Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 2. maí 2012

Ferðalagið heim með bílinn I

Við Þóra á tröppunum
Við Þóra á tröppunum
« 1 af 10 »
Þá erum við komin til Þýskalands eftir mikinn akstur hingað. Það var farið frá Mudamiento á laugardaginn 28. apríl og keyrt alla leið á hraðbraut í 8 tíma til bæjar sem heitir Empuriabrava á norðaustur Spáni. Þar þekkjum við gott fólk sem bauð okkur að gista hjá sér. Það var vel tekið á móti okkur og miklar krásir á borðum eins og húsfreyjuni einni er lagið. Daginn eftir var okkur boðið í bátsferð um kanalana sem liggja þarna um allan bæinn. Þarna er svakalega fallegt, stór og flott hús og mikið af allavega flottum bátum og snekkjum. Við fórum líka til bæjar sem heitir því fallega nafni Roses. Þar byggist líka lífið á svona bátaútgerð af öllum toga. Takk kærlega fyrir okkur kæru vinir Þóra og Stefán.
Mánudaginn 30. apríl fórum við svo áleiðis til Frakklands þar sem við vorum búin að ákveða að gista eina nótt. Á leiðinni var ágætisveður til að byrja með en þegar leið á daginn byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu, og þannig var það bara þangað til við áttum stutt eftir til Pont d´Ain, en það er lítið og skemmtilegt þorp norðan til við Lyon. Þar gistum við eina nótt. Hótelið er gamalt en voða þrifalegt, góð rúm og þægilegt ungt fólk sem rekur það. Þegar við komum þangað skein sólin og klukkan orðin 5 við drifum okkur í sturtu og ætluðum út að ganga og skoða bæinn, en nei nei, þegar við komum niður í lobbý var rigningin búin að ná okkur svo við fórum á barinn og fengum okkur bjór og rauðvín til að vita hvort ekki hætti að rigna.En Það rigndi stanzlaust. Svo við fórum og fengum okkur að borða á stað sem var opinn og fengum okkur ítalskan mat voða góðan en rándýran. Það merkilega við þessa rigninu er að fyrir 5 árum þegar við keyrðum gegnum Frakklandi til Spánar þá ringdi á hverjum degi í 7 daga á meðan við vorum að keyra næstum þessa sömu leið. Frakkland er ekki gott fyrir okkur Dúdda alltaf rigning eins og það er fallegt þarna og gaman að sjá. En við förum líklega ekkert þarna um á næstunni.
1. maí vöknuðum við sem sagt í litlu þorpi í Frakklandi við fórum í morgunmat kl. 7 ,30 tókum daginn snemma, þegar við vorum að koma út þá voru litlir krakkar eða svona um 10 ára að selja litla blómvendi en það tíðkast í þessu litla þorpi að mennirnir kaupi svona vönd fyrir konurnar sínar, ég keypti nú bara minn sjálf, Dúddi var að koma farangrinum fyrir á meðan. Þetta var mikill akstur um 8 tíma, engin rigning bara skíað og gott veður.
Og leiðin lá hingað til Gross Grau til Óla, Gíslu og Hörpu hér var 25 stiga hiti og sól.
Nú erum við búinn að keyra ca 1850 km og erum líklega hálfnuð upp til Randers til Sissu og Óla.
Það er ekki ákveðið hvenær við förum héðan þetta er svo yndislegur staður og gott fólk að vera hjá.
Eigið góða daga og bjarta.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 26. apríl 2012

Nú er stutt í heimferð

Nú er hann á heimleið eftir langa útiveru
Nú er hann á heimleið eftir langa útiveru
« 1 af 10 »
Já, nú er stutt í að maður fari að leggja af stað í langa heimferð, sem mér fannst vera langt í burtu þegar pantað var í febrúar en á laugardaginn hefst ferðin heim með bílinn. Hann er nú búinn að þjóna okkur vel hér á Spáni en nú er hann kominn með heimþrá svo það er best að koma honum heim áður en hann verður hirtur af okkur eða eitthvað kemur uppá. 5 ár er langur tími fyrir góðan bíl að fá ekkert að spóla eða erfiðast neitt með 4 drifum þó jepplingur sé.
Við leggjum af stað á laugardagsmorgun og er fyrsti áfangi ansi langur allaleið að mörkum Frakklands í lítinn bæ þar sem gott fólk ætlar að hýsa okkur í tvær nætur þau Þóra og Stefán. Það verður gaman að skoða sig um á þeim slóðum. Þaðan höldum við svo í gegnum Frakkalnd með gistingu á einum stað á hóteli kannski tvær nætur við sjáum til hvernig okkur líst á það. Þaðan liggur svo leiðin til Frankfurt til að heimsækja Óla og Gíslu og stelpurnar þar fáum við kannski að vera í 2 daga ætlum bara að láta það ráðast. Þaðan höldum við svo til Ágústu Óla frænku Dúdda sem býr við landamæri Danmerkur og þýskalands og þar fáum við að vera eina nótt áður en við höldu í síðasta áfangann til Sissu og Óla í Randers. Þar ætlum við að stoppa fram til 12 maí, halda uppá afmælið hans Dúdda 10 maí og gera eitthvað skemmtilegt með þeim, það er orðið langt síðan við höfum hist eitthvað að ráði kominn tími til. Til landsins komum við svo 15 maí og er óráðið hvenær við höldum svo vestur á Ísafjörð eða í sumarbústaðinn en þangað er hugurinn kominn og til allra barnanna.
En í dag erum við að pakka og dunda okkur við eitt og annað fórum á markaðinn í Rafal og keyptum fullt af möndlum fyrir Sissu þær eru víst svo dýrar í danaveldi og hún borðar mikið af þeim. Keyptum líka strigaskó á 12 evrur á eitt barnið, þarna voru heilu slárnar af allavega fínum og líka ljótum bolum sem kostuðu ekki nema 1-3-5 evrur stundum gastu fengið 2 fyrir 5 evrur. Við létum grænmetið og ávextina eiga sig núna, en okkur var heilsað því fólk er farið að kannast við okkur í Rafal, það er voða gaman að fara á þennan markað hann er lítill en fallegt og ódýrt græmeti þarna.
Í dag erum við svo að fara í mat til Bertu og Auðunns í Gamla húsinu en þau eru stödd þar núna og verður gaman að hitta þau.
Í fyrri viku var okkur boðið í mat til Guðrúnar og Kára í 5 rétta máltíð með öllu tilheyrandi og var voða gaman þetta kvöld það má segja að þetta hafi verið svona slútt á vetrarfagnaðinum hjá okkur hérna því þá var síðasti vetrardagur á Íslandi.Takk fyrir skemmtilegt kvöld kæru vinir.
Svo voru Dúddi og Gummi einn dagin að fella stærðar tré úr garinum hjá Palla og fæst þá góður eldiviður fyrir næsta vetur.
Hér er vor enn, sumarið kemur ekki fyrr en 21 júní. Hitinn er bara þokkalegur svona um 25 gr. yfir daginn en kólnar svo á kvöldin en þetta er voða gott samt, kemur hita í skrokkinn og manni líður vel.
Ég hugsa að ég setji nú eitthvað  af ferðasögunni hér inn með nokkrum myndum, ef ég kemst í internetsamabnd sem er víst orðið auðvelt í dag. Heimferðin verður að fara í dagbókina mína eins og ferðin hingað út.
Hlökkum til að sjá ykkur öll á Íslandi í sumar.
Eigið góða daga og farið varlega það ætlum við að gera.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 12. apríl 2012

Draugar gefa nammi!!!

Þau fundu páskaeggin sín á föstudaginn langa
Þau fundu páskaeggin sín á föstudaginn langa
« 1 af 12 »
Nú er hljótt í kotinu, gestirnir farnir til síns heima, eftir vonandi skemmtilega og eftirminnilega daga. Það var margt gert og farið út um víðan völl. Fórum auðvitað í stórt moll, sem var gaman fyrir okkur Helenu en aðrir voru ekki eins ánægðir, en allt gekk þetta vel, einnig var farið í stóra kínabúð á leiðinni heim. Þetta var á skírdag og þá var búið að segja okkur að það yrði páskaskúrðganga í Rafal um kvöldið. Svo við fengum okkur að borða kvöldmatinn um miðjan dag í mollinu til að vera tilbúin fyrir kvöldið. Til Rafal mættum við kl. 8 1/2 um kvöldið og horfðum á mjög fallega skúðgöngu og fannst börnunum þetta voðalega skítið, sérstaklega búningarnir þar sem ekki sést andlitið á fólkinu. Svo kom mesta undrunin, þeim var gefið mikið nammi næstum allir sem gengu framhjá gáfu þeim nammi og þeim fannst þetta vera svona hálf draugalegt. Eða eins og Hildur sagði við mömmu sína þegar þau voru að pakka niður "mamma hvar er nammið sem draugarnir gáfu okkur,, við viktuðum nammið og var það 1 og 1/2 kíló hvorki meira né minna. Þau voru auðvitað í skýjunum yfir öllu þessu nammi en þau gátu nú ekki borðað mikið af því. Svo eignuðust þau vini í næsta húsi sem þau voru að leika við einn dag, og það var gaman að fylgjast með þeim þegar þau voru að reyna að tjá sig, svo var kallað "afi hvað eru þau að segja?,, og hann reyndi að túlka fyrir þau þetta voru miklu eldri börn en þetta var bara heilmikið upplifelsi fyrir þau. Þá fannst þeim svo gaman í minigolfi að það var farið aftur og nú á sundlaugarbarinn þangað sem við förum á hittinginn og gekk sérstaklega Hektor mjög vel. þsð var nú bara slappað áf á laugardeginum farið á markað í Almoradí og keypt ýmislegt smádót til að taka með heim.
Eftir því sem við vitum best gekk heimferðin vel hjá Helenu og börnunum en Harry er enn á Spáni í sinni vinnu. Takk fyrir yndislega daga kæra fjölskylda þetta er alveg ógleymanlegir dagar með ykkur.
Nú fer að stittast í okkar heimferð á bílnum og maður svona farinn að huga að því hvað skal taka með þegar maður þarf ekki að hugsa um kílóin í töskunum en nógur verður farangurinn get ég sagt ykkur.
Hér helliringdi í dag og á norður Spáni var snjókoma og kalt, hér var samt 21 stigis hiti og verður líka á morgun.
Eigið góða daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 5. apríl 2012

Allt að gerast

Hektor í Sirkus,
Hektor í Sirkus,
« 1 af 10 »
Já það er óhætt að hér sé allt að gerast, eða eins og Hektor er búinn að læra að segja á spænsku ?Que pasa? Það er búið að gera margt og skoða margt, og upplifunin fyrir litla krakka er mikil. Það er búið að fara í Sirkus í Rafal og var það ansi gaman fyrir alla stóra og smáa þó ekki væri sirkusinn stór í sniðum. Mörg dýr og svo auðvitað trúður sem vakti mesta lukku hjá þeirri yngstu Hildi. Svo var farið á ströndina og farið í sjóinn en hann var ansi kaldur svo það var bara vaðið útí og reynt að byggja kastala sem var víst ansi brösugt því græjurnar voru ekki nógu góðar. Þetta var ljúfur dagur og allir þreyttir þegar heim var komið.
Svo var farið í dýragarðinn Rio Safari og var það ansi skemmtilegur dagur og mikið labbað um, það var farið á fílasýningu, páfakaukasýningu og sæljónasýningu og einnig var hægt að fara í lest til að skoða betur dýrin þegar þau gengu laus um sum svæðin og þar voru líka svakastór ljón. Þetta tók allan daginn, það var nú ekki mikil sól en enginn rigning.
Við fórum líka í minigolf einn daginn það fannst þeim Hektor og Hildi voða gaman og gekk þeim bara vel að munda kylfuna. Hver vann man ég nú ekki enda skiptir það ekki máli í svona leik. Það er búið að vera fínt veður bæði skýjað og sól nema í gær þá rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við fórum aðeins að versla og á leiðinni heim kom svona hellirigning að Dúddi blotnaði innúr við að hjálpa okkur hinum að komast inn í húsið.
Hektor missti aðra tönnina í gær og svo kom tannálfurinn spænski og gaf honum 5 evrur, en við töluðum við spænska tannálfinn um það að Hektor fengi að halda tönninni svo hann gæti farið með hana til Íslands til að sýna ömmu sinni hana líka og það var bara í fínu lagi sagði tannálfurinn, því hann á svo margar.
Svo hafa Hektor og afi farið saman út að hjóla, Hektor á litla hjólinu sem Dúddi gerði upp hérna um árið og hefur bara komið sér vel fyrir stráksa, það er nú ekki hægt að fara langt því hér er oft mikil umferð um akurvegina. Þá hefur verið farið í göngutúr um svæðið og tekið ein og ein appelsína eða sítróna. ÞAð hefur svo margt skeð að ég bara man það ekki allt og kemur kannski síðar en þau fara nú ekkert fyrr en á sunnudag og eitthvað á eftir að gera þangað til.
Mikið er nú gaman að hafa fjölskylduna hérna hjá okkur og yndislegt að þau skyldu sjá sér fært að koma, við erum ekki oft að fá svona unga gesti og erum því ekki alveg viðbúin þessu . En ég held að allir skemmti sér vel því það gerum við.
Við spilum svo kana  oft á kvöldin, við fullorðnu og er oft mikið fjör á meðan.
Góða páskahelgi öll og farið farlega og Guð geymi ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 29. mars 2012

Páskar í nánd

Risaeðlurnar á þakinu okkar.
Risaeðlurnar á þakinu okkar.
« 1 af 7 »
Hér er nú allt í stökustu ró þó páskagestirnir seu bara á leiðinni í flugvél frá London, en svakalega hlakkar okkur til að fá þau. Það verður sko líf hérna í húsinu um páskana þó ekki sé verið að renna sér á skíðum eða fara á Aldrei fór ég suður tónleika. HH fjölskyldan er á leiðinni, Helena, Harry, Hektor Hermann og Hildur Hera. Nóg er plássið og vonandi verður fullt að gera hjá okkur þessa fáu daga sem þau stoppa. Bíllinn að verða klár, bílstóllinn kominn í og bílstjórinn bíður spenntur eftir að fá að keyra út á völl og sækja þau.
Á síðasta sunnudagsmogunin fengum við óvænta gesti í heimsókn þá komu Elísabet og Sturlaugur með hjón með sér sem ég man ekki nöfnin á en þau sá ég fyrst á árshátíðinni og er það svo skemmtilegt að hún les bloggið okkar alltaf og þekkti okkur því og heilsaði, svo þegar þú lest þetta blogg vertu þá svo væn að segja mér hvað þið heitið skrifa smá í athugasemdir. Takk fyrir komuna það var gaman að fá ykkur í heimsókn þó stutt væri, hún verður kannski lengri næst.
Svo var hér á mánudag eiginlega svona óvænt veisla, ég þurfti ekkert að elda bara búa til salat og leggja á borðið því Felí og Eladio buðu okkur í mat hérna heima hjá okkur, þau áttu brúðkaupsafmæli og vinir þeirra frá Íslandi Sigga og Gummi voru hér í heimsókn og íbúðin  þeirra er svo lítil að þau geta illa tekið á móti mörgum gestum. Þetta var voða þægilegt að fá svona gesti. Þau buðu uppá kartöflutortilla, hráskinku eins og spánverjar borða hana og svo auðvitað ostur og í aðalrétt var svo kanína og salat engar kartöflur og voða lítil sósa ekki alveg fyrir marga íslendinga sem ég þekki, þetta var svakalega gott og mikil tilbreyting frá þvi sem maður er alltaf að borða, svo var svaka terta í eftirrétt. Skemmtilegt og eftirminnilegt kvöld get ég sagt, takk Felí og Eladio og líka gestirnir hinir sem komu takk fyrir skemmtunina, aldrei of oft.
Nú ætla ég að sýna ykkur mynd af síðasta listaverkinu okkar í mósaik ég kláraði það í gær, Dúddi gerði stærra dýrið en ég sveppinn og minna dýrið svo málaði Dúddi vegginn, en þetta er uppá þaki hjá okkur svo það sér þetta enginn nema að fara í sólbað eða hengja útá snúru og það eru nú ekki margir. En það er gaman að þessu og þakið lítur miklu betur út.
Hef ekki tíma til að skrifa meira núna eigið góða páskadaga og Guð veri með ykkur.