Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 15. mars 2011

Fiesta, fiesta

Götumynd í San Pedro
Götumynd í San Pedro
« 1 af 10 »
Það er nú ekki hægt að segja að það sé einhver lognmolla hérna hjá okkur núna. Veturinn var nú ósköp rólegur og góður en nú rekur hver veislan aðra. Á laugardag fórum við til San Pedro del pinatar á árshátið Íslendinga hérna. Þetta er alltaf haldið á sama stað og þar fáum við gistinu á sama hótelinu og veislan er haldin, gott hótel og góður morgunmatur.
Þetta var ansi fjörug og skemmtileg hátíð eins og alltaf. Það er nú komin sú hefð á okkur ásamt vinum að við mætum strax eftir hádegi komum okkur fyrir í herberginu og svo er farið út að ganga og skoða bæinn og borða saman tabas um miðjan daginn. Nú var farið í nýja átt og fundum við miðbæinn og skoðuðum hann aðeins, þetta er voða skemmtilegur bær sem gaman væri að skoða betur. Við fundum fínan bar þar sem við keyptum okkur fjóra tabasrétti, alla góða og ég var nú svo góð við Gumma að ég baðaði hann uppúr rauðvíni, hellti heilu rauðvínsglasi yfir hann, nýju buxurnar og skyrtuna. Sem betur fer kom þjónninn óðar með voða gott sprey og spreyjaði yfir buxurnar og allt fór úr þeim en skytan er eitthvað erfiðari.
Svo af því ég hellti niður úr glasinu þá var komið með nýja flösku á borðið og hún var auðvitað drukkin líka en hana þurftum við ekki að borga. En kvöldið var mjög skemmtilegt með góðum vinum og fórum við þaðan á sunnudagsmorgun til að mæta í næsta partý.
Já á sunnudaginn var okkur boðið í afmælisveislu hjá frænku okkar Helgu henni Jakobínu Davíðsdóttir, sem er við nám í Madrid nú eftir áramót. Hún var að erindast hérna og bað um að fá að halda afmælið heima hjá Helgu og Gumma og fékk hún auðvitað góðfúslegt leyfi til þess. Þetta var sko ekkert slor sem boðið var uppá þarna hjá henni. Allur matur keyptur í fínum búðum í Madrid ferskur og fínn, en af því mér finnst svo gaman að tala um mat þá fáið þið matseðilinn ef ég man hann allan, þetta var allt á spænska vísu. Ég og Carmen vinkona Jakobínu bjuggum til kartöflueggjaköku svo nú kann ég það. Skinka, ostur, olífur, fyllt brauð sem heitir eitthvað p með túnfisk og ýmsu grænmeti þetta voru forréttir svo kom kræklingur og litla skelin sem var hituð með hvítlauk og olíu alveg himnesk. Svo eftir þetta og góðan tíma komu grillaðir réttir, paprika, sepia, sem er mjög lík smokkfiski, heldur minni og með þykkari kápu, síðan svínakjöt, sem er eins og bacon en bara ekki reykt, bara sett salt á þetta allt. Svo voru tvennskonar pylsur eða blóðpylsa með hrísgrjónum og svo þessi chorzo sem er mjög algeng hér þetta var svo borðað með brauði og tómatsalati. Engir diskar bara gafflar og sérvéttur og svo setja spánverjar þetta inní brauðið. Það var ýmist staðið eða setið við að borða. Og ekkert uppvask á fullt af diskum bara puttamatur alveg æðislegt. Takk fyri Jakobína þetta var frábært boð. Þarna í þessu boði voru 4 spánverjar og hitt íslendingar stundum vissi maður ekki hvar maður átti að vera því svo kom enskan inní líka og ég varð bara rugluð á þessu en reyndi við spænskuna á meðan við Carmen vorum að elda og lærði ég heilmikið af henni bæði um mat og spænsku.
Þið sjáið að þetta var mikil helgi í mat og drykk og svo þurfti ég að mæta í nýja spænskutímann á mánudaginn kl hálf tólf það var varla runnið af manni, en það gekk nú allt vel, svo var ég líka í tíma í dag, bara gaman, ég er nú svolítið montin af mér að vera að læra núna komin á þennan aldur en ég held að það sé bara aldrei of seint að leyfa heilanum að glíma við eitthvað óvænt.
Hér hefur veðrið verið heldur leiðinlegt en Fermín segir að vorið komi á föstudaginn og ég trúi honum alveg. Það er svo mikið af ætiþirslum hérna núna sem hann er alltaf að færa mér, ég sauð 16 núna áðan sem ég geymi fyrir gestina sem koma í apríl.
Svo er annað partý á morgun afmæli hjá Hörpu.
Eigið góða daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 10. mars 2011

