Holtahverfi. Ratleikur fyrir alla og leikir fyrir börnin á eftir. Hátíðakvöldverður var svo borðaður um kvöldið. Fyrst fengu allir að smakka nýsoðnar rækjur, pylsur fyrir þá sem vildu, og svo kom lambalærið með öllu tilheyrandi, kryddað og eldað af Magna yfirkokk ásamt lærisveinum, sósan búinn til af Ágúst, og salatið af stelpunum með Höllu sem salatvörð. Þessu var svo skolað niður með hinum ýmsu drykkjum eftir smekk hvers og eins. Það voru svo skemmtiatriði frá hverjum bróðir og voru þau af ýmsum toga og allt skemmtilegt.
Eftir þetta góða ættarmót fórum við í sveitina til að slappa af og skemmta sér áfram með börnum og barnabörnum og feiri gestum. Atli Geir og Edda komu með börnin, Saga Líf var í pössun og Arna Lára kom með selpurnar sínar svo þetta var ansi skemmtilegt og góð vika. Og svona hefur þetta gengið hjá okkur mikill gestagangur og mikið fjör. Já ekki má gleyma Ögurballinu en þar mættum við snemma kvölds og skemmtum okkur vel, en fórum snemma heim af Ögurballi eða kl. 2:30 en það þykir snemmt á þeim bæ.
Svona get ég talið upp skemmtilegheitin hjá okkur. Þá má segja að veðrið sé búið að leika við okkur en það hefur verið Spánarveður hér hjá okkur allan júlímánuð eða eins og góðir vetrardagar eru hjá okkur á Spáni.
Dúddi hefur farið á sjóninn og hann fékk nokkra þorska og ég bjó til nokkrar fiskibollur handa okkur eða um 115 stk. gott að eiga það í kistunni hjá Ágúst og Hrefnu, en þar erum við þegar við erum hér á Ísó, eins og núna.
Hvenær ég skrifa næst veit ég ekki, við förum í sveitina á morgun og komum eftir helgi til baka.
Eigið góða daga öll, þótt hann fari að rigna aðeins ekki veitir berjunum af að fá aðeins vökva.