Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 10. nóvember 2009

Nýja hjólið

Á leið í fyrsta hjóltúrinn á nýja hjólinu
Á leið í fyrsta hjóltúrinn á nýja hjólinu
« 1 af 7 »
Hér er bara hamingja, ég búin að fá nýtt hjól og ísskápurinn kominn heim aftur og er í fínu lagi, frystir eins og frystir og kælir og kælir. Það er nú svolítil lykt í honum ennþá, en það nýjasta núna sem við heyrðum til að ná vondri lykt sagði  viðgerðarmaðurinn okkur er að setja nýja ösku í skápinn, bara beint úr arninum, sem við erum náttúrulega ekki farinn að kveikja uppí ennþá. Vonandi endist þessi viðgerð bara næstu árin, en nóg um ísskápinn.
Sl. föstudag var okkur boðið í mat hjá Helgu og Gumma, við ákváðum að taka daginn snemma, fórum í búðir til að skoða hjól fyrir frúna, fundum nokkur en þurftum að hugsa aðeins, maður kaupir ekkert núna nema fara yfir fjárhagsáætlunina fyrst, eins og ástandið er. Við ákváðum svo að mæta í Minigolf á sundlaugarbarnum þar sem hittingur Íslendinga er og spila með. Við vorum fimm í liði, en öllum var skipt í lið, ég var ein með fjórum strákum voða gaman að spila minigolf.
Það þarf ekkert að ræða það meira en Dúddi kom sá og sigraði auðvitað, hann vinnur alltaf, hann sló alveg við þarna tveimur golfurum, hann var nú bæði undrandi og glaður með þetta, og fékk í vinning voða góðan wiskylíkjör ansi góður.
Kannski mætum við aftur á föstudag aldrei að vita, hinir vilja sko halda liðinu til að vinna aftur eða reyna að slá Dúdda við.
Það var voða gaman hjá okkur svo í matarboðinu þar hittum við hjón frá Hvolsvelli sem heita Finnur og Eyrún en hana höfðum við hitt áður.
Daginn eftir fórum við svo aðeins á markað og svo heim á leið með viðkomu í Carrefour og keyptum þetta líka fína hjól.
Rautt dömuhjól, en þetta er nú eiginlega fyrsta hjólið sem ég eignast, fyrir utan eitt sem ég keypti í Canada og Dúddi notaði svo alltaf heima. Fyrsti hjóltúrinn var svo farinn í dag til Rafal að versla. Mér fannst ég vera eins og drottning sat eins og fín frú, eða eins og konurnar hérna í sveitinni sem hjóla til Rafal til að versla. Þarna fann ég hvað ég  saknað þess að hafa ekki hjól, það er svo indislegt að fara hér um sveitir á hjóli. Nú verður sko farið í hjóltúr á hverjum degi, ég þarf líka að fara að safna að mér meira af flísarbrotum í öll listaverkin sem ég hef á prjónunum að búa til. Annars er ég alltaf að prjóna og hekla jólagjafirnar.
Það er allt við það sama í sveitinni allir hressir og kátir hérna í kringum okkur.
Eigið góða hjóladaga, já farið út að hjóla ef það er hægt vegna veðurs, fyrst ég gat farið að hjóla á þessum aldri hmmm, þá geta það allir. Svaka góð æfing.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 3. nóvember 2009

