Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 28. janúar 2013

Mallakútar, Góustaðaþorrablót og fl.

Skrapdagur
Skrapdagur
« 1 af 17 »
Það hefur nú bara verið svo mikið að gera hjá okkur Dúdda þennan mánuð, að það mætti halda að við værum í fullri vinnu frá 8-5 eða þannig. Það er líka búið að gera margt. Vinnan við baðherbergið hefur gengið alveg ljómandi vel hjá honum, fyrir utan nokkrar truflanir. Hann þurfti að stoppa eina helgi svo hægt væri að halda hér Mallakútaboð sem ákveðið var að halda fyrir hina Mallakútana. 
Mallakútar voru stofnaðir á seinnihluta síðustu aldar, nákvæmlega veit ég ekki því við vorum boðin innganga seinna þegar þeir fyrstu sem stofnuðu hann fluttu til Reykjavíkur til að fara í skóla. Það er búið að vera ansi gaman að vera í þessum klúbb hann er haldin 4 sinnum á vetri en við erum 4 pör í honum. Þó svo við höfum horfið héðan á veturna hafa þau alltaf haldið fyrir okkur eina veislu þegar við komum heim eða áður en við förum aftur. Það hefur margt verið brallað og mikið eldað það hafa verið haldin þemakvöld og þá með mat frá ýmsum löndum eða eitthvað aldurstengt. Við höfum haldið sushimatarboð þá kom Óli sonur  minn og eldaði flott sushi fyrir okkur og bar matinn fram á steinum. Einu sinni vorum við með þema aldamótin 1900 og þá var slökkt á öllum ljósum bara kertaljós og maturinn þá var fiskihlaup, kæfusteikt læri og ávaxtagrautur á eftir. Ljósin voru svo kveikt á miðnætti og þá spiluðum við Megas. Já einu sinni fórum við til Portugals í matarferð og var þa ansi gaman að fara alltaf á valda staði til að borða sem var búið að pikka út af góðu fólki. Alltaf reynir maður að hafa einhverja framandi rétti eða eitthvað sem maður er ekki alltaf að elda. En sem sagt hér var haldin í litlu íbúðinni Mallakútaboð þann 12. janúar og vorum við með rétti frá Spáni, aspargus með reyktum laxi að hætti Karlosar og svo kjúklingarétt með súkkulaðisósu og rækjum sem ég hef eldað áður á Spáni. Þetta gekk vel í mannskapinn. Takk fyrir skemmtilegt kvöld, Magni, Svana, Halla, Hafsteinn, Óli og Badda.
Svo helgina á eftir var svo Góstaðaþorrablótið sem er árlegur viðburður hér á Ísafirði og koma þá saman þeir sem eiga ættir að rekja til Góustaðabræðra og erum við bara þó nokkur sem enn búum hér. Þetta blót er búið að halda í líklega um 30 ár og er alltaf vel mætt og eru margar hefðir sem eru haldar eru þar í heiðri. Alltaf er spurningakeppni sem einhver tekur að sér að stjórna og búa til spurningar og er þetta ómissandi og mikið fjör í kringum, börnin sjá um að skemmta okkur hinum og hafa þau gaman af því að láta okkur hin gera ýmsa hluti. Við vorum nú ákaflega þakklát fyrir að þau skyldu nú hafa þetta á þeim tíma sem við erum stödd hérna á þessum tíma árs. Takk fyrir skemmtunina Góustaðapúkar.
Ég má nú ekki gleyma þrettándagleðinni sem Halla og Hafsteinn halda alltaf fyrir gamlingjana sem hittust alltaf hjá þeim á gamlárskvöld hérna einu sinni, nú er þetta alltaf á þrettándanum og var okkur boðið að vera með núna þar sem við vorum á svæðinu, og var reglulega gaman að vera með ykkur takk fyrir þetta Halla og Hafsteinn.
Þannig að það er búið að vera mikið að gera í skemmtanalífinu hérna fyrir vestan maður var bara alveg búinn að gleyma hvað að er mikið fjör hérna í janúar, og er það líka gott því hann er ansi dimmur og kaldur, því var ég líka búin að gleyma þegar við ákváðum að vera heima þennan mánuð, en fínt, það er búið að gera margt og nú eigum við bara frí í sumar þurfum ekki að hanga í einhverri innivinnu þegar sumarið kemur.
Síðasta helgi var bara róleg því það var verið að lakka gólfið og við fengum að gista á Búinu hjá Svönu og Magna en þau voru á þorrablóti i Reykjanesinu, við vorum bara að horfa á eurovison eins og hinir íslendingarnir bara gaman.
Það er nú eitt þorrablót eftir, en þar á Dúddi að spila á trommur svo ekki fæ ég að dansa við hann þar. Svo förum við suður á þriðjudag og svo út til Spánar 11. febrúar, það verður gott að komast í sólina á ný.
 Þetta hefur verið yndislegur tími þó veðrið hafi verið ansi risjótt, en voða fallegir dagar hafa verið hér líka alveg logn og næstum sól en nú á hún að vera komin niður í bæ en það er kalt og hvasst úti og ég heldi mig bara inni.
Eigið góða daga á þorranum þó þeir geti verið kaldir og blautir, höfum sól í hjarta.