09.04.2013 - 17:00

Guðmundur Sveinsson frá Góustöðum 100 ára

Afi minn
Afi minn

Í dag er 9. apríl og er það afmælisdagurinn hans afa, en hann hefði orðið 100 ára í dag. 26 ár eru frá andláti hans og tími til kominn að skrifa minningargrein um hann. 

 

Afi&amma á Engjaveginum voru einstakt fólk, og getur maður ekki bara talað um afa án þess að hafa ömmu Eyju með, en þau voru samheldin og hamingjusöm hjón sem elskuðu okkur barnabörnin ótakmarkað. Alltaf stóð þeirra hús okkur opið og í mínum huga eru þau eins og amma&afi áttu að vera, alltaf til staðar og við vorum aldrei fyrir þeim, heldur þvert á móti sóttu þau í okkur og við í þau, þannig upplifði ég það. Þegar maður kom á Engjaveginn mátti alltaf finna ís í frystikistunni niður í kjallara, nú eða harðfisk. Inn í eldhúsi í skápnum við hliðina á ískápnum var alltaf súkkulaðifylltur brjóstsykur og svo kex í litla búrinu fram á gangi. Ekki má svo gleyma suðusúkkulaðinu, en afi elskaði suðusúkkulaði. Engjavegur 24 var sannkölluð paradís og var húsið umlukið stórum garði sem amma hugsaði um af natni og var hann fullur af blómum og trjám, ævintýralönd. Svo bjuggu Anna Lóa og Gulli, Ingibjörg, Einar og Magnús í næsta húsi og var mikill samgangur á milli. Í þessu húsi voru svo haldin "Draumapartý" en Tóti "afi", faðir Svönu(frænku) konu Magna, kallaði þetta alltaf draumapartý. Hann var ekki afi minn, en ég kallaði hann það stundum, hann var afi Hörpu, Mörtu og Höllu. Draumapartýin voru jólaboð stórfjölskyldunnar, æðislegur matur og tískusýningar, og fullorðna fólkið skálaði í litlu, þannig er það í minningunni. Mikið sakna ég þessara tíma. En draumapartýin lifa enn, þó svo við séum mörg hver um hvippinn og hvappinn :)

 

Afi var mér svo góður. Hann tók mig oft með í bíltúra, þá oft í nálæga firði eða víkur. Hann tók mikið af myndum og fannst mér það mjög spennandi iðja, enda gaf hann mér mína fyrstu myndavél þegar ég var smápúki. Hann þekkti hvert fjall, fjörð eða vík, og fengum við að heyra það allt, hann talaði lítið um annað í þessum ferðum. Hann elskaði Vestfirði.

 

Oft tók hann mig með sér í vinnuna, en hann átti og rak Netagerð Vestfjarða. Þar fékk ég að leika mér í risastóru húsinu í endalausum krókum og kimum og átti maður nokkra leynistaði þar. Svo í kaffitímunum fékk maður matarkex og g-mjólk eða Earl grey te og hlustaði á karlana segja sögur, þeir kunnu sko að segja frá! Svo um fermingu máttum við barnabörnin byrja að vinna, og vorum við all flest þarna á einhverjum tímapunkti.

 

Afi elskaði fótbolta, þá sérstaklega enska boltann og Arsenal að mig minnir, gæti verið rangt hjá mér, en allavega á ég Arsenal könnu frá honum, amma gaf mér hana og hún stendur hérna upp í gluggakistu, full af pennum. Hana ætla ég alltaf að eiga, þó svo ég fylgist ekkert með fótbolta og hvað þá Arsenal! En í minningunni stóð afi fyrir framan sjónvarpið, svona meter á milli. Hann var með vindil í öðru munnvikinu og lét þá í sjónvarpinu heyra það, hátt! Dásamlegur :)

 

Afi átti sinn þátt í að reisa skíðasvæðið á Seljalandsdal. Maður hefur heyrt margar sögur af því og hver annari ótrúlegri. Hann ók víst bara heim til manna og sótti þá óspurða, nú væri verið að reisa skíðalyftu, og menn mættu bara, möglunarlaust. Heimir Tryggva impraði á því við mig einu sinni að staurinn sem enn stendur á Gullhól, ætti að bera minningarskjöld um afa, kannski maður fari bara í málið.

 

Guðmundur Sveinsson var lengi í bæjarpólitíkinni á Ísafirði og var hann gallharður framsóknarmaður. Hann gaf lengi út blaðið Ísfirðing og fékk ég að bera það út og selja það um langt skeið. Ég held að afi hafi verið grænn í gegn. Hann átti meira að segja framsóknargrænt sófasett :)

 

Það er hægt að tala endalaust um hann afa, hjartahreinni og hlýrri mann hef ég aldrei hitt á ævi minni. Hann var hreinn og beinn. Afi er hetjan mín og ég er montinn að hann var afi minn.

 

Blessuð sé minning ykkar, afi&amma, ég hugsa oft til ykkar og vildi óska þess að mín börn hefðu náð að kynnast ykkur, ég segi þeim reglulega frá ykkur.

16.01.2013 - 15:36

Danmörk - Taka 2

Dönsk tré
Dönsk tré

Já, það er þannig, kominn til Danmerkur í skólann aftur. Bloggið dó aðeins í desember vegna anna en nú skal snúið aftur. Skólinn hófst í síðustu viku, er á önn 2 hérna í Medieskolerne í Viborg. Gengur fínt og mikið að gera, bekkurinn er í 2 hollum og er ég úti í dagsljósinu eða þannig, erum að vinna með teknískar vélar núna og gera vörureportage, bara fínt, engin læti og allt á hraða danans. Allavega aðeins rólegra heldur en síðasta önn, en þetta er mátulegt bara til að geta vandað sig. Svo eftir næstu viku förum við í stúdíókúrsa sem mig hlakkar mjög mikið til, bæta aðeins í reyslubankann í þeirri deildinni. 

 

Sakna auðvitað fjölskyldunnar, en eins og Saga Líf sagði, "Pabbi, þetta er bara helmingi styttra en síðast" - 2 vikur af 10 að verða búnar og ég verð kominn heim áður en ég veit af!

10.12.2012 - 10:26

Takk fyrir mig - 5 dagar eftir á betra verðinu!

Viðtökurnar hafa verið vonum framar á tilboðinu sem ég setti í gang fyrir 25 dögum síðan. Ég hef selt yfir 20 myndir á þessu tímabili og er það persónulegt met og fyrir þetta vil ég þakka ykkur. Þetta hefur náð að bjarga mér algerlega í tekjuleysinu sem ég lenti í vegna uppskurðarins. Hef náð að jafna mig vel hérna heima og held ég að þetta sé allt í áttina með þennan blessaða fót.

 

En enn eru 5 dagar eftir af þessu fína tilboði og vil ég hvetja þá sem hafa verið með fyrirspurnir og pælingar að hafa samband og klára með mér málið. Það fer að verða vitlaust að gera hjá prentunaraðilanum og fer hver að verða síðastur fyrir jólin.

 

Ljósmynd er falleg jólagjöf - Góð gjöf fyrir þann sem á "allt" - Góð gjöf fyrir þann sem á ekki "neitt" - Skelltu heimahögunum upp á vegg, hjá þér, eða þínum :)

 

Takk fyrir mig - JólaGústi

Landslag

Portrait

Auglýsingaljósmyndun