Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 30. október 2008

Reiðhjólið

Dúddi að gera við fákinn
Dúddi að gera við fákinn
« 1 af 10 »
Það er nú þannig að ég hef aldrei verið neitt fyrir að hjóla, enda átti ég aldrei hjól sem krakki og hef því ekki verið að reyna þetta neitt. Ég lærði að hjóla á hjólinu hans pabba sem var svaka stórt og lærði ég að hjóla undir stöng öll skökk og skæld. Og hnén hafa aldrei borið þess bætur alltaf var maður að detta í götuna eða drullupollana svo örin standa enn eftir. Mig minnir nú að mamma hafi átt svona stórt kvenreiðhjól svona eins og mig langar í með engum gírum.
Það er búið að tala um það að fá handa mér hjól, svo við getum farið út að hjóla saman. Svo er alltaf verið að segja mér hvað sé gaman að hjóla, og ég finni það bara strax og ég byrji. En hvernig er hægt að fullyrða eitthvað um það, hvað mér finnst gaman eða ekki, ég er nú kannski ekki með reiðhjólagen, eins og Svenni bróðir. En hann hjólaði vestur um alla firði frá Rvík.
Nema hvað um daginn fórum við til Boggu og Svenna til að sækja lopann sem þau komu með fyrir mig út, haldið þið þá ekki að þau gefi okkur HJÓL og ég spyr " hvað á ég að borga? " ekkert", en það kemst ekki í bílnn" jújú segir Dúddi strax, þannig að þá var sá draumur búinn að ég mundi ekki eignast hjól. það þurfti nú aðeins að gera við það og var Dúddi minn nú snöggur að því. Þetta er Jbike Mountain bike bara fyrir fullorðna.
Í dag var svo prufutúrinn farinn og ég fékk að ráða ferðinni, bara farið með ökrunum þar sem lítil bílaumferð er, jújú þetta var allt í lagi en ég er nefnilega lofthrædd og mér finnst ég vera ansi hátt uppi þegar ég hjóla, allar afsakanir fundnar til að hjóla ekki, kannski verð ég bara alveg vitlaus eftir þetta að fara út að hjóla allt er sextugum fært ha.
En ég bað nú Dúdda að koma með mér í göngutúr á eftir, því þetta reyndi ekkert á, svo við fórum og týndum köngla í eldinn og fengum fullan poka og nóg eftir.
Svo fengum við skemmtilega heimsókn reiðhjólafólk Svenni og Bogga (systir Lilla) sem var búið að hjóla frá Entre Golf um 40 km. á 2 1/2 tíma og áttu svo eftir að fara til baka líka úff duglegt fólk. Við vorum að fara að borða kjúkling svo þau fengu bita líka.
Dúddi er að dunda við að laga rafmagn og flísar svo nóg er að gera á bænum.
Nú eru tvö hjól á bænum gott fyrir gesti.
Góðir dagar hér á Spáni.