fimmtudagurinn 10. janúar 2008

Kjúklingur með humar og súkkulaði

Kjúlingur með humar og súkkulaði
Kjúlingur með humar og súkkulaði
Hér hef ég hugsað mér að skrifa þær uppskriftir sem ég er að prófa hérna. Þetta verður svona hugleiðing um mat og annað sem okkur finnst vera gott. En ég sé margt hér í spænskum, enskum og norskum blöðum sem ég prófa, og reyni að þýða.
Ekki verður þó allt uppá dl. og mg. Hér er líka allt hráefnið mjög gott og ferskt, þannig að hér er gott að búa til veislumat, og ekki spillir verðið á hráefninu.
Fyrsta uppskriftin er úr bókinni Culinaria Spain, sem ég fékk að gjöf frá fyrrum samtarfsmönnum mínum á bæjarskrifstofunni og við Helga elduðum hér í október. Óvenjulegur en mjög góður kjúklingaréttur.

Kjúklingur með humar

1 stk. kjúklingur stór
Salt og pipar
1/2 bolli ólívuolía
1 stór laukur
2 matartómatar afhýðaðir og skornir í bita
1/2 bolli hvítvín sætt
250 ml. kjúklingasoð
1 lárviðarlauf
2 rif hvítlaukur, setjið fleiri ef vill
1 matsk. saxaðar möndlur
Saffran nokkrir þræðir
50 gr. dökkt súkkulaði 70%
1. matsk. brauðrasp fínt
1 matsk. steinselja
1 matsk. Brandy eða Coníak
Nokkrir humrar eftir stærð eða rækjur

Hreinsið kjúklinginn og skerið í bita og nuddið með salt og pipar. Steikið kjúklinginn á pönnu í olíunni svo hann verði brúnn og lækkið svo hitann, setjið laukinn saman við síðan tómatana og sjóðið saman stutta stund.
Setjið síðan hvítvínið, kjúklingasoðið og lárviðarlaufið saman við og sjóðið áfram í 15 mín.
Setjið hvítlaukinn, möndlur, saffran, súkkulaði, raspið, steinselju, brandy og smá af olíunni saman í mixara svo það verði að þykkum massa.
Setjið þetta í pottinn til að búa til sósuna, setjið síðast í humarinn eða rækjurnar og sjóðið lítið saman.
Bragðbætið með salti og pipar ef þarf.

Með þessu höfðum við brauð, salat og hrísgrjón og auðvitað gott rauðvín.
Þetta lítur út fyrir að vera smá mas en er alveg þrælgott.
Verði ykkur að góðu.