Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 8. febrúar 2011

Þetta og hitt

Í sólbaði á Calle Salinas
Í sólbaði á Calle Salinas
« 1 af 10 »
Þessi síðasta vika hefur verið mjög lærdómsrík og gefandi. Hef bara verið mjög dugleg að læra spænskuna mína og er dugleg að læra heima, eitt orð á dag kemur talandanum í lag.
Um helgina vorum við í helgarferð alveg óvænt, okkur var boðið í mat hjá Helgu og Gumma á föstudagskvöldi með Palla og Öddu sem voru að fara heim daginn eftir. Og það var svo gaman að þeir kallarnir ákváðu að við yrðum tvær nætur, allt í lagi ég var með tannbustann og auka nærbuxur, er þá ekki allt klárt.???? Þeir voru að dunda við að taka upp sundlaugardæluna og við Helga röltum á markaðinn svo fórum við út að borða um kvöldið, góðan mat og tilheyrandi og skemmtum okkur bara vel, alltaf svo gaman þegar eitthvað óvænt kemur uppá.
Á sunnudaginn fórum við Dúddi svo á Medival Market hér í Orhiuela, en þetta er svona miðalda markaður, einn sá stærsti á Spáni, þar eru auðvitað fullt af söluborðum sem selja allt mögulegt sem fólk er sjálf að búa til og líkt eftir gömlum munum og öðru einnig mikið af allskonar te og krydd borðum eins sápu og allavega kremum. Svo auðvitað allar sýningarnar sem þeir halda skylmast og nefndu það bara.
Þegar við vorum þarna um tvöleytið á sunnudegi, voru allir að fara að borða og nóg var af slíku þarna, allavega matsölutjöld með allavega mat og góðgæti. Við vorum því miður á vitlausum tíma þarna í matartíma en þarna er ábyggilega mikið fjör þegar fer að líða á daginn. Dúddi minn var bara búinn að koma sér upp flensu og liggur alveg bakk núna, eins og honum er einum lagið.
Skrítið að hitta einhvern hérna sem þekkir mann og kallar nafnið manns úti á götu hér í þessu milljónalandi og það spánverji.
Við vorum að koma labbandi frá að leggja bílnum og labba á markaðinn, þá hittum við konu með hund, en þær eru nú ansi margar hérna svo við héldum bara áfram, þá er alltí einu kallað Thordis ég hrökk við og leit til baka þá stóð þar spænskukennarinn minn í göngutúr með hundinn sinn. Svo við spjölluðum aðeins og hún sýndi okkur hvert við ættum að labba, en hún býr í Orhiuela og var búinn að setja okkur verkefni fyrir næsta tíma um þennan markað. Svo þetta var ansi óvænt að hitta hana, mjög fín stúlka, ógift 34 ára og heitir Sylvia.
Ég var í skólanum í dag og gekk bara vel að segja frá markaðnum. Þegar tíminn var búinn þá þurfti ég að skeppa í búð til að sækja eitt og annað fyrir veikan mann sem beið einn heima. Þegar ég svo kem að borðinu og ætla að fara að borga er enginn peningur í buddunni og ég galvösk gríp kreditkortið og ætla að borga með því, stúlkan rennir kortinu í og biður um pinnúmer og búbb!!!!!!! ég man það bara aldrei, síminn heima þar sem það er geymt og ég stóð þarna eins og asni og gat ekkert sagt nema á ensku, fullt af fólki í röðinni. Bað stúkluna að geyma fyrir mig vöruna og svo hljóp ég í bankann til að sækja pening á debetkortið. Mér er bara fyrirmunað að muna þetta helv. pin. Hvernig á gamall heili að geta munað allar þessar tölur og stafi sem þarf að nota í dag við allt, eins og þið vitið. Lífið er skrítið orðið með öllum þessum pinnúmerum allavega fyrir mig. Svo núna geymi ég kreditkortið bara heima og nota það bara við miklar upphæðir.
Guð gefi ykkur góða og skemmtilega daga.

Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 31. janúar 2011

Rólegt í sveitinni

Þetta er skólinn
Þetta er skólinn
« 1 af 10 »
Hér hefur nú verið ansi rólegt hjá okkur í síðustu viku, aðalega verið hér heimavið og dittað að einu og öðru. Veðrið í síðustu viku var nefnilega hundleiðinlegt og varla farið út úr húsi, nema Dúddi fór og hljóp sinn hring, duglegur hann Dúddi minn.
Við erum nú oft að segja að það sé kalt, en þessi kuldi er allt öðruvísi en heima og sá kuldi sem fer verst í okkur hér er kuldinn í húsinu. T.d. hérna hjá okkur, við höfum einn stóran arinn í eldhúsinu sem er suma daga kynntur allan daginn því hitinn hérna í eldhúsinu þegar við komum fram á morgnana er ekki nema 10 gr. og hitinn úti kannski 5. Við erum svo með voða góðan gasofn í herberginu sem við sitjum í á kvöldin að horfa á sjónvarpið eða prjóna eða æfa sig á hljómborðið. Svo erum við með rafmagnsofna til að hita upp herbergin eða það er bara gert svona rétt áður en maður fer að sofa.
Okkur finnst dýrt að kynda á Íslandi en ætli það sé ekki helmingi dýrara hér. En hér þarf maður bara að kynda í 3 mán. ekki 12. En svo á daginn þegar sólin skín þá opnar maður alla glugga og dyr til að hún hiti húsið. En það hefur bara verið lítil sól undanfarið kemur kannski svona part úr degi. Þar sem ég sit núna í eldhúsinu og skrifa þetta er ég með kynt upp í arninum það eru núna komin 13 gr. úti en bara 15 hérna hjá mér. Stundum bara vont að halda eldinum þó góðar spýtur séru notaðar, ég er náttúrulega klaufi að halda eldinum við. En ég er orðin þessu svo vön á góðar peysur og sokka svo fer ég á eftir út að labba. Dúddi er að vinna við pálma núna í dag. En nýja fína vélin sem þeir keyptu hefur verið að stríða þeim svo þeir hafa lítið getað gert undanfarið.
Það var nú samt ansi mikið fjör hérna hjá okkur á laugardagskvöldið, það var haldið Þorrablót á einum veitingastað hérna í Algorfa sem er stutt hjá okkur. Þarna voru 40 Íslendingar að borða mjög góðan þorramat. Það tóku sig til nokkrir ungir landar sem búa í Algorfa og undirbjuggu þetta kvöld, sem var alveg mjög skemmtilegt. Það var lesið uppúr sögu sem ein er að skrifa, svo voru sagðir brandarar og síðast en ekki síst var fjöldasöngur og spilað undir á nikku. Þetta var frábært kvöld, við kíktum líka á Cafe Sofá sem er í eigu Íslendinga í Algorfa. Svo var tekinn leigubíll heim.
Mig langar til það þakka þessu unga fólki sem tók að sér að gera þetta kvöld svona fínt, takk fyrir, Theódóra, Steinunn, Stefán, Steingerður, þetta eru nöfn sem ég man að eiga þátt í þessu takk fyrir enn og aftur.
Annars sit ég nú vanalega hérna á hverjum morgni og læri heima í svona tvo tíma á dag og mér finnst ég bara hafa lært heilmikið.
Nú við gerðum mjög góð vöruskipti á helginni, við fengum nýjan sófa í stofuna og gátum látið kojur í staðinn svo nú er gamli guli sófinn kominn í annað hús hér í götunni. Það er ungt fólk sem sá gula sófann og varð heillað auðvitað og þau fóru með hann heim til sín, gott að einhver getur notað hann þau eiga held ég ekki mikið þessi hjón, tvær ungar stelpur og önnur er eitthvað skert, hef sagt frá þeim.
Nú er best að fara að koma sér út Fermin ætlar að gefa mér hvítlauk í dag, það komu tveir kálhausar í gær, ég fer að baula bráðum af öllu þessu káli.
Eigið góða daga og passið ykkur á bílunum.
Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 21. janúar 2011

Skólinn, haninn og annað lauflétt

Hér sést haninn góði, og vinur hans kalkúnninn í baksýn
Hér sést haninn góði, og vinur hans kalkúnninn í baksýn
« 1 af 7 »
Það er voða gaman að vera byrjuð aftur í spænskunámi, þetta hjálpar manni að nota heilann svo maður verður kannski ekki eins gleyminn fyrir vikið. Við erum bara 3-4 í bekk með einn kennara sem talar næstum eingöngu spænsku, hún svona útskýrir eitt og eitt orð fyrir englendingana, ég er þess vegna líka að læra ensku en er ekkert að borga fyrir það. Þetta gengur bara þokkalega, hér heima hef ég bara báðar orðabækurnar ef ég þarf, kennslubókin er öll á spænsku, það er gott að geta notað orðabókina í tövlunni þá er maður fljótari að leita að orðunum og getur sett eina setningu í einu.
Um daginn skrifaði ég aðeins um hanann sem var orðin svo flynkur að syngja búinn að æfa sig svo vel og söng eins og Pavarotti,
en sl. fimmtudag þá var ég uppá þaki bara svona að skoða mig um þá sá ég að haninn var laus, hafði sem sagt strokið úr búrinu, búinn að gera stórt gat, þarna trítlaði hann um eins rígmontinn hani sperrti sig allan og dillaði sér svona eins og hana er siður. Hann var alveg komin að tröppunum og ég hugsaði skildi hann kunna að fara niður tröppur, var eiginlega hissa á að hann skildi geta gengið svona langt, alltaf læstur inní búri. Jæja nema hvað ég fer niður þegar ég er búinn að fylgjast með honum dágóða stund. Það vesta var með aumingja kalkúninn honum leið ekkert vel að sjá hanann þarna, var altaf vælandi með sínu skrítna hljóði.
Svo fór ég niður og gleymdi hananum, svo fór ég að hengja út þá sá ég hann hvergi ekki í búrinu eða á þakinu en þá gaggaði hann og hljóðið kom ú skrítinni átt, sem hann átti ekki að komast, nema hann var komin yfir á hitt þakið hjá Fermín og komst ekki neitt. Ég kallaði í Dúdda og fór hann til Fermíns að láta vita og þeir komu hlaupandi upp á þak og Fermín teygði sig  í hanan því hann hafði farið fyrir vegginn. Hann náði honum ekki en hávaðinn var mikill í hananum, svo reyndu þeir aftur en þá búmm" datt hann niður um þakið og inní garð hjá Fermín, svo þeir hlupu þangað og þar hljóp haninn í hringi og þeir á eftir, loks stökk Dúddi og greyp hann  og rétti Fermín sem hélt svo á honum um vængina, og sagði " hann á nú að drepast á mánudaginn", ég hugsaði bara aumingja haninn, þarna hefur hann fengið mikla lífsreynslu, fá að fljúgja aðeins, detta ofan af þaki, fá að spossera úti eins og montinn hani og svo er bara lífið tekið og sett í súpu, sem er nú líklega búið að elda ef ekki borða líka, en hann átti góðan vin sem saknaði hans mikið á mánudaginn, aumingja kalkúnninn hann grét í tvo tíma á eftir, blessuð sé mining hanans. Nú kemur líklega nýtt gengi af hönum í búrið, þegar fer að hlýna aðeins  en þeir kunna bara ekkert að syngja, ég kann vel við hanagal það er svo vinalegt hér í sveitinni.
En nú búum við Dúddi í svaka fínu húsi það er búið að mála húsið hvítt, eins og ein konan sagði sem labbaði hjá Casa Blanca like Obama. En þetta er voða flott og það birti yfir götunni þegar helv. rósa liturinn vr farinn, það eru allir hér í kring voða hrifnir af þessu framtaki hjá okkrur. Dúddi fékk góða hjálp frá Gumma við að mála. Hann var sjálfur búinn að taka gluggana í gegn og flísaleggja þá að innan með hvítum flísum og undirbúa að öðru leiti. Þetta er bara eins og nýtt hús.
Hér er annars allt rólegt kuldaboli á eitthvað að vera á ferðinni hérna um helgina, en úti skín sólin eins og er, en það er kalt mikill raki. Hlýtt inni, hlýtt í hjarta og svo hugsa ég hlýtt til ykkar allra sem heimsækið mig hér.
Eigið góða og ljúfa daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 12. janúar 2011

12. janúar 2011

Dúddi að búa til skjólvegg á þakinu
Dúddi að búa til skjólvegg á þakinu
« 1 af 9 »
Hef eiginlega frá mörgu að segja en hvort það á allt að fara á blað veit ég ekki. En látum vaða og sjá hvað kemur úr belgnum á mér núna.
Við fórum auðvitað að sjá skrúðgönguna með Los Reyes Margos eða vitringunum þrem í Almoradí þann 5. janúar en þetta er kvöldið fyrir gjafadaginn hér á Spáni. Þetta er heilmikil skrúðganga með hverjum vitring á sínum vagni og börn með sem kasta sælgæti til barnanna. Á undan hverjum vagni eru svo einhver ævintýri núna var Mjallhvít og dvergarnir sjö ásamt fríðu föruneyti, ýmsir dansarar og  vagnar með lifandi kindum, svínum og geitum,einnig aðrar stórar fígúrur, Þetta er alltaf voða gaman að sjá,en er ekki eins á hverju ári. Nú þegar við vorum búinn að sjá þetta allt í Almoradí ákváðum við að fara heim, en sáum þá að götuljósin voru svo falleg í Mudamiento að okkur langaði að sjá þau betur svona síðasta jóladag. Þá voru vitringar þar á ferð líka, þeir gengu að vísu bara um götuna með blys í hendi og með einn hirðmann á undan sér. Börnin biðu öll í kirkjunni eftir þeim, þeir stóðu nú lengi fyrir utan og voru að bíða eftir einhverju sem við vissum ekki hvað var, við stóðum bara úti beint á móti kirkjunni. Svo allt í einu hendist þessi flotti prestur, inn í kirkjuna móður og másandi upp í pontu og bauð alla velkomna og vitringana líka, þeir fóru inn í rólegheitum og settust við altarið, en presturinn kom hlaupandi út aftur, tók upp símann, kveitki sér í sígarettu, og fór að skima í kringum sig greinilega að bíða eftir að einhver næði í hann líklega til að komast í næstu kirkju, þetta var svolítið fyndið að sjá. Þetta var sami prestur og kom hlaupandi í kirkjuna á jóladag. Asskoti hress. Í kirkjunni var fullt af fólki aðallega börnum sem voru að bíða eftir gjöfunum sínum, það var kona sem kallaði upp nafn hvers barns og það sótti sínar gjafir til vitringanna þetta var voða gaman að sjá og hvað börnin voru fljót að ná í pakkana sína, skemmtilegur síður hér en þetta er víst mismunandi eftir þorpum, okkar er nú svo pínu lítið.
Smá læknasaga. Það er nú svo sem ekki  í frásögur færandi, en þetta er svona öðruvísi en heima. Ég þurfti að fara til læknis á sunnudaginn svona smá kerlingarvandræði, var búinn að humma þetta aðeins of lengi. En ég gat ekki hummað lengur svo við fórum að reyna að finna út hvernig væri að komast til læknis á sunnudegi. Það var hringt í alla sem við þekkjum eldsnemma allir ræstir út. Fyrst var hringt á skjúkrahúsið, þeir sögðu hringið í 112 og sendið hana með sjúkrabíl og Dúddi gerir það og fær konu til að tala ensku. Hún vildi ekkert senda mig í skjúkrabíl sem betur fer, þetta var nú ekki svo alvarlegt. Nema við erum send til Orihuela á læknavakt, fyrst þurftum við að fara og sækja Hörpu því hún talar meiri spænsku en við. Þar sátum við og biðum og biðum. Við þurftum að labba lengi til að finna læknavaktina, svo þau fóru til baka á meðan ég beið og auðvitað var ég kölluð inn á meðan þau fóru að sækja bílinn og þarna sat ég og kunni varla að skilja eitt orð og þurfa að segja af hverju ég var komin til hans, þetta gekk nú allt með bendingum og hrafl í ensku og spænsku. Svo var nú það besta að Helga Þurý hringdi á meðan og bjargaði aðeins málinu fyrir mig hún talaði bara við lækninn í síma. Hann sendi mig á annað sjúkrahús sem er hér rétt hjá og þar biðum  við og biðum lengi, fyrst fór ég inn og talað var við mig,fór svo út aftur og síðan loksins var ég kölluð inn en þá mátti Harpa ekki koma með mér og þetta var mikill lærdómur. Þarna var ég skoðuð fór í sónar og hann hristi mikið hausinn læknirninn, en ég hef verið að taka vitlausar hormónpillur svo af því stafaði öll þessi vitleysa. Ég er fín núna það er ekkert að mér svoleiðis. En þetta tók tímann frá kl. 10:00 til kl. 15:00 en ég þurfti ekki að borga krónu af þessum viðtölum og skoðunum, bara meðölin sem ég fékk. Svo nú erum við reynslunni ríkari hvað þetta varðar og vitum hvernig við eigum að snúa okkur næst ef eitthvað kemur fyrir, sem betur fer var þetta ekkert alvarlegt.
Svo í gær byrjaði ég í skóla að læra spænsku, fer einu sinni í viku og þarf að læra heilmikið heima fékk fína bók með geisladiskum þar sem ég þarf að hlusta á til að bókin nýtist mér.
Í dag er 20. gr. hiti og sól og ég er farin út.
Myndirnar eru mjög lélegar það var orðið svo dimmt, kannski nýja vél?
Eigið góðan dag öll.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 3. janúar 2011

Áramót

Dúddi, Gummi. Óðinn og Haukur tilbúnir í veisluna með hattana sína
Dúddi, Gummi. Óðinn og Haukur tilbúnir í veisluna með hattana sína
« 1 af 10 »

Gleðilegt ár

Feliz ano nuevo




Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, ég óska ykkur öllum góðs gengis á nýju ári, og hafið það sem best.
Við áttum ymdislegt gamlárkvöld og nýjársnótt með okkar góðu vinum Helgu og Gumma ásamt þeirra fjölskyldu og vinum.
Þema kvöldsins var að allir skildu mæta með hatta og var það skemmtileg tilbreyting og gaman að velja sér hatta.
Það var grillað íslenskt lambalæri sem kom að heiman eftir langt ferðalag um London í óveðrinu sem þar gekk yfir. Það bragðaðist alveg svakalega vel. Rækjukokteill á undan, og heimatilbúin ís á eftir ásamt vondu kökunni sem er fjölskyldukaka hjá þeim en hún er alveg svakalega góð, marengsterta. Svo var auðvitað skálað í kampavíni á miðnætti og svo sátum við úti á Lillabar langt fram á nótt vafðar inní teppi en það var 10 gr. hiti og logn. Skemmtum okkur alveg konunglega og horfðum á ragetturnar og öll herlegheitin sem fylgja þessu kvöldi. Takk fyrir ánægjulegt kvöld öll og Óðinn takk fyrir matinn það gleymdist víst.
Á nýjársdag var okkur svo boðið í mat hjá Helgu Þurý, Jesú og strákunum, þar áttum við góðan dag,en þau komu hingað yfir áramótin og eru farin aftur til Madrid því miður. Það var svo gaman að hitta þau.
Lífið er aftur að færast í eðlilegt horf hér, fórum á sítónumarkaðinn í gær og löbbuðum um aðallega til að sýna okkur og sjá aðra, það var ansi margt fólk þar. Í dag fórum við svo í hjóltúr til Rafal að versla það sem vantaði, en í kvöld verður íslenskur silungur á borðum, sem Unnsteinn og Rut gáfu okkur þegar þau fóru heim. Bara hollusta næstu daga.
Annars er nú heilmikill dagur eftir hér á Spáni en það er gjafadagurinn þegar kóngarnir þrír koma og gefa börnun gjafir þá er skrúðganga í hverju þorpi og sælgæti hent til allra og mikið fjör.
Langar líka að segja ykkur að haninn á þakinu hjá Fermín er komin með þessa fínu rödd núna, hann hefur verið að æfa stíft undanfarið, kvölds og morgna og er bara orðin góður, verst að hann lifir nú bara fram að páskum, þá er byrjað að ala nýjan sem byrjar svo að æfa sig í des. á þessu ári. Gaman að fylgast með þessu. Nú er bara einn stór kalkúnn hann fer líka fyrir páska þá verður hann ábyggilega svona 10 kg. enda fjölskyldan stór.
Kærar þakkir fyrir góðar óskir okkur til handa hér á síðunni okkar, gaman að sjá að einhver  hefur gaman af þessum skrifum mínum.
Eigið góða daga á nýju ári og Guð blessi ykkur öll.