Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 9. júní 2008

Lífið hér heima

Saga og Sverrir að syngja saman
Saga og Sverrir að syngja saman
« 1 af 9 »
Það hefur bara verið gott að vera hér heima, ganga í vinnuna, sækja Sögu á leikskólann og bara fara heim og prjóna. Það er svolítið gaman að vinna í barnafatabúð, þó mér þyki svakalega leiðinlegt að vinna í búð. Ég kann voða lítið á öll þessi númer á barnafötunum, hvað börnin eru gömul og hvaða númer þau nota, þá hugsa ég um mín barnabörn og reyni að muna hvaða númer þau nota þá gengur þetta nú nokkuð upp hjá mér.
Á síðastliðin föstudag var haldið hið árlega Skarðeyrarpartý starfsmanna bæjarskrifstofunnar á Ísafirði og var þetta haldið í fimmta sinn. Ég er nú fyrrverandi starfsmaður en fannst alveg voðalega gaman að þau vildu koma aftur í heimsókn í sveitina. En nú er komin hefð á þetta. Alltaf byrjað á því að fara í krikket eftir reglum Skarðseyrar og er yfirleitt mikið fjör í þessum leikjum. Þeir sem vinna þora yfirleitt ekki að koma aftur til að bjarga titlinum, eða ég fer að halda það. Í ár vann mannauðsstjórinn Gerður með miklum glæsibrag. Svo var sungið fyrir Halldór en hann hefur verið bæjarstjóri í 10 ár. Við vorum alveg einstaklega heppin með veður en það var logn og sólin skein svo erftitt var að hætta. Kæru gömlu vinnufélagar takk fyrir komuna og þið vitið að þið eruð alltaf velkomin aftur, eins þeir sem ekki voru þarna.
Nú er Dúddi komin í vinnu inní djúpi nánar tiltekið að keyra ofaní veginn í Ísafirði eða þar var hann í gær og hann gistir í Reykjanesinu og er bara ánægður með sig. Mikið er það skrítið að hafa hann ekki hérna hverja stund, eins og við vorum saman i átta mánuði, nú sjáumst við á 10 daga fresti í smátíma, það er eins og hægri hendin sé farin af eða þannig. Mikið verður gott þegar haustið kemur aftur.
Nú er ég barnapía því hjónin á bænum skruppu til borgarinnar og skildu gömlu konuna eftir með börnin, en þetta er nú lítið mál Saga fer í leikskólinn og svo er að sjá til þessa að Sverrir borði og fari á fótboltaæfingu, og elda kvöldmat. Þegar ég opnaði útidyrahurðina í morgun og var að fara með Sögu í leikskólann voru tveir fullir plastpokar af fiski á tröppunum. Ný Ýsa flökuð og flott og svo líka þverskorin sem verður borðuð í kvöld mammmmmmmm. Ég veit ekki hver kom með þessar kræsingar hingað en takk kærlega fyrir frá okkur öllum hér í Tangaötu þetta var fallega hugsað láttu vita af þér.
Fallegir góðir sumardagar í vændum