Bítlapartý

Bítlarnir á skjánum
Bítlarnir á skjánum
« 1 af 10 »
Eins og ég sagði í síðasta bloggi þá var tilhlökkun fyrir föstudeginum í síðustu viku. Þá hélt Gummi upp á sinn When im 64 afmælisdaginn sinn. Svokallað Bítlapartý sem tókst alveg svakalega vel. Við mættum eins og vanalega fyrst og strákarnir fóru í mínigolf á meðan ég rétti Helgu smá hjálparhönd við að búa til Tapassnittur. Þau voru búin að búa til fullt af hamborgurum.
Matseðillin var nefnilega ansi skemmtilegur enda uppáhaldsréttir afmælisbarnsins, sem sagt Tappassnittur, hamborgarar að hætti hússins grillaðir að sjálfsögðu, og eftirrétturinn var niðursoðnir blandaðir ávextir með ís. Mjög góður matur og vel útilátið eins og alltaf, þessu var svo skolað niður með guðaveigum. Það var bara spiluð bítlamúsík og bítlamynd var á skjánum hjá Gumma enda er hann mikill áhugamaður bítlanna, hann var nú svo frægur að sjá þá á balli á Írlandi áður en þeir náðu heimsfrægð. Það var dansað tvist og allt hitt "draumapartý", eins og góður maður sagði eitt sinn.
Takk fyrir skemmtunina og yndislegt kvöld kæru vinir og eins þið hin sem voruðuð þarna og lesið þetta.
Það var svo gaman þegar við vorum 4 að ræða þetta partý, að maður hvarf aftur í tímann og ýmislegt rifjaðist upp fyrir manni eins og þetta með stuttu pilsin, í hvaða veðri sem var þá var maður með pilsið upp í klof skjálfandi úr kulda og blöðrubólgan rétt við hornið ussuss, segðum líklega eitthvað við barnabörnin í dag væru þau svona klædd.
Ég man að árið 1964 þegar þessi frægi árgangur 47 frá Ísafirði fór í skólaferðalagið, þetta var nú stund sem maður hafði beðið lengi eftir og tilhlökkunin mikil. Farið var með Esjunni til Akureyrar, þar var tekin rúta og farið að Dimmuborgum og í Ásbyrgi þetta var mikið ferðalag á þessum árum, svo var gist í einhverjum skóla sem ég man nú ekki lengur hver er. Svo var komið  til Akureyrar og við borðuðum á Hótel KEA  og þetta fannst okkur nú alveg toppurinn, þá var aldrei farið út að borða eitthvað fínt. Þá var nú ekki haft vín um hönd en við báðum þjóninn um hverja vatnskönnuna á fætur annari því það var svo gaman að láta þjóna sér. En þetta var nú ekki gott þegar við sátum svo í rútunni og þurftum að losa okkur við allt þetta vatn.
Þegar við svo komum til Rvík í rútunni fórum við í allar áttir. Þar keypti ég mér einu bítlaplötuna líklega þá fyrstu sem kom út og ég á hana enn, að vísu sprungin en það er alveg hægt að spila hana, því ég á enn plötuspilara. Svo var farið aftur heim með rútu, það tók allan daginn og ég man að þegar við vorum á Breiðadalsheiðinni þá var einn smá staður þar sem við gátum séð til Ísafjarðar þá stóðu allir upp og veinuðu Ísafjörður"  allir svo glaðir að koma heim í bæinn sinn. Já það rifjast marg upp hjá manni og margt gæti maður skrifað en það kemur kanski bara seinna.
Maður á kannski ekki að vera að opinbera svona hvað maður er orðin gömul, en ég er nú bara stolt af því að vera fædd á fyrri hluta síðustu aldar heheh.
Annars er nú bara ósköp rólegt hér í sveitinni það hefur verið leiðindaveður, skýjað og hvasst alla daga en nú er  aðeins að lagast vonandi verður það orðið gott á laugardaginn, því þá förum við á árshátíðina hérna hjá Íslendingum sem er haldin í San Pedro del Pinatar þar verðum við á hóteli eina nótt.
Carmen hefur verið ansi veik undanfarið og hefur verið til hjúkrunar í Murcia en er að ég held komin heim, Fermín kallin hefur verið að flækjast hérna einn. Það er skrítið þegar það er svona rólegt hjá þeim engin börn eða barnabörn.
Takk fyrir öll innlitin, gaman þegar einhver skrifar nokkar línur.
Eigið góða daga og Guð geymi ykkur
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 3. mars 2011