Dúddi fór í sjóferð

Maggi skipperinn, Jón, Högni og Dúddi
Maggi skipperinn, Jón, Högni og Dúddi
« 1 af 7 »
Fyrir viku eða sl. miðvikudag var Dúdda boðið í sjóferð, eða veiðiferð með Magga Sig. úr Hnífsdal, ásamt fleiri góðum mönnum.
Við vorum mætt niður á höfn í Torrevieja kl. 10 um morguninn í alveg blíðskaparveðri gott í sjóinn og allt.
Þeir fóru af stað kallarnir en við kellurnar fórum í gönguferð um bæinn á meðan, aðeins að skoða í búðir, en það var nú lítið keypt, það gengur bara ekki vegna stöðu krónunnar og allt það.
Þeir fóru og veit ég lítið af þeirri ferð annað en að það kom enginn fiskur, og Dúddi var lélegur með myndavélina en þið getið séð afraksturinn hér til hliðar eins og vanalega.
Annars er þetta að verða slæmt hér myndavélin vill orðið gleymast heima, alveg svakalegt, við fórum nefnilega í fallegan göngutúr í gær þar sem við höfum ekki verið áður og engin myndavél,  við ætlum að fara þarna aftur en þetta er á leiðinni héðan í bæ sem heitir Cox. Við fórum á bílnum áleiðis og löbbuðum svo í klukkutíma, þarna er lítil kapella sem mig langar að sjá.
Nú er nefnilega ekki hægt að hjóla því hjólinu mínu var stolið í sumar, þegar það var geymt í smátíma hér fyrir utan hliðið.
Þá hvarf það og Fermin bóndi var alveg eyðilagður og fór út að leita að því og spyrjast fyrir hann hitti einhvern í Rafal sem hélt sig hafa séð einhvern svertingja á því. En þetta góða hjól er semsagt farið. Svo nú er verið að bíða eftir betra gengi til að fjáfesta í nýju hjóli fyrir frúna, þá er sko ekki langt að hjóla þangað sem við löbbuðum í gær. Alltaf gaman að finna eitthverja nýja staði til að fara að skoða og nóg er af þeim hér í kring.
Það hefur verið óvengju hlýtt hér núna og spáin er eins allavega þessa viku eitthvað aðeins kólnað á næturnar. Ég sat úti í gær í skugganum og prjónaði næstum allan daginn en hitinn var hér í skugga 24 gr. æðislegt alveg passlegt fyrir mig. Svipað veður í dag sýnist mér.
Dagarnir eru annars bara rólegir, við skreppum á hitting og sjáum annað fólk svona reglulega þá meina ég íslendinga
spánverjarnir halda enn á að heilsa okkur en við erum voða hrædd við að tala þessi fáu orð sem við erum búinn að læra í spænsku.
Elsku ískápurinn er að fara í viðgerð það á að sækja hann til að blása nýju lífi í hann, ég kann ekkert að segja hvað er að.
Eigið góða og skemmtilega daga.

Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 27. október 2009

Kirkjuferð

Frá göngugötunni í Almoradí á laugardag
Frá göngugötunni í Almoradí á laugardag
« 1 af 8 »
Hér hefur nú verið ósköp rólegt yfir okkur, enda ansi heitt úti miðaða við árstíma þetta 24-28 gr. á hverjum degi sól og logn.
Ekki hægt að hafa það betra. Sl. föstudag fórum við aðeins á hitting íslendinga í La Marina og hittum þar fólkið sem við þekkjum þar og þáðum kaffi og meðí hjá Kristrúnu og Högna, Þar hittum við líka Auðunn og Fríður, gaman að hitta þau öll aftur eftir sumarfrí.
Á sunndagsmorgun fórum við svo í íslenska guðsþjónustu í Norsku kirkjunni og orgelleikarinn var finnskur, sandinavískt.
Þetta var voða falleg messa presturinn hún Ragnheiður Karitas er alveg einstaklega ljúf og góð, en hún er prestur á Hellissandi og einnig hér. Það er búið að æfa hér kór til að syngja við messur og var þetta mjög fallega gert, en kirkjugestir voru líka duglegir að syngja með, síðasti sálmurinn var, Ísland ögrum skorið, og var þá tekið hressilega undir af öllum.
Eftir messu seldu svo norðmenn okkur kaffi og vöfflur sem smökkuðust mjög vel, en þeir eru hér með allskonar styrktarverkefni, og svo erum við að borga fyrir aðstöðuna í leiðinni, mjög skemmtilegur sunnudagsmorgun, eins að hitta þarna fullt af löndum sínum.
Síðan ákváðum við að fara í göngutúr á La Marina ströndinni, hringdum í Helgu og Gumma og þá voru þau á leiðinni á sama stað að labba, svo við skelltum okkur í góðan göngutúr saman. Þarna gat að líta fullt af nöktu fólki sem mér fannst nú ekkert fallegt að sjá, allt gamlir kroppar bæði karlar og konur þau ættu nú bara að fara í skýlu til að hylgja þessar bumbur og fleira, nei segi svona, maður má nú ekki vera með fordóma, en þetta er ljótt, á fallegri strönd.
En svona er lífið, hver verður að fá að hafa sína hentisemi, við búum við lýðræði hér. Ég tók nú engar myndir af þessu en þið hafið það bara í huganum.
Við fórum svo hingað heim Helga og Gummi höðfu keypt kjúkling á markaðnum og var hann borðaður hér með bestu lyst.
Verð að segja ykkur aðeins frá ísskápnum, hann er líklega ónýtur, í frystihólfinu eru 4 gr. hiti og vill ekki fara neðar. Kælirinn er líklega svona 10 gr.  Hann var voða fínn fyrst,fór á fullt og frysti en nú búmm, bara búinn áþví.
Dúddi er búinn að prufa allt sem honum dettur í hug en hann er ekki rafvirki bara bifvélavirki svo hann verður líklega að gefast upp þó það sé nú varla til í hans heilabúi. Við fengum gefins ískáp í vetur og hann er þannig að hann er mjög góður frystir en kælir ekki skápinn, svo hér er allt undir skemmdum en sem betur fer hefur ekki verið mikið keypt í einu.
Nú vaknar maður snemma á morgnana því klukkunni var seinkað og við ekki búinn að koma heilanum í samband við nýja tímann. Nú er bara klukkutíma mismunur á okkur og Íslandi.
Nú skulum við eiga nokkra ísskápsdaga saman.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 22. október 2009

Enn galar haninn

Svona rignir á Spáni eins og hellt úr fötu.
Svona rignir á Spáni eins og hellt úr fötu.
« 1 af 5 »
Nú er lífið allt að færast hér í eðlilegt horf, efir mikið amstur út af ísskápnum, sem er nú komin í gagnið aftur og bara fínn, allavega alveg tandurhreinn eftir allt vatnssullið. Svo ekki nóg með það heldur ringdi hér svo mikið á sl. föstudag að þegar maður sat sallrólegur við matarborðið þá fór allt í einu að leka yfir mann. Það var náð í vaskaföt, fötur og potta til að setja undir lekann. Það tók næstum allan daginn, sem betur fór var þetta nú bara á einum stað. Svo þegar hætti að rigna fór Dúddi uppá þak þá hafði ein þakhellan brotnað í tvennt, líklega þegar ringdi hér hagléli á stærð við golfkúlur eins og Fermin sagði.
Þetta er nú allt komið í gott stand. Allavega í bili.
Enn galar haninn, mér finnst þetta svo notalegt að heyra í honum aftur, hann svaf ábyggilega yfir sig í morgun því ég heyrði ekkert fyrr en kl 8. vanalega byrjar hann um 6 leytið þá er svo gott að sofna aftur. En þetta eru ungar síðan í vor og hefur þeim mikið farið fram að gala. Svo er nú þetta með dýralífið á þakinu, það eru tveir stórir kalkúnar núna sem verða ábyggilega horfnir fyrir jól, þeir voru líka bara ungar í vor, eins með hanann hann verður ábyggilega tekinn í súpu núna einhvern daginn greyið.
Það hefur nú ýmislegt breyst hérna í kring, stóri ruglsahaugurinn hér fyrir ofan hann er horfin sem betur fer, svo er búið að fjarlæga heilu akrana af sítrónu og appelsínutrjám og líklega verið að láta þá jafna sig svo gróðursetja þeir ný næsta ár.
Það hefur nú ekkert sérstak  verið að gerast hjá okkur undanfarið, vorum jú boðin í mat til Palla bróðir Helgu um daginn voða fína nautasteik. Það var ansi skemmtilegt kvöld. Daginn eftir fórum við svo með Helgu g Gumma í góðan göngutúr alla ströndinaa í Torrevieja, í glampandi sól og yndilegu veðri. Svo þurftum við aðeins að hitta bankastjórann og fara yfir málin og kíktum þá við hjá okkar góðu vinum Unnsteini og Rut og var allt gott á þeim bæ.
Dúddi hjálpaði svo Gumma að saga af pálmatrénu í garðinum sem er orðinn ansi stór og mikill.
Hér er núna grenjandi rigning eins og hún verður hér á Spáni, vonandi fer nú ekkert að leka.
Ég ætla að baka pönnukökur í tilefni af því að mamma mín hefði orðið 86 ára 20. okt. og tengdapabbi minn 96 ára í gær 21. okt.
Eigið góða daga.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 15. október 2009

Komin heim í hús

Dúddi að rífa skápinn í sundur
Dúddi að rífa skápinn í sundur
« 1 af 9 »
Mikið er gott að vera komin heim í húsið sitt. Tala nú ekki um eftir að hafa setið eins og síld í tunnu í þessari flugvél, það er svo þröngt að varla er hægt að leysa vind, þó margir hafi gert það á leiðinni. Svakalegt hvað þeir troða í þessar vélar.
Allt gekk annars bara vel. Helga og Gummi tóku á móti okkur og keyrðu heim í hús og er þangað var komið var allt rafmangslaust það hafði slegið út rafmagninu í rigningunum í endaðan september.
 Svooo, það var auðvitað hlaupið til og skoðaður ísskápurinn sem hafði verið í sambandi og viti menn hann kom næstum gangandi á móti okkur ojbara, ég opnaði frystihólfið og þá kom allt á móti mér og ég bara rak upp vein og skellti hurðinni aftur það var allt á iði og allt brúnt. Við opnuðum aðeins aftur og spautuðum eitri inní hann og létum hann ganga og frysta draslið aftur.
Það var svo byrjað aftur næsta dag eftir stífan undirbúning að moka út þessum viðbjóði en þetta eru eins og brún hrísgrjón, en þetta hafa verið svona milljón lirfur sem þarna bjuggu og það má segja að maður hafi framið fjöldamorð á flugum. Það er búið að taka okkur mikinn tíma að þrífa þetta. við erum enn að, höfum ekki losnað alveg við lyktina og enn koma flugur út úr honum þó það sé frost í honum.
Það er búið að þrífa hann uppúr öllum hugsanlegum sápuvötnum, klór, edik, og ýmsar sápur sem hér eru til. Ætla að fara eina umferð enn í dag og sjá svo til. þetta er bara svo flottur, stór og góður ísskápur að við ætlum að reyna allt til að fá hann aftur í gagnið. Við erum bara svo heppinn að við fengum annan ísskáp gefins í vetur sem er frammi í bakgarðinum sem við erum að nota núna. En ísskápurinn verður hér eftir tæmdur og tekinn úr sambandi, það er alveg á hreinu.
Annars erum við svona á milli þrifa á ísskáp  búinn að fara í sundlaugarmat til Helgu og Gumma og var það ansi gott að breyta aðeins til, þau syntu í lauginni enda enn heit, því hér er óvanalega heitt á þessum árstíma 26-30 svona suma daga.
Við áttum góðan dag við laugina, en það var frídagur á Spáni. Við áttum lítið að borða því allt var lokað um helgina og líka á mánudeginum .
Svo fórum við að hitta Örn og Þuru í Almoradí á leiðinni að versla það var svo ánægjulegt að hitta þau aftur hér. Líka var gaman að sjá að matarverð hér hefur ekkert hækkað bara krónan okkar minnkað.
Svo í gær fórum við til Santa Pola að hitta Elínu og Jón, Dúddi var eitthvað að hjálpa Jóni að skipta um eitthvað í bílnum , ég kann nú engar skýringar á því. Á meðan fórum við Elín í göngutúr og spjölluðum saman í sólinni.
Á leiðinni heim komum við svo við hjá Össa og Redy í La Marina og þau eltu okkur hingað heim til að sjá hvar við værum staðsett en þetta er svona 20 mín akstur gegnum akra. Það var gaman að hitta þau ég hef ekki séð þau í mörg ár, en Össi er systursonur Dúdda sonur Dísu.
Eitt get ég sagt ykkur að það er mikill moskítóplága hér á því svæði,það eru allir stungnir, sérstaklega þeir sem eru nálægt vatni, Össi var eins og stunginn grís allur út í bitum og Dúddi er að verð eins. Við höfum lítið orðið vör við þetta hér í sveitinni enda ekkert vatn nálægt okkur. Dúddi fékk 4 bara þennan stutta tíma sem við stoppuðum hjá Össa því hann er með pott í graðinum með skítugu vatni og þar er allt morandi.
Svona til gaman fyrir þá sem til þekkja þá kostar ábótavínið bara 95 cent.
Dúddi fór í klippingu til Rafal,hjólaði þangað í morgun.
Ekki má gleyma Fermin bónda, hann kom með strax á sunnudeginum stóran kassa af kartöflum sem duga til jóla, 10 melónur gular og grænar, og 5 kíló af fallegum rauðlauk svaka góður. Og við vorum föðmuð og kysst á alla vanga og þau brostu eins og börnin þeirra væru að koma heim. Yndislegt fólk.
Eigið góða og fallega daga.