Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 13. ágúst 2009

Yfirlit sumars

Dúddi að slá túnið á Skarðseyri
Dúddi að slá túnið á Skarðseyri
« 1 af 20 »
Það er óhætt að segja að langt sé síðan hér hefur verið ritað. Það hefur bara verið svo mikið að gera og ég ekkert í tölvusambandi, þannig að ég hef bara verið í sumarfríi eins og aðrir. Það er líka fínt að taka smá frí.
Síðan síðast þá hófst hinn árlegi undirbúningur fyrir verslunarmannahelgina en í ár voru 20 ár síðan Sílakot var settur niður á Skarðseyri, hugsa sér tuttugu ár.
Við vorum svo heppin að fá lánaða góða sláttuvél hjá Magna á Seljalandi þannig að nú var vel slegið.
Jón, Ásta og Bjarney Kata komu viku fyrir versló og voru með okkur í bústaðnum, í allra handa veðri sól rigning og rok.
Það var mjög gaman að fá að vera með þeim svona lengi. Fyrstu gestirnir á versló komu svo á fimmtudegi og voru það Kristín Úlfs. og Egill frá Sigló með syni sína og tengdadóttir sem er ættuð frá Ísó.
Annars fauk þessi verslunarmannahelgi út í veður og vind, það var annaðhvort rok, rigning eða pínulítil sól svona inn á milli en það var hlýtt í hjartanu svo allt var skemmtilegt.
Hefðbundin dagskrá var að sjálfsögðu, krikket á laugardag, ásamt sameiginlegri grillmáltíð og fjöldasöng.
Á sunnudag var svo púttkeppnin og vippkeppnin sem var alveg hörkuspennandi. Svo var verðlaunaafhending og börnin skemmtu með leikriti sem þau undirbjuggu alveg sjálf, reglulega upprennandi leikarar.
Í fyrsta skipti í mörg ár var kvenmaður sem vann krikkertkeppnina en sigurvegari var Helga Svenna eftir bráðabana við Jón Veturliðas.
Púttkeppnin var alveg sér á parti í ár, óvart dúkkaði upp sponsor sem gaf alveg svaka fínan lítinn ferðaísskáp í verðlaun, svo það var alveg hörkuspennandi keppni úr þessu, því allir vildu þau skápin eiga.
Eftir mikla keppni en vippið var talið með í þessu, það sigraði Egill Rögnvaldsson frá Siglufirði og mikið var hann ánægður hann var að springa af stolti og átti það bara skilið að vinna, komin alla leið til Ísó til að vera með okkur á versló.
Á sunnudagskvöldið var svo brennan mikla sem rigndi svo niður.
Þetta var reglulega skemmtileg helgi sem við áttum þarna saman fjölskylda og vinir og hafið öll kærar þakkir fyrir komuna og góða og skemmtilega helgi.
Svo var bara slappað af. Á síðustu helgi átti Ögurkirkja 150 ára afmæli og fórum við í messu og veislukaffi sem var alveg voðalega flott með fleiri, fleiri hnallþórum að sveitasið. Við skruppum svo til Birnustaða ég og Bekka tengdó en hin fóru að veiða í Laugardal og fengu marga silunga sem voru svo steiktir um kvöldið , þau gistu svo hjá okkur um nóttina, Dedda, Rafn Ingi, Arnór, Gurrý, Róbert og Bekka og áttum við mjög gott kvöld saman.
Svo kom Saga Litla í heimsókn og var hjá okkur frá sunnudegi  til fimmtudags eða í dag, og var margt brallað.
Dúddi fór á sjóinn og veiddi marga þorska í matinn, hann var saltaður og frystur og í dag eru fiskibollur.
Farið fljótt yfir sögu set myndir inn seinna en nokkrar núna.
Eigið góða daga, það eru spennandi dagar í vændum hjá mér segi frá því seinna.