Fyrirlestur

Hádegismatur á þakinu, kjötsúpa með miklu  grænmeti
Hádegismatur á þakinu, kjötsúpa með miklu grænmeti
« 1 af 5 »
Það er óhætt að segja að það er margt sem maður gerir hér sem manni hefði nú aldrei dottið í hug að gera heima.
En svona til að brjóta upp þennan venjulega dag þá fórum við Dúddi á fyirlestur á spænsku sl. laugardag. En þannig er mál með vexti að Helga Þurý frænka Dúdda bauð okkur með sér og haldið ykkur fast, við fórum á fyrirlestur um Herbalife í Santa Pola ásamt annari konu frá Íslandi. Hún var nú reyndar búinn að bjóða mér þetta áður, en þá var hann ekki haldin. Þetta  var kl 6 um daginn og Dúddi keyrði mig til hennar og ætlaði svo heim aftur og sækja mig svo, en þær plötuðu hann til að koma með. Þetta var ansi fróðlegt þó maður skildi nú ekki mikið af því sem sagt var. Þarna kom fólk upp og sagði hvað það væri búið að losna við mörg kíló og voru þau ansi mörg hjá sumum, svo komu aðrir og sögðu hvað þeir væru búinir að græða mikið á að selja þetta. Maðurinn sem stjórnaði þessu var ansi skemmtilegur og sagði brandara. Hann sýndi myndir  af því hvar hann vann á markaðnum þegar hann var ungur og fyrstu íbúðina sem hann bjó í og svo húsið sem hann býr í í dag ásamt fínu bílunum sem hann á núna. Það er stór sundlaug í garðinum hjá honum og á botninum er merki Herbalife sem flugmennirnir sjá þegar þeir fljúga yfir á leið til lendingar í Alecante. Á eftir fengum við svo nokkra Tapas rétti frítt vín og öl. Þetta var bara ansi skemmtilegt og tók 2 tíma. Gaman að prófa eitthvað svona bara talað á spænsku.
Nú er ég búinn að finna þessa fínu sápuóperu í sjónvarpinu sem ég horfi á á daginn kl. 5, alveg ekta sápa sem Dúddi kallar Leiðarljós en er nú ekki eins leiðinlegt. Þetta heitir á spænsku Soy tu duena og google orðabókin þýðir á íslensku Ég er húsbóndi þinn, þetta snýst að sjálfsögðu um ást, afbrýði, lygar og svik eins og góð sápa. Það er unga fallega og góða  stúlkan sem er voða rík eftir foreldra sína, vonda unga frænkan sem heldur við unnusta góður frænkunnar, svo er mamma vondu stúlkunnar og barnfóstran og svikuli unnustinn, og ég býð spennt hvort það verði af flotta brúpkaupinu, þetta er nú ekki komið langt, en er þetta ekki bara góð lýsing hjá mér.
Mér finnst fínt að sitja og hlusta á spænskuna hafa textavarpið á þá skil ég meira og þetta er bara góð kennslustund sem ég fæ þarna. Kokkurinn minn sem ég horfði á í fyrra er komin á aðra stöð og er alltaf þegar Dúddi horfir á gömlu kúrekamyndirnar svo ég hef alveg misst hann úr í vetur. Svo sápan kemur í staðinn.
Annars er ansi kalt þessa dagana og lítið hægt að dunda sér við mósaik og ég ákvað  að taka mér viku frí frá prjónunum það er bara ansi erfitt að sitja og gera ekki neitt og því er ég duglegri við spænskunámið.
Við fórum með góða fína bílinn okkar í skoðun í dag og allt gekk vel.
Hlakka til á morgun, segi frá því seinna.
Allir dagar eru góðir dagar og hafið það sem best.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 24. febrúar 2011

