24.11.2013 - 13:13

Námskeið í uppáhalds forritinu mínu

Jamm, ætla að láta reyna á að halda mitt eigið námskeið í uppáhalds forritinu mínu, Lightroom. Þetta forrit nota ég á hverjum degi fyrir alla umsýslu mynda minna og oftast heldur fólk að ég sé að "photoshoppa" en það er bara ekki rétt, ég nota þetta svona 95% á allar mínar myndir og opna aðeins Photoshop fyrir stærri aðgerðir, eins og að eyða hlutum út og þannig, ef með þarf. Lightroom nota ég í allt ferlið, en ég byrja á því að setja myndirnar inn í tölvuna þar og merki þær allar í bak og fyrir svo það sé auðvelt að leita í þeim síðar meir. Set á þær copyright og þannig. Þannig að Lightroom er líka mitt "Library" yfir allar mínar myndir.

Svo fer öll myndvinnsla fram þar, en þetta forrit býður upp á öflugan myndvinnsluhluta, þar má stilla háljós og skugga, alla liti, rétta af sjóndeildarhring og skera niður(kroppa) í þeim stærðum sem maður óskar, ásamt mörgu öðru. Svo skerpi ég og skelli linsuleiðréttingu á líka, þannig að það er oftast lítil þörf á að leita í annað forrit.

Eftir vinnsluna er svo unnið að því hvernig maður kemur myndinni frá sér, en Lightroom er bæði með öflugann "export" möguleika til að geyma myndina í þeirri stærð/gerð sem maður vill, og svo má líka prenta beint út úr forritinu á auðveldann hátt, með mörgum útkomumöguleikum.

 

Þetta ætla ég allt að fara yfir og þú lært og notað áfram á þínar myndir :)

 

Endilega kynntu þér námskeiðið og skráðu þig, ef þú hefur áhuga á ljósmyndun og vilt bæta við það sem þú veist fyrir!

 

Þetta verður fyrsta námskeiðið af nokkrum og munu þau öll haldast í hendur, en í því næsta mun ég fara á næsta skref í ljósmyndaferlinu og verður þetta námskeið frábær grunnur fyrir það.

 

Þetta námskeið verður haldið þann 30. nóvember 2013 á milli 13 og 17.

 

Kynntu þér málið!

09.10.2013 - 13:30

Að láta drauma rætast

Druzla
Druzla

Í sumar sem leið, fór ég aðeins að hugsa um vinnuna mína og áhugamálin, og komst að því að ég vinn við áhugamálið, allavega það sem ég stunda mest, ljósmyndun. Því skaut upp í huga mér að ég gæti fengið nóg og brunnið upp ef ég gerði ekkert annað og fór að hugsa mikið um hvað veitti mér mesta ánægju hérna áður fyrr. Það var aðeins eitt sem kom upp í hugann, aðeins eitt - mótorhjól!

 

Þeir sem þekkja mig vel vita þetta, dellan hefur alltaf verið þarna og má þá nefna að ég keypti mitt fyrsta mótorhjól, eða öllu heldur skellinöðru, fyrir fermingarpeningana mína. Reyndar keypti ég 2, fyrir heilar 17 þúsund krónur. Þetta voru 2 Suzuki TS 50, árgerð 1980 að mig minnir, fann þær í Súðavík. Átti svo hjól alla tíð fram að 2004, alls 12 talsins, en þá hófst mín eyðimerkurganga, þangað til núna!

