Þórdís Guðmundsdóttir | laugardagurinn 10. október 2009

Lagt af stað eftir 2 tíma

Bjarney Kata fór sem álfaprinsessa í leikskólann
Bjarney Kata fór sem álfaprinsessa í leikskólann
« 1 af 10 »
Jæja, nú er að koma að því að klára að pakka niður, vikta allar töskur og poka svo maður verði nú ekki með yfirvikt.
Þessi tími hér í borginni hefur verið æði erilsamnur, við erum búinn að vera í matarboðum á næstum hverju kvöldi í tvær vikur.
Við gistum hér hjá Atla og fjölskyldu en erum á eilífu flakki. Dúddi hefur verið mikið þessa viku að hjálpa Deddu systir sinni að koma sér fyrir í annari íbúð og hefur bara gengið vel. Ég hef aftur á móti bara druslast hér heima við ,sótt Bjarney Kötu nokkrum sinnum í leikskólann og hitt Helgu vinkonu.
Á síðasta laugardag fór ég í saumaklúbb til Hveragerðis hjá Úllu og þar vorum við saman 10 skólasystur en þessi klúbbur var að mig minnir stofnaður á árunum 68-70, eða þegar Breiðholt var að byggjast upp því ég man að einhver átti heima þar og þótti manni mikið ferðalag að fara alla leið uppí Breiðholt frá miðbænum þar sem ég átti heima þá. Svo þið sjáið kæru vinkonur að þessi klúbbur er orðinn gamall, oft hefur verið skipt um mannskap nýjar komið og aðrar farið og stundum komið aftur, og svo hefur maður oft komið í heimsókn þegar maður hefur verið á ferðinni í bænum.
Svo má geta þess að klúbburinn á Ísó er af sama stofni 1947 árganginum og hann var sstofnaður um 1974-5, þegar ég var nýflutt í Fjarðarstrætisblokkina. Látið mig vita ef ég er að fara með eintómt bull.
Í gær var hér hífandi rok og rigning en við Bjarney fukum hingað heim frá leikskólanum og fannst henni bara gaman að láta vindinn taka aðeins í sig. Við fukum það er alveg satt, hérna út götuna svo amma þurfti að halda fast í hana.
Svo kom fjölskyldan okkar hingað til Atla í gær og við borðuðum kjúklingasúpu saman voða var gaman að hafa þau hérna, það vantaði bara þau þrjú sem eru á Ísafirði, Ágúst og fjölsk.
Nú er bara að far að klára að pakka.
Hlakka til að sjá Spán og dótið okkar þar, svo ég tali nú ekki um aðeins meiri hita.
Eigið góða daga hvar sem þið eruð.







Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 30. september 2009

Erum lögð af stað áleiðis til Spánar

Litlar prinsessur, Saga Líf og Bjarney Kata
Litlar prinsessur, Saga Líf og Bjarney Kata
« 1 af 10 »
Þá erum við komin til Reykjavíkur, hingað komum við á sunnudag með Svenna og Ásu keyrandi í alveg fínasta veðri. Ekki annað hægt að segja að vestfirðir hafi kvatt okkur með sól og fallegu veðri svolítið kalt og snjór yfir öllu en alltaf sól öðru hvoru, svona til að við myndum minnast þeirra svo við komum fljótt aftur, eða í vor.
Það var annars bara matarboð alla síðustu dagana á Ísó, hjá Kiddý og Gulla, Dísu og Jóni svo stærsta partýið á Seljalandi það sem laukarnir, ættaðir frá Góustöðum komu saman ásamt mökum. Allir gátu mætt nema Anna Lóa og Gulli en þau voru í veiðiferð fyrir austan. En laukarnir á Ísó eru afkomendur Guðmundar (pabba) Magni, Anna Lóa, og Svenni kom sem gestur vestur á þennan fyrsta fund ættarmótsins, afkomendur Sigga eru Kiddý, Guðríður og Geir.
Vorum við öll mætt kl. 19:00 í fordrykk í boði hússins, síðan voru margir réttir en allir komu með sitt lítið af hverju var þetta fjölbreytt og góður matur. Mikið spjallað og heitar umræður um ýmis málefni. En það var ákveðið að ættatmótið verði haldið helgina 10. og 11. júlí 2010 á Góustöðum að sjálfsögðu. Nú þurfa Góustaðalaukarnir að taka frá þessa helgi næsta sumar svo mætingin verði góð eins og alltaf.
Takk fyrir skemmtunina kæru ættingjar og vinir í patrtýinu.
Við fórum svo af stað um hádegi og vorum komin hingað suður um kvöldmat. Við gistum nú hjá Atla og Eddu. Höfum verið að passa fyrir Helenu því litla Hildur var veik, það var nú aðallega afinn sem var að passa því hann er voða vinsæll hjá þessum litlu prinsessum.
Svo í gær kom Aron Viðar í heimsókn og var með mér allan daginn, við fórum og sóttum Bjarney Kötu á leikskólann svo fórum við í göngutúr í Smáralind og keyptum ís og fleira.
Svo er bara verið að hanga og dúlla sér með börnunum og barnabörnunum.
Bara góðir dagar.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 22. september 2009

Svona eitt og annað

Flott brú í Mjóafirði
Flott brú í Mjóafirði
« 1 af 10 »
Það má segja að nóg hefur verið að gera síðustu daga, helgin var alveg fulllbókuð og vel það. Svona eru alltaf seinustu dagarnir hér heima.
Á fimmtudag 17. fórum við aftur inní Skötufjörð til að ganga frá bústaðnum fyrir veturinn. En þá var Dúddi búinn að mála og gera við girðinguna hér í Tangó.
 Við fengum okkur bíltúr inní Mjóafjörð til að skoða nýju brúna, flott mannvirki og þvílíkur munur að þurfa ekki lengur að skröltast yfir Hestakleifina . Við snérum svo við og fórum ,i bústaðinn að ganga frá bátunum í vörinni fyrir vetursetu og gekk það bara vel, þó ég hafi nú sagt að við verðum að fá hjálp næsta ár, maður eldist víst og báturinn annar er nú ansi þungur og þurfa snúa honum við, en það tókst ágætlega.
Á föstudag fór Dúddi svo til berja og tíndi fullt af berjum fyrir starfsfólk bæjarskrifstonunnar sem kom svo í heimsókn síðar um daginn. Þetta var í 7 skiptið sem þau koma í sína árlegu berjaferð eða þannig. Það er alltaf spilað krikket með miklu fjöri og svo er grillað saman og haft skemmtilegt, sagðar sögur og spjallað. Þau voru svolítið seint á ferðinni i ár svo það var komið ansi mikið myrkur þegar þau fóru en þetta er mjög skemmtileg heimsókn. Þó ég hafi hætt að vinna með þeim fyrir tveimur árum finnst mér ég alveg eiga heima í þessum hóp, allavega á meðan ennþá er fólk þarna sem ég vann með. Svo er bara gaman að vita að þau skemmta sér alltaf mjög vel í þessari ferð. Hlakka bara til að fá ykkur öll aftur á næsta ári, takk fyrir skemmtunina.
Á laugardag var sko nóg að gera, taka vatnið af og loka og læsa öllu og drífa sig af stað um hádegið, og eins og alltaf skein sólin og það var logn, allt gert til að sína okkur hvað þetta er indislegur staður, ekki verið að kveðja mann í roki og rigningu eins og búið er að vera næstum allan ágústmánuð. Nei sólin skein og allt var svo fallegt eins og best gat. Hlakka bara til næsta sumars.
Já við drifum okkur í bæinn til að aðstoða tengdó, Deddu og Gurrý við að ganga frá ýmsu inní skógi, í þeirra bústað, henda gömlu dóti, taka upp kartöflur og svona ýmist annað smáviðvik.
Um kvöldið voru svo tvær veislur framundan, sviðaveisla hjá tengdó á Hlíf, og svo að hitta saumaklúbbinn í smá partýi, við mættum nú reyndar alltof seint þar, en mikið var gaman að hitta þau öll og spjalla.
Það var farið seint að sofa en mikið var ég orðin þeytt eftir svona langan dag.
Nú er bara rólegt hjá manni ég sit og prjóna sokka á börnin en Dúddi er að mála bílskúrinn hann getur ekki hætt þessi elska verður alltaf að hafa eitthvað að dunda við.
Við förum svo suður, keyrandi á sunnudag með Svenna bróðir, við vorum búinn að panta flug en okkur langar svo til að keyra svona til að sjá hvað við eigum fallegt land að hausti til.
Svo verður Góustaðahittingur hjá okkur elstu laukunum á laugardag, á Seljalandi, til að undirbúa næsta ættarmót. Segi frá því síðar.
Það hafa verið margir afmælisdagar, Atli Geir 20. sept. Gurrý Guðm. 20. Rebekka og Elísabet Ósk 22. á þeim er 70 ára aldursmunur. Til hamingju með afmælin elskurnar mínar.
Sérhver dagur er góður dagur ekki satt?
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 10. september 2009

Fánastöngin hennar ömmu

Hér sést Urðarvegur 11 eins og hann var, flaggstöngin lengst til hægri.
Hér sést Urðarvegur 11 eins og hann var, flaggstöngin lengst til hægri.
« 1 af 10 »
Mig langar til að segja ykkur smá sögu af fánatönginni hennar ömmu sem var við húsið hennar á Urðarvegi 11, þ.e. Önnu Fillippíu Bjarnadóttur.
En þannig var að amma flutti niður á Hlíf II árið 1987, en áður hafði hún búið að Urðarvegi 11 í 55 ár. Eins og hún sagði, hann afi (Ólafur Jakobsson) þinn keypti þetta hús fyrir okkur 1932 og ég vil nú helst ekki fara héðan, en eftir miklar fortölur gaf hún eftir og flutti, enda húsið orðið mjög lélegt og var líka illa byggt í upphafi, eins og svo mörg hús í þá daga.
Þegar amma var komin niður á Hlíf vorum við eitt sinn í heimsókn hjá henni sem oftar, þá sagði hún við okkur "farið nú og takið fánastöngina á Urðarveginum, áður en þeir rífa allt í tætlur, hann pabbi þinn gaf mér hana (þ.e. Guðmundur Sveinsson) árið 1944 svo ég gæti flaggað á 17. júní, hann bjó hana til sjálfur,,.
Við fórum auðvitað og tókum flaggstöngina og settum hana inní bílskúr og vissum ekkert hvað við ætluðum að gera við hana þá. Urðarvegur 11 var svo rifinn í desember 1987.
 Um haustið 1987 keyptum við sumarbústað og þegar hann var kominn á sinn stað og garðurinn orðin svona nokkurnveginn tilbúinn var flaggstöngin sett niður þar.  Hún hefur trónað þar í nærri 20 ár og alltaf flaggað þegar við erum á svæðinu.
 Mér datt  í hug þegar við vorum að skoða hana í sumar, að þessi fánastöng á smá sögu,  þá sáum við líka að hún er farin að fúna ansi mikið að neðan og skildi engan undra því hún er orðin 65 ára gömul. Í þessari fánastöng er enginn kjörviður heldur er þetta bara spíra, hefluð vel til og búinn til á hana renndur toppur. Þetta er svona hjallaspíra.
Ég man að þegar hún var sett upp í fyrsta sinn inn á Skarðseyri þá þurfti að gera við toppinn hann var aðeins farin að fúna, þá setti Dúddi bjórdór efst á hana og voru þá  máluð á hana 5 lög af málningu, mörgum árum seinna fékk hún fleiri lög af málningu og svo síðast núna í sumar.
 Hún amma mín flaggaði mjög oft, ég held bara alla fánadagana og við önnur tækifæri.
Mikið var gott að koma til hennar ömmu í litla húsið hennar, fá góðar pönnukökur, hlýtt faðmlag og gott spjall, hún var alltaf í svo góðu skapi, elskaði ljóðin hans Davís Stefánssonar sem hún söng oft, prjónaði sokka og var alltaf til staðar þó hún væri að vinna í frystihúsinu á daginn hún vann þar fram á langan aldur. Amma varð 92 ára gömul.
Urðavegur 11 var ekki stór, fyrst var bara 1 herbergi og eldhús og klósettið niður í kjallara, en síðan stækkaði afi húsið um 1 herbergi og gang, en þarna bjuggu þau afi og amma með 8 börn á tímabili.
Húsið sem ömmuhús er byggt við heitir Lækjamót, þar bjó Veturliði Guðbjartsson og hans kona einnig með  stóran barnahóp og eins og mér var sagt af einni dóttur ömmu "allir lifðu þarna í samlyndi og sátt.,,
Það er líka svo sniðugt hvernig  þessar ættir sem bjuggu í svona nálægð, hafa tengst í gegnum árin og einnig hvernig börn Veturliða Veturliðasonar koma inn í líf mitt, við Lóa höfum verið vinkonur frá því við vorum litlar en hún er frá Úlfsá þar sem Veturliði bjó með konu sinni Huldu og börnum, og ég kom í heimsókn til afa og ömmu á Góustöðum sem er næsti bær við Úlfsá.
Svo keyptum við Dúddi Urðarveg 13, árið 1999 og þá var okkur sagt að Veturliði hefði byggt þetta hús, en það stendur þar  sem geitarkofinn hans Óla afa stóð, og í þessu húsi fæddist Lóa vinkona mín.
Svo á annan hátt erum við orðin nátengt við eigum eina sameign Jón Veturliðason og ég ,litla stúlku sem heitir Bjarney Kata og er skírð eftir mömmu(Bjarney Ólafsdóttir), en sonur minn Atl Geir og Edda dóttir Jóns Veturiða búa saman og eiga þessu litlu stúlku .
Þannig að þessar ættir sem bjuggu saman í sátt og samlyndi í 55 ár eru aftur orðnar snúnar saman.
Gamla myndin sem ég set hér með er tekin 1966 á afmælisdegi Ísafjarðarkaupstaðar og fengin að láni hjá Jóni Veturliðasyni og þar sést flaggstöngin vel enda flaggað á 100 ára afmælinu.
Verum dugleg að flagga á góðum dögum.

Ef einhver sér hér einhverja vitleysu sem á ekki að vera í þessum pistli mínum endilega látið mig vita.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 3. september 2009

Mallakútar

Mallakútar
Mallakútar
« 1 af 10 »
Fyrir nokkrum árum eða mörgum, var okkur boðið að koma í matarklúbb með skemmtilegu fólki og sem við vissum að væri mikið fyrir að elda góðan mat. Þá voru í klúbbnum, Halla, Hafsteinn, Magni, Svana, Harpa, og Baldur, en þau hættu nú fljótlega þar sem þau voru bæði að fara í skóla í borginni. Við vorum þá sex eftir og var úr vöndu að ráða hvað fólk við vildum fá með okkur eða hvort við ættum bara að vera sex. En svo var ákveðið að gera tilraun með Óla Reynir og Böddu og þau sluppu bara strax inn, fleiri tilraunir þurfti ekki að gera.
Hvað árin eru mörg skptir ekki öllu máli því þau líða svo hratt, en þegar við byrjuðum áttum við heima á Urðarvegi 26 og þar byrjuðu Óli og Badda líka svo þetta eru bara nokkur ár. Þau hafa líka verið skemmtileg og góður matur alla tíð, þemakvöld voru á tímabili voða vinsæl, matur frá Víetmam, Ítalíu, Spáni og Mexíkó og svo var íslenskt kvöld og Sushimatur eldaður af sushisnilling honum Óla syni mínum.
Það hefur líka verið svo gaman að þau hafa alltaf haldið Mallakúta þegar við höfum komið heim frá Spáni, þannig að þó við skeppum í burtu í nokkra mánuði þá erum við enn í klúbbnum, sem ég vildi nú ekki missa, það er líka svo dýrmætt að eiga góða vini sem mann hlakkar til að hitta þegar heim kemur.
Þann 22. ágúst komum við svo saman í Sílakoti til að skemmta okkur og borða góðan mat. Það var mætt snemma veðrið var gott. Við fengum okkur fordrykk, á eftir var farið í Krikkett eins og venja er til hjá okkur ef hópar koma. Forrétturinn var svona ýmsir smáréttir með grilluðu brauði. Svo var gert smá hlé á meðan lærin kraumuðu í holunni. Dúddi hafði farið og náð í krækling og ígulker og voru ígulkerin svona milliréttur sem allir smökkuðu á og fannst bara gott. Japanir eru vitlausir í þau, þar sem eiga að espa kyngetuna.
Svo var sest að borði undir bláhimni sem frúin og Badda voru búnar að skreyta með birkigreinum, ljósaséríum og mörgum kertum og leit þetta bara vel út og var hlýlegt og gott, aldrei séð undir bláhimni svona flottann. Aðalrétturinn var holusteikt læri kryddað með krækiberjalyngi, aðalbláberjalyngi með berjum á og salti og pipar og var þetta bara mjög bragðgott, einnig var grillað grænmeti í bökkum, hvítlaukur í alpappír og krispýkartöflur og piparsósa. Smakkaðist bara vel. Á eftir voru svo ávextir grillaðir í bakka með sykurpúðum, súkkulaði og smá mandarínulíkjör borðað með rakspírarjóma.
Einnig var dansað úti í myrkrinu færeyskir dansar og drukkið koníak í koníaksstofunni sem var búin til.
Þetta var voðalega skemmtilegt kvöld og allir gátu gist svo enginn þurfti að fara heim um nóttina.
Takk fyrir yndislegar stundir kæru Mallakútar.
Svo var hjálpast að við að taka saman bláhimninn sem hafði staðið upp síðan á versló og ganga frá ýmsu dóti.
Við erum nú komin út á Ísó, þar sem það var orðið ansi kalt á okkur í bústaðnum og komum við hingað bæði með kvef og smá flensu svo við höfum nú ekki farið neitt ennþá.
Við eigum svo pantað far út 10. okt. en suður förum við um mánaðarmótin.
Eigið góða daga.