Sólardagar

Fyrir utan veitingastaðinn í Mudamiento
Fyrir utan veitingastaðinn í Mudamiento
« 1 af 10 »
Nú hefur veðrið leikið við okkur síðustu daga, sól á hverjum degi og hitinn farið uppí 22 gr, yfir daginn. Við höfum verið mikið uppá þaki, ég að leika mér að nýju að gera mosaíkborð og Dúddi dundar við hitt og þetta, steypa og mála.
Síðasta laugardag fórum við út að borða á barnum hér í Mudamiento sem er svaka vinsæll matsölustaður alla daga í hádeginu eða milli 2 og 4 á daginn þegar spánverjar borða sína aðalmáltíð, þá standa þarna fyrir utan allir flottu bílarnir með flottu merkjunum þið vitið. Okkur hefur oft langað til að fara þangað að borða og fórum einu sinni með Kiddý og Gulla þegar þau voru hér en þá vissum við ekkert hvað við vorum að borða eða hvað þá heldur að panta. Þarna fer allt fram á spænsku og þú færð engan matseðil, þjónninn kemur og þylur upp hvað sé í matinn í kvöld hjá þeim, mamman er í eldhúsinu, pabbinn á barnum og strákurinn er þjónninn, þetta er voðalega heimilislegt og skemmtilegt andrúmsloft, kanattspyrna í sjónvarpinu allt kvöldið.
Við sem sagt fórum núna með eina spænskumælandi með okkur til að vita hvernig þetta gengi fyrir sig. (Helga frænka mín)
Tapas, það vissum við og þjónninn kom og sagði okkur hvaða rétti þau væru með í kvöld, Jú það var byrjað á þessu hefðbunda olívur, kartöfluflögur, og möndlur og svo kom brauð með hvítlaukssmjöri og tómötum,
þá kom túnfisksalat og sepia í grænni sósu, en sepia er kolkrabbi,
hann var grillaður alveg svakalega góður,
túnfiskur grillaður, sveppir í hvítlauk,
2 rauðvín og fullt af vatni og fyrir þetta borguðum við 38 evrur
vorum alveg pakksödd því þetta var allt svo gott og nóg af því.
Þessi staður er opinn alla daga en bara á laugardagskvöldum og er vel sóttur eins og ég sagði og þarna á ég örugglega eftir að borða aftur og þá getur verið allt annað á matseðlinum allavega man ég það var eitthvað annað sem við borðuðum þar síðast.
Skemmtilegt og gott kvöld með góðum vinum og auðvitað var skálað fyrir Ágúst nýkjörnum Búrlistamanni Ísafjarðar, eða bara bæjarlistamaður Ísafjarðar sem er skammarlegt að skuli vera búið að leggja niður, en vonandi vakna þessir herrar aftur og vita hvað listin gerir mikið fyrir bæjarfélagið.
Svo í gær fórum við í góðan göngutúr um Callosa nýja hverfið þar sem við höfum ekki séð áður og er með breiðum götum fullt af búðum og veitngastöðum við urðu bara hissa þegar við sáum þetta, höfum alltaf verið í gamla bænum. Og þarna fundum við líkamsræktarstöðina fyrir okkur, garður með græjum fyrir gamlingja passar okkur fínt við prófuðum þau allavega.
Svo í morgun hjóluðum við til Rafal á markað að kaupa grænmeti.
Eigið góða daga öll.


Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 17. febrúar 2011

Nú blæs Kári

Við vatnið í Torremendo
Við vatnið í Torremendo
« 1 af 10 »
Hér er núna alveg bálhvasst, hlýtt og sól, en varla stætt úti, þetta eru lægðir sem ganga hér yfir Spán þessa dagana og er bálhvasst um allt land, við erum nú að vona að þessu fari að linna svo að þið á Íslandi fáið ykkar snjó fyrir páska.
Við erum nú aðeins að hressast eftir þessa leiðinlegu flensu sem hefur herjað hér á okkur í rúma viku, með miklum hósta og leiðindasleni. Síðasta sunnudag reyndum við nú að fara með flensuna uppá fjall, en þangað fórum við í bíltúr til að hrista af okkur slenið eftir að vera næstum  lokuð inni í viku.
Við ákváðum að fara í bíltúr eftir hádegi á sunnudag, tókum kortið til að vita hvert skildi halda , eitthvað sem við höðfum ekki séð áður. Við tókum meira að segja Maríu GPS með, hún fékk aðeins að röfla smá stund. Við stefndum til Torremendo sem er á hæð hérna rétt hjá og þar er fallegt og stórt vatn. Þarna var margt fólk bæði að veiða og eins bara að njóta veðursins sem var mjög gott. Þarna eru fullt að möndlutrjám sem eru öll í blóma núna fallega bleik eða lillablá blóm og sjá heilu breiðurnar af þeim var alveg yndislegt, minnir mann á að vorið er á leiðinni. Nú er bara mánuður eftir af vetrinum hér.
 Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða mér finnst ég alltaf vera að skrifa hérna og kíki ég og sé að það er komin vika þá hristir maður bara hausinn. Eins og mér finnst bara alltaf vera þriðjudagur þá fer ég í skólann og það er varla tími til að læra heima því vikann er liðinn áður en maður veit af.
Ég verð orðin 100 ára bara eftir nokkur ár ef þetta gengur svona hratt, kunnið þið ekki ráð við að stoppa tímann aðeins eða að hann fari ekki  svona fjandi hratt frá manni.
Við erum búinn að panta okkur far heim 26 maí sem verður komin áður en ég sný mér við, en það verður gaman að koma heim og hitta allt fólkið sitt. Þetta er nú að verða ansi stór hópur hjá okkur Dúdda og nóg að knúsa og kyssa þegar heim kemur.
Fermín kemur hingað til okkar reglulega með eitthvað góðgæti, hvítlauk, kál, ætiþirsla og svo eigum við von á appelsínum, Dúddi fer svo oft að hjálpa honum að saga í eldinn, hann er svo slæmur í öxlinni karl anginn, hann er mikill veiðimaður og finnst gaman að fara að veiða með vinum sínum. Carmen fékk þessa slæmu flensu sem var nú ekki gott ofaní í krabbmeinið nú er flensan orðin góð en hún er þá komin með svo mikla slæmsku í mjöðmina að hún getur sig varla hreyft.
Ignacio tengdasonur þeirra hefur verið að aðstoða okkur hér við að tala við rafmagnsveituna hérna en þeir eru að fara að setja upp digital mæla í hvert hús á Spáni, svo við sleppum ekkert við það.
Allir dagar eru góðir dagar og farið vel með þá og passið ykkur á vindinum.