 

Í sumar fór ég að skoða hjól á netinu og langaði í gamlann garm, sem þurfti að skrúfa svolítið í, fann einn á 120.000 hérna á Íslandi, en það var í fáránlega slæmu ástandi og seldi gæinn það öðrum eftir að hafa nánast lofað mér því. Ég var því eiginlega feginn, enda ekki alveg það hjól sem mig langaði í! En það triggeraði áhugann á að finna hjól enn meira og endaði það með innfluttningi á einu slíku, en fyrst ég var að þessu, ákvað ég að kaupa tegund sem ég var alltaf veikur fyrir og vanda mig aðeins við þetta. Ég talaði við minn besta vin, sem var í heimsókn hérna á Íslandi, hann Auðunn Braga, en hann býr í Bandaríkjunum. Hann féllst á að skoða hjól fyrir mig, en ég notaði Craigslist, en þar er hægt að leita svæðisbundið og leitaði ég að hjóli í nágrenni við hann. Mikill mótorhjólafrömuður í Reykjavík hafði nýlega farið þessa leið og gaf mér góð ráð í kringum ferlið á þessu. Svo heyrði ég í Atla bróðir, en hann vinnur hjá Icetransport, sem er inn/útfluttningsfyrirtæki, og skipulagði hann alla fluttninga heim, og kom hjólið með flugi núna í september. Ók því svo vestur á Ísafjörð á kerrunni hans Húlíó. Hafði ætlað mér að aka því sjálfu vestur, en flýtiþjónusta Umferðastofu virkaði ekki alveg sem skildi og því fór sem fór :)

 

En þetta var púsluspil sem gekk upp, réttur maður á réttum stað, alla leið!

 

Hjólið er semsagt Honda CB750 árgerð 1977. Hjólið er í góðu ásigkomulagi og ætla ég að gera það persónulegt og breyta því að mínum smekk. Hægt verður að fylgjast með því hér, en ég gerði Facebook Like síðu bara til að motivate-a sjálfan mig og leyfa áhugasömum að fylgjast með. Endilega kíkið, er búinn að setja upp myndasögu alveg frá upphafi og heim komið, og smá texta með :)

 

Hjólið hefur hlotið nafnið Druzla

27.09.2013 - 11:53

Viðskiptalögfræðan mín

Hrefna tekur við verðlaununum
Hrefna tekur við verðlaununum
1 af 5

Það er á stundum sem þessum, að stoltið og ástin ber mann ofuliði og maður verður væminn og þakklátur. Það er svosem í lagi, er orðinn 41 árs gamall og vel mjúkur og bara ánægður með það.

Við Hrefna kynntumst snemma á þessari öld og urðum perluvinir og síðar par. Við höfum gengið í gegnum súrt og sætt og alltaf haldið velli. Prófað að flytja til annara landa og fylgdi hún mér í nám til Danmerkur árið 2003 og fór að leita sér að vinnu og lengi vel bar hún út blöð eldsnemma á morgnana í allskyns veðrum og svo síðar vann hún á hóteli. Afhverju er ég að minnast á þetta allt saman? Ég er bara að benda á hversu dugleg hún er, en það hefur einkennt hana í gegnum árin hversu vinnusöm og samviskusöm hún er. Aldrei er hún veik og missir afar sjaldan dag úr, ég eiginlega man ekki eftir því.

Þegar hún ákvað að skella sér í nám hvatti ég hana eindregið til þess, því það var alveg á hreinu að hún myndi massa það eins og annað. Sem hún svo gerði með útskrift sinni núna fyrir hálfum mánuði með BS í viðskiptalögfræði og tók það á svokallaðaðari hraðferð, en hún skrifaði sína ritgerð í sumar með vinnu. Náði góðum einkunum og fékk verðlaun fyrir árangurinn. Þetta hefur hún flest allt saman gert, á meðan ég hef stundað mitt nám í Danmörku og verið að vinna á Ísafirði, ein með Sögu og Ísar.

 

Mig langaði bara að skrifa nokkur orð til þín Hrefna mín og þakka þér falleg orð í minn garð í ræðunni sem þú hélst fyrir þína deild í útskriftinni fyrir fullum sal og fórst létt með, þegar ég sá þig halda þessa ræðu sá ég greinilega hversu langt þú ert komin og full sjálfstrausts.

 

Innilega til hamingju með árangurinn, ég hef fulla trú á þér, að þú takir Masterinn í vetur og rúllir honum upp, eins og öllu öðru sem þú tekur þér fyrir hendur <3

 

Læt svo fylgja með nokkrar myndir sem við tókum við tilefnið.

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun