Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 27. ágúst 2010

Minningarorð

Mín elskulega tengdamóðir Rebekka Jónsdóttir, andaðist á sjúkrahúsinu hér á Ísafirði 24. ágúst sl.
Hún fékk hjartaáfall inní sumarbústaðnum sínum í Tunguskógi 17. ágúst. Hún lá veik þessa viku með sína nánustu sér við hlið allan tímann.  Og hún fékk fallegt og hægt andlát, ef hægt er að segja svo. Rebekka var yndisleg kona, ljúf og góð, vildi öllum vel og mátti aldrei heyra að einhverjum liði illa eða ætti um sárt að binda. Alltaf boðin og búinn til að hjálpa öðrum.
Ég kom inní fjölskylduna fyrir 26 árum og við áttum margar góðar stundir saman við spjall og þá var oft talað um handavinnu en Rebekka var mikil handavinnukona var alltaf með prjónana sína sér við hlið og gerði peysur, vettlinga og sokka fyrir alla í fjölskyldunni og margan barnasokkinn jafnvel á þá sem ekkert voru henni skildir, bara ef hún frétti að einhvern vantaði sokka.
Hún undi sér vel í sínum sumarbústað innií skógi og það var gaman og gott að koma til hennar og Guðmundar á meðan hann lifði. Gott spjall um kartöfluuppskeru, berjasprettu og landsins gagn og nauðsynjar. Þau voru yndislegir tengdaforeldrar og voru mér og mínum sonum góð.
Takk fyrir allt Rebekka mín, ég veit þú ert í góðum höndum hjá Guðmundi þínum Guð geymi ykkur.

Svo skrítið sem það nú er dó Adda mamma Helgu vinkonu minnar sama dag og Rebekka en þær voru mjög góðar vinkonur sérstaklega eftir að þær voru báðar komnar á Hlíf, hittust á hverjum degi og stundum oft á dag, Þær fengu báðar hvíldina með nokkra tíma á milli, sem sagt þær voru samferða.
Öddu eða Jónína Kristjánsdóttir sem hún hét er mamma Helgu minnar, sem ég hef þekkt frá því við vorum 10 ára.
Oft fór ég með Helgu í kaffi til mömmu hennar á morgnana í stóru frímínútunum því hún bjó svo stutt frá skólanum og alltaf gaf Adda mér að borða, enda langt heim. Ég var inná heimili hennar eins og eitt barnið í viðbót. Adda var alltaf svo ljúf og góð og einnig hún var dugleg að prjóna og gera aðra handavinnu á meðan hún gat. Það var líka gott að koma í kaffi á sunnudögum í Skólagötuna og fá þessar fínu rjómatertur og annað góðgæti.
Hún var búinn að vera lengi veik, og var Rebekka dugleg að vera hjá henni og spjalla.
Takk fyrir allt Adda mín og Guð geymi þig.

Nú eru horfnar á braut tvær yndislegar konur sem ég þekkti vel og á ég eftir að sakna þeirra.

Ég sendi öllum þeirra aðstandendum okkar dýpstu samúðarkvejur.

Eigið góða daga, og Guð vaki yfir ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 5. ágúst 2010

Júlí

Flottur pallur!!!!!!!!!
Flottur pallur!!!!!!!!!
« 1 af 10 »
Langt síðan síðast.
Það er óhætt að segja að það hafi verið nóg að gera hjá okkur þennan júlímánuð. Pallurinn var kláraður á afmælisdaginn minn þann 5. júlí með miklum glæsibrag, hann er sko flottur þessi pallur og eigandinn er mjög ánægður með hann. Fín barnapía, því strákarnir geta hlaupið í hringi.
Það var svo haldið heim dainn eftir á gömlu bílunum þessum 20 og 25 ára og gekk ferðin vel, nema hvað ég var orðin ansi þreytt á síðasta kaflanum og var bara farin að keyra á 50 síðustu kílómetrana. Það var haldið  á Ísó til að undirbúa ættarmót Góustaðabræðra sem haldið var 9-11 júlí á Góustöðum sem er hér fyrir innan bæinn. Þessi mót hafa verið haldinn á 5 ára fresti síðan 1980 og hafa alltaf verið vel sótt, enda alltaf mjög skemmtileg og við höfum haldið góðu sambandi sérstaklega þau sem alltaf hafa mætt. Við fengum líka mjög gott veður eins og alltaf, þar er bara eins og einhver komi og þurki skýin af himninum þessa daga. Því það var ansi kalt dagana á undan. Það var startað á föstudagskvöldinu með súkkulaði fyrir börn og fullorðna og við maulum Sæmund í vinnugallanum með. Á laugardeginum var farið í kirkjugarðinn svo var farið í gönguferð um Holtahverfi. Ratleikur fyrir alla og leikir fyrir börnin á eftir. Hátíðakvöldverður var svo borðaður um kvöldið. Fyrst fengu allir að smakka nýsoðnar rækjur, pylsur fyrir þá sem vildu, og svo kom lambalærið með öllu tilheyrandi, kryddað og eldað af Magna yfirkokk ásamt lærisveinum, sósan búinn til af Ágúst, og salatið af stelpunum með Höllu sem salatvörð. Þessu var svo skolað niður með hinum ýmsu drykkjum eftir smekk hvers og eins. Það voru svo skemmtiatriði frá hverjum bróðir og voru þau af ýmsum toga og allt skemmtilegt.
Eftir þetta góða ættarmót fórum við í sveitina til að slappa af og skemmta sér áfram með börnum og barnabörnum og feiri gestum. Atli Geir og Edda komu með börnin, Saga Líf var í pössun og Arna Lára kom með selpurnar sínar svo þetta var ansi skemmtilegt og góð vika. Og svona hefur þetta gengið hjá okkur mikill gestagangur og mikið fjör. Já ekki má gleyma Ögurballinu en þar mættum við snemma kvölds og skemmtum okkur vel, en fórum snemma heim af Ögurballi eða kl. 2:30 en það þykir snemmt á þeim bæ.
Svona get ég talið upp skemmtilegheitin hjá okkur. Þá má segja að veðrið sé búið að leika við okkur en það hefur verið Spánarveður hér hjá okkur allan júlímánuð eða eins og góðir vetrardagar eru hjá okkur á Spáni.
Dúddi hefur farið á sjóninn og hann fékk nokkra þorska og ég bjó til nokkrar fiskibollur handa okkur eða um 115 stk. gott að eiga það í kistunni hjá Ágúst og Hrefnu, en þar erum við þegar við erum hér á Ísó, eins og núna.
Hvenær ég skrifa næst veit ég ekki, við förum í sveitina á morgun og komum eftir helgi til baka.
Eigið góða daga öll, þótt hann fari að rigna aðeins ekki veitir berjunum af að fá aðeins vökva.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 1. júlí 2010

Farið fljótt yfir sögu

Saga Líf, Ágúst og Aron Viðar við flaggstöngina á Skarðseyri á 17. júní
Saga Líf, Ágúst og Aron Viðar við flaggstöngina á Skarðseyri á 17. júní
« 1 af 10 »
Það er  erfitt þegar maður er komin á þennan aldur hvað gleymskan hefur tekið völdin, eða hugsunarleysið og fljórfærnin. Þegar maður býr svona eins og við í húsinu á Ísó, og sumarbústaðnum þá er náttúrulega ýmislegt sem gleymist eða maður heldur að það sé með þegar maður flakkar á milli. Tala nú ekki um það sem gleymdist á Spáni.
Út af þessu hefur verið ansi hljótt um okkur hér á blogginu. Ég gleymdi sem sagt öllum þessum snúrum sem tengja okkur í samband við næstum allt sem maður þarf að nota við þessa tölvu. Hleðslutækinu við myndavélina og símahléðslusnúrunni gleymdi ég á Spáni, keypti mér nýja á Ísó og fór með í bústaðinn en gleymdi henni svo þar ,þegar ég fór svo á Laxárbakka. Myndavélasnúrunni gleymdi ég svo á Ísó þegar ég fór inní bústað. Svo þið sjáið að þetta er mikil gleymska á snúrum, þó er ég með tölvubakpoka sem allt á að vera í úff, kennið mér leið til að muna eftir öllu þessu snúrudrasli. Ég var á Skarðseyri frá 14. júní og Aron Viðar vinnumaður með mér svo kom Dúddi og var eina nótt en hann fór að smíða pall fyrir frænku sína, sem á hús við Laxárbakka.  Ágúst og Saga Líf komu svo til okkar 16. júni og var haldið upp á þjóðhátíðardaginn með fánahillingu og skrúðgöngu um túnið í allavega múnderingu, á því miður ekki mynd gat ekki hlaðið myndavélina, vantaði snúru. Ég skrapp í bæinn og sótti Hrefnu á föstudag og vorum við saman um helgina í bara þokkalegu veðri, það hefði alveg mátt vera minni hraði á logninu. Það var margt brallað búið til bú fyrir litlu prinsessurnar sem koma á svæðið, það voru settir bollar, pottar og ýmislegt dót til að baka og búa til mat. Saga bauð uppá hrísgrjónagraut búinn til úr sandi og litlu grjóti það voru rúsínur. Aron Viðar og Ágúst voru mjög duglegir að fara út að taka myndir. Einnig var farið í göngutúr inn að Hjallakoti. Svo á sunnudag fórum við Aron Viðar brunandi á gömlum Skoda árgerð 1989, til Dúdda. Lögðum af stað uppúr hádegi og vorum komin að Laxárbökkum um sexleytið. Aron hafði á orði, amma það fara allir bílar framúr okkur!! Enda ekki nema von því við fórum bara á 80-90 í mestalagi. Þessi fíni bíll er nefnilega með vöðvastýri ekki vökvastýri og það var stundum ansi erfitt að beyja, tala nú ekki um þegar ég þurfti að stoppa og taka bensín í Hólmavík, það var komið eitthvað íl sem okkur leist ekkert á svo við hringdum í Dúdda, hann sagði að við skildum athuga hvort það vantaði olíu á hann. Jú, ég vissi nú hvað olíuprikið er á festum bílum, en hvernig ætti að opana húddið vissi ég ekki og fann það ekki hvernig sem ég leitaði. Þannig að ég spurði stóran og stæltan mótorhjólakappa sem var merktur Sniglunum hvort hann vissi hvar ætti að opna þetta, jú hann skildi nú athuga það, en á endanum voru þeir komnir fimm Sniglar og enginn fann takkann. Svo nú voru góð ráð dýr ég varð að hringja í eigandann og spyrja, þá var ég nýbúinn að mæta honum á Steingrímsfjarðarheiðinni, takkinn er undir stýrinu vinstra megninn Þórdís, svo nú gat ég opnað húddið og athugað með olíuna, og ég kallaði bara í næsta mann og spurði hvort þetta væri ekki nóg, jújú þetta er alveg yfir strikið. Svo þá var bara að kaupa pylsuna fyrir Aron aðstoðamann og bruna af stað frá Hólmavík. Aðstoðamaðurinn var orðinn svo ansi þreyttur svo hann sofnaði og svaf næstum alla leiðina að Bifröst, þegar mesta umferðin byrjaði. En við komust heilu og höldu til Dúdda. Þar hef ég svo verið snúrulaus og ekkert getað bloggað eða sett inn myndir og þurfti að fá að hlaða simann minn hjá Huldu staðarhaldara. Í heila viku hef ég verið með Dúdda að smíða pall, er bara orðin nokkuð góður smiður, þó ég segi sjálf frá. Hef verið að bora, saga á bútasög, negla, og skrúfa með svona vél. þetta hafa verið miklar líkamsæfingar, að vinna svona í nætrri 10 tíma á dag, og þreyttur hefur maður verið á kvöldin úfffffffff.
Nú er pallurinn næstum búinn bara eftir að setja grindurnar á hann en þær eru víst ekki tilbúnar, svo við brunuðum í gær til Kópavogs til Helenu og Harry. Dúddi er núna að hjálpa Harry við hans pall, þetta eru svona verkbýtti. Hvað við verðum lengi hér er ekki vitað. Við erum svona farand-sígaunaverkamenn í augnablikinu.
Kiddý og Gulli takk fyrir lánið á bílnum, hann kemur bráðum aftur til Ísó, ég er að safna kjarki til að fara á honum til baka og ætla að bíða eftir að Dúddi fari á Járntjaldinu sem er enn eldra en ykkar bíll, tvö góð saman koma svo á tveim gömlum saman.
Eigið góða daga, þó hann rigni.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 10. júní 2010

Komin heim á Ísafjörð

Fallegi Ísafjörður
Fallegi Ísafjörður
« 1 af 10 »
Loksins nenni ég að skrifa eitthvað, og svona láta vita af okkur, ég er nú ekki alveg hætt að blogga en maður tekur sér nú smá frí svona yfir sumarið. Hér er nefnilega svo ansi mikið að gera að maður gefur sér ekki tíma til að setjast niður og skrifa.
Við komumst heil heim með flugi sm seinkaði aðeins um klukkutíma. Það tóku við heimsóknir og hitta barnabörnin sem biðu spennt eftir afa og ömmu og því sem leyndist í tökunni hjá þeim. Bjarney Kata var fyrst því þar gistum við hjá Eddu þar sem Atli Geir fór til útlanda sama morgun og við komum. Á kosningadag fórum við svo til Hafnarfjarðar og hittum Jón, Ástu, Gurrý og Róbert. Seinnipartinn var svo farið til Helenu og Harry þar var okkur boðið i grillmat gott lambakjöt og kræsingar. Þar var búið a kaupa trampolín sem afi setti saman fyrir börnin, við mikinn fögnuð og mikið var hoppað bæði afi og pabbinn reyndu líka og gekk bara sæmilega. Þá var horft á Eurovision og kosningasjónvarp en líka farið snemma að sofa þetta var bara leiðinlegt sjónvarpsefni. Á sunnudeginum fór svo Dúddi upp í Hvalfjörð með fríðu föruneyti, að skoða pallavinnu, sem hann ætlar að taka að sér fyrir Helgu Þurý. Ég var heima og beið eftir að hitta Aron Viðar en hann var að keppa í fótbolta og gekk bara vel hann kom heim með verðlaunapening. Svo var bara verið að snattast eins og gengur í borginni. Við erum svo heppin að eiga góða vini sem lánuðu okkur bílinn sinn þar sem við eigum bara húsbílinn en hann var geymdur inní bústað. Á þriðjudeginum fórum við  til jarðarfarar Gunnu frænku í Keflavík hún var móðursystir mín sem mér þótt afarvænt um. Hún hét Guðrún Elísa Ólafsdóttir og bjó flest sín búskaparár í Keflavík, blessuð sé minning hennar.
Heim á leið fórum við svo á miðvikudag samferða Önnu Lóu systir minni og Gulla, það var bara keyrt eins og leið lá vestur á Ísafjörð fallegasti bær í heimi sem kúrir í faðmi fjalla blárra.
Það hefur nú verið ansi mikið að gera síðan við komum heim, það var auðvitað farið strax daginn eftir inní Skötufjörð til að huga að bílnum og vita hvernig sumarbústaðurinn kæmi undan vetri, allt var í fínu lagi. Saga kom með til að hjálpa til. Það  var auðvitað vitað að það þyrfti að taka bílinn í gegn og það hefur Dúddi verið að gera alla daga síðan. Við komum aftur í bæinn til að laga bremsur, svo fórum við inneftir á laugardaginn og komum heim aftur á þriðjudag. Nú er búið að gera húsið í stand fyrir sumarið og laga bílinn líka. Við verðum hér á Ísó fram yfir helgi til sýna okkur og sjá aðra og upplifa stemminguna á Ísafirði. Í dag er hér skemmtiferðaskip og bærinn er fullur af fólki.
Gott í bili eigið góða daga elskurnar það ætlum við að gera.
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 25. maí 2010

Gömul hús og fleira

Hitastigið í Almoradí um hádegið
Hitastigið í Almoradí um hádegið
« 1 af 12 »
Ja, nú fer að styttast í heimferð, þessi tími er búinn að vera fljótur að líða. Við höfum verið að ganga hérna okkar gömlu stíga eða akurvegi eins og við köllum það. Þá sá ég eitt myndefni sem gaman er að eiga myndir af og ætla eg að sýna ykkur nokkrar, en það er af gömlu húsunum hérna í kring sem enn eru látin standa á ökrunum. Því ef þau verða rifin þá er miklu erfiðara að fá aftur leyfi til að byggja á þeim stað, þetta skildist mér, þegar ég spurði, svo húsin eru bara látin standa og grotna niður, sumum er nú haldið við að einhverju leiti. Fjölskyldur koma þangað á sumrin til að hittast í helgarmatinn með ömmu og mömmu og er oft mikið fjör þá kringum þessi hús.
Við fórum svo í sundlaugarpartý en þar var nú enginn sem fór í sund því laugin var eiginlega of köld til að fara út í eða við bara aumingjar sem erum vön betra. En það var mjög gaman þetta var hjá Helgu og Gumma að sjálfsögðu eina fólkið sem við þekkjum sem hefur sundlaug. Palli bróðir hennar, kona hans Adda, barnabörn voru þar Irena og Ariana, ásamt Guðrúnu og Kára.
Á sunnudag var svo farið á markað að versla það síðasta sem eftir var og svo legið í leti það sem eftir var dagsins.
Svo var farið að pakka niður, ræða við Fermín um bílskúrinn, og skildist Dúdda að hann ætti að mæta kl. 9 í morgun til að hjálpa til, svo þegar hann mætti var kallinn bara búinn að þessu eða svo gott sem. En við heyruðum í honum, hann er nefnilega fuglafæla núna, hann er með bygg akur sem lagðist ansi mikið niður í vindinum sem kom um daginn og fuglarnir eru alveg vitlausir í þetta bygg, svo hann fer allt í kring labbandi og hjólandi lemur eldgamla fægiskólfu til að gera hávaða svo fuglarnir fari, þetta er svolítið skondið. Ég spurði nú Dúdda hvort hann gæti ekki tekið að sér að vera fuglahræða, hann þyrfti bara að standa út á akri og láta öllum illum látum. Hann trúði ekki að það myndi ganga. Svo nú til að geta einhvern veginn borgaði fyrir bílskúrslánið ætlar hann að fá að hjálpa honum að taka upp katröflurnar sem eftir eru í garðinum hjá honum.
Segja ykkur aðeins frá svölunum, við rákum þær út í vor vegna óþrifnaðar þær skíta allt út, kunna enga fuglasiði, svo nú fóru þær bara til Fermín og Carmen og eru núna með hreiður í útieldhúsinu hjá henni.
Ekki gekk þetta með kartöfurlar hann byrjar nefnilega klukka 6 á morgnana en þá er hitinn bærilegur til þesskonar starfa en við vöknum aldrei svona snemma.
Hér er bara verið að ganga frá húsinu til sumardvalar, enda enginn að koma til að vera í því, stórskúringar búnar, og nú er bara efir að vikta töskurnar, þrífa ísskápinn og þessháttar.
Við leggjum svo í hann á morgun. Bíllinn verður settur í bílskúrinn og svo passa Fermín og Carmen húsið og blómin, yndislegir nágrannar sem við eigum.
Hlökkum til að sjá ykkur öll, eigið góða daga.