Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 12. mars 2013

Pára smá á blað

Frænkur á leið í leikhús
Frænkur á leið í leikhús
« 1 af 10 »
Það er nú ekki hægt að segja að það sé mikið skrifað þessa dagana, þetta heitir nú á góðri íslensku leti, eða það er nú ekki heldur mikið til að skrifa um. Tíminn hjá mér fer voða mikið í lærdóm á tölvunni og þá nenni ég bara ekki að skrifa á hana á eftir eða að leika mér í henni. 
Það er ósköp erfitt að vera komin á þennan aldur og altíeinu að fara að taka uppá á því að fara í skóla á netinu og hafa svo allt í ólestri í tölvunni. Ég get ekki opnað þetta sem ég á að opna og læra eftir og margir eru að reyna að hjálpa gamlingjanum að laga þetta, en það vill ganga seint. Ég er orðin alveg pollróleg yfir þessu, annaðhvort næ ég prófinu eða ekki, og það verður í vor þegar ég kem heim, gaman hjá mér. Þetta er nú meiri vinna en ég bjóst við en voða gmana að hafa eitthvað til að glíma við annað en prjónana og Dúdda.
Við fórum á þorrablótið hérna um daginn, og var voða gaman að fara og borða þorramat í glampandi sól og fínu veðri um 18 gr. um kvöldið. Maturinn var alveg svakalega góður, þó hann væri komin langa leið.
Á síðasta laugardag bauð Helga frænka mér svo í leikhús í Torrevieja og við sáum Cats sem ungt fólk sýndi af miklum myndarskap, ég hafði aldrei séð Cats áður og þetta var bara mjög skemmtilegt, allt sungið á ensku, Það var Lionsklúbbur hérna í Torrevieja sem stóð að þessu og voru seldir happdrættismiðar og svo var dregið í hléinu en við keyptum enga miða.
Dúddi var að hjálpa Gumma að losa íbúð fyrir vini sína, svo við vorum þarna um helgina. Fórum svo heim á sunnudag þegar búið var að losa næstum allt.
Það er gott að geta hjálpast að við ýmis verk sem koma uppá, ekki þekkir maður svo marga hér til að betla á um hjálp.
Hér skipast á skin og skúrir, í gær var glampandi sól en í dag hellirignir og svona hefur það verið í smá tíma en sumarið kemur um næstu helgi segir veðurfræðingurinn og ekki skrökva þeir!!!! 
Það er nú voða rólegt hérna hjá okkur í kring enginn hani eða kalkúnn á þakinu hjá Fermín, ég sakna hanans það var alltaf svo notalegt að heyra í honum á morgnana og svo aftur seinna um daginn, eftir að hann vaknaði eftir siestuna, nú er ekkert hjá honum. Hvað þau ætla að borða um pákana væri nú gaman að vita. Fermín gaf okkur helling af baunum og ætiþirslum um daginn og nú er búið að ganga frá því í ískápinn, svo dugleg húsmóðir hún Þórdís hmmm.
Þetta er nú bara gott í bili hjá mér verð bara duglegri næst eða fljótlega þegar ég fer í páskafrí en þá kemur Dísa Guðm. og Andrea barnabarn hennar í heimsókn. Það verður gaman að fá gesti.
Eigið góða daga og farið farið varlega.