Þórdís Guðmundsdóttir | laugardagurinn 15. maí 2010

Ruta Verde Nocturna- Græna næturleiðin

Verið að leggja af stað frá toginu
Verið að leggja af stað frá toginu
« 1 af 11 »
Á föstudagskvöldið fórum við í mjög skemmtilega göngu sem byrjaði á torginu í Almoradí kl 21:30. Þetta var kvöldganga og svona verið að slútta Ruta Verde göngutúrunum  eftir veturinn. Þegar við stóðum á torginu og vorum að bíða eftir fararstjóranum sem við þekktum í sjón, leist okkur ekkert á þetta því þetta voru eintómir spánverjar, foreldrar með börnin sín allt niður í 5-6 ára og þetta hafa ábyggilega verið svona hátt í 100 manns. Það var skrítið að heyra enga ensku, en það var bara gott. Það var arkað af stað með lögregluna á undan og út um allt þeir heita Protection Civil og eru alltaf með í ferðum og sjá um að stoppa umferð svo allir komist slysalaust út úr bænum á þessa stíga sem gengið er um. Við fórum þessa ferð í björtu í vor svo við vissum hvert við vorum að fara. Það var svolítið skrítið að ganga þarna í svarta myrkri en það var gott hvað margir voru með vasaljós, við höfðum nú ekki vit á því. En það var farið framhjá stóra trénu áleiðis niður að Rio Segura og það var svolítið vatn í ánni. Þetta var 50 mín. gangur. þar var komið í lítið rjóður þar sem var búið að kveikja á ljósum og þar voru borð og bekkir voða kósí. Þarna var okkur boðið uppá samloku og vatn, við settumst hjá ósköp vinalegu fólki sem bauð okkur velkomin og spurðu strax hvaðan við værum og við sögðum það, ó volcano islandía, þetta vita núna allir. Elskuleg ung stúlka sat þarna hjá okkur og af öllu þessu fólki þá hittum við á stúlku sem á vinkonu á Íslandi, spænska  að sjálfsögðu, en hún fór til Íslands í ár til að læra ensku!!!!! og vill helst ekki koma strax heim aftur. En hugsið ykkur tilviljunina að setjast hjá akkúrat henni. Hana langar til Íslands til þess að sjá norðurljósin. En þarna var setið, borðað og horf á leikþátt og var Dúddi tekinn uppá svið eins og alltaf. Sem betur fer þurfti hann nú ekkert að segja og skildi nú ósköp lítið af því sem fram fór en þetta var voða gaman. Svo var að arka heim aftur og vorum við komin hingað í hús kl. 00:30 ansi þreytt eftir langa göngu og langan dag. Þetta var bara hressandi og engar harðsperrur daginn eftir enda fólk í þjálfun hmhm.
Helgina lágum við bara i leti að njóta sólarinnar áðum er við förum heim í kuldann, enda var óvenju rólegt hér í götunni á sunnudaginn við heyrum ekki mannssins mál allan daginn, eða bíl fara um götuna. Þegar við svo fórum seinipartinn á sunnudaginn til að taka mynd af stóra trénu sem við vorum búinn að lofa að setja mynd af hér, þá sáum við ábyggilega 3-4 hoppukastala bæði fyrir utan heimahús, veitingastað og ein gatan í Almoradí var lokuð af hoppukastala þeir eru vinsælir hér í veislum, því núna er verið að ferma börnin hérna á Spáni eða allavega hér í kring. Þessvegna var svo hljótt hérna, allir í veislum.
Í gær fórum við í heimsókn til Unnsteins og Rutar og þar var boðið upp á grill að hætti Unnsteins, kjúklingalæri mjög gott, takk fyrir okkur kæru vinir, alltaf svo gott að koma til ykkar og ekki spillti það nú að fá fallega rós frá grillmeistaranum.
Hér er yndislegt veður dag eftir dag eins og Spánn á að vera, enginn kuldaboli lengur.
Myndirnar úr gönguferðinni eru ansi dökkar en því miður á ég bara ekki betri myndavél.
Eigið góða daga elskurnar og takk fyrir öll innlitinn og sérstakleg hrósið um orminn.

Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 13. maí 2010

Afmælisveisla

Við veisluborðið, Ivan og Sólmar að hlaupa um
Við veisluborðið, Ivan og Sólmar að hlaupa um
« 1 af 10 »
Sól, sól og aftur sól og ég verð voða löt að sitja hér inni og blogga, hef setið úti og prjónað og heklað á fullu, í skugganum, ef ég sit við það í sólinni þá þæfi ég allt,  en nú hefur eitthvað kólnað seinnipartinn og ég ákvað að setjast niður og segja ykkur frá afmælisveislunni og afhjúpun listaverksins.
Dúddi átti afmæli á mánudaginn og var slegið upp veislu á sunnudaginn og buðum við 16 manns. Það eru þeir vinir sem við umgönumst mest hér á Spáni. Það var eldaður spánskur og íslenskur matur. Skötuselur með ætiþirslum, túnfisksalat, svo voru ostar, pylsur og brauð. Eftirréttirnir voru ostakaka með aðalbláberjum úr Skötufirði að sjálfsögðu og pönnukökur, getur varla íslenskara verið. Þetta tókst mjög vel og þegar gestir komu kl. 15:00 var að verða ansi heitt hér í patíóinu, það var samt borðað úti. þegar gestirnir fengu sér svo eftirréttinn, fóru allir inní húsbóndaherbergi að borða, þá var orðið svo fjári heitt úti. Ég hefði nú seint trúað því að íslendingar flýðu sólina, en þá var gott að hafa  pláss í skugganum. Þar er líka sófi og borð og svo er til fullt af stólum. Það var nú íað að því að þarna ætti bara að halda ball í haust, aldrei að vita hvað verður.
Þegar veislan var að verða búinn komu þau heim Carmen og Fermin úr fermingarveislu svona líka dragfín. Hann er alltaf að koma með eitthvað gott í gogginn fyrir okkur, það kom full fata af baunum í dag, held ég verði bara að fara að finna einhverja góða uppskrift hvað ég á að gera við þær. Ég hef núna náð bara nokkuð góðum tökum á ætiþirslunum, næst verða það baunaréttir!!!!!!!
Veðrið hefur verið mjög gott undanfarna daga og höfum við mest verið hér heima við, setið í sólinni og skugganum til skiptis og verið að taka til. Við höfum reyndar verið ansi dugleg að fara út að hjóla núna. Nú hef ég eignast hjálm í fyrsta skipti á æfinni og er ég bara fín með hann og mér finnst ég miklu öruggari á hjólinu núna. Við fórum hjólandi til Rafal í gær Dúddi fór í klippingu og svo fórum við í morgun á markað að kaupa okkur grænmeti  og ávexti.
Á morgun ætlum við að fara á hitting í La Marina.
Eigið góða sumardaga vonandi skín sólin á ykkur líka.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 6. maí 2010

Listaverkið Ormurinn

Svona leit veggurinn út
Svona leit veggurinn út
« 1 af 10 »
Nú ætla ég að sýna ykkur hvað ég hef verið að dunda við í vetur. Listaverkið.
 Einn veggurinn hjá okkur var svo ansi ljótur með allavega skurðum og holum, það þurfti að mála og jafnvel spasla. Svo sat ég einn daginn og var að horfa á hann þá sá ég að í þessum ljóta parti var stór ormur. Ég fékk mér blýant og teiknaði þetta laust á vegginn og þá var þetta nú næstum hvalur, ég mjókkaði hann aðeins og lagaði til. Mér finnst nú stundum að þetta sé svona blanda af ormi og fiski. En þar sem hann er digrastur er skýringin sú að hann hafi borðað eitthvað stórt. Þetta er gert úr flísabrotum sem ég hef verið að týna hér í kring en þetta hef ég aldrei gert áður, jú ég gerði lítið borð í fyrra en  kann ósköp lítið að gera mósaik, en ég kann að púsla og það hefur mér alltaf þótt gaman, þetta er svona svipað nema að þú ert að búa til púslið. Þetta lítur bara vel út á veggnum og nú koma fleiri listaverki í kjölfarið því ég er kominn með hauga af flísum í húsbónaherbergið.
Sl. sunnudag fórum við í heimsókn til Santa Pola til Elínar Þóru og Jóns og vorum við þar allan daginn fram á kvöld. Röltum niður á höfn til að skoða bátana og fengum okkur auðvitað hressinu á hafnarkránni, yndislegt veður og gaman að fylgjast með fólkinu á röltinu. Svo á mánudaginn vorum við að passa litlu prinsana hennar Helgu Þurý og líka á þriðjudag og miðvikudag, þetta var nú bara í nokkra tíma á dag, voða gaman að vera með þeim og þeir eru svo góðir hjá okkur. Við heimsóttum einnig Unnstein og Rut sem er nú alltaf svo gott að koma til og fá tesopa, þau létu okkur hafa fullt af blöðum svo nú höfum við nóg að lesa með morgunkaffinu. Í gær fórum við fyrst að passa svo að hlusta á Kristinn R. Ólafsson halda fyrirlestur um menningar og listasögu Spánar, þetta var voða gaman, hann er nú svo skemmtilegur. Þarna þuldi hann upp kónga, drottingar, listamenn og einræðisherra í 3 tíma blaðlaust og sýndi okkur myndir með, mjög fróðlegt og skemmtilegt. Svo þið sjáið að hér er alltaf nóg að gera ekki hægt að leiðast. Dúddi á svo afmæli á mánudaginn og við erum búinn að bjóða nokkrum vinum, í smá veislu á sunnudaginn og afhjúpa listaverkið í leiðinni eða þannig.
Eigið góða daga


Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 28. apríl 2010

Góðir gestir í heimsókn

Sissa og Óli mætt á svæðið
Sissa og Óli mætt á svæðið
« 1 af 10 »
Það er nú bara langt síðan ég skrifaði síðast, það hafa verið gestir og svo er bara svo gott veður á daginn að ég hef ekki nennt að skrifa. Sissa og Óli Páll komu hingað frá Danmörku sl. fimmtudag þau voru kominn hingað til okkar um miðjan dag, enda með bíl og höfðu komið áður og rötuðu svo við þurftum ekkert að fara út á völl að sækja þau. Þetta var golfferð hjá þeim. Eyþór bróðir Sissu og Ása konan hans komu svo um kvöldið frá Íslandi og eru í golfferð hér í Alicante. Sissa og Óli fengu að ganga með þeim inní pakkan og spila nokkra daga með þeim. Þetta var víst vel heppnuð ferð þau spiluðu alla daga nema laugardag.
Á laugardaginn komu svo Eyþór og Ása hingað, fyrst var farið á markað í Almoradí og keypt grænmeti og eitt og annað síðan var farið til slátrarans og keypt lambalæri sem var svo grillað um kvöldið og var alveg svakalega gott kryddað að hætti Óla.
Einnig var farið og kíkt á barinn, en þangað höfum við farið með alla gesti sem komið hafa í vor, enda svo fínt, sólin skín og hægt er að sitja úti og horfa á kallana spila Dóminó og hlusta á hávaðann þegar þeir tala saman þetta eru alveg eins og hríðskotabyssur. Þetta var ansi skemmtilegt kvöld setið úti til kl. 00.30 en þá var farið að leggja sig þau voru svo öll að fara að spila golf daginn eftir, Eyþór og Ása gistu hér í barnaherberginu. Sissa og Óli hurfu svo á braut á þriðjudagsmorgunn eftir góða daga að ég held á fínum golfvelli. Takk fyrir komuna kæru vinir. Á sunnudagsmorguninn fórum við Dúddi svo til Rafal þar var Fiesta del la Sevillina og það var útimessa þegar við komum og við settumst niður og sátum þar í klukkutíma, þetta var voða hátíðlegt og fallegt þó maður skildi varla eitt einasta orð, nema þegar hann nefndi Maríu.
Hér er nú orðið bara nokkuð heitt um 25 - 30 stig á daginn og varla nokkuð hægt að gera, ef maður prjónar þá þævir maður garnið um leið. Annars hef ég nú verið að reyna að vinna við listaverkið þegar hitinn og svitinn er ekki að drepa mig þetta er allt að koma og þið fáið að sjá þetta í næsta bloggi þá verð ég vonandi búinn.
Við vorum svo heppinn að Jón Gunnars fann gamla eldhúsinnréttingu í St. pola svo nú er Dúddi á fullu við að setja hana upp í húsbóndaherberginu þá verðum við kominn með fínt útieldhús eins og tíðkast hér á Spáni, fínt að geta farið þangað þegar hitinn er að drepa mann í eldhúinu, það vantar að vísu eldavélina en þetta er fínt.
Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt við erum á leiðinni heim eftir mánuð og nú er farið að telja niður, og muna að gera allt sem maður ætaði að gera alla hina mánuðina.
Nú er ég að fara út að vinna eigið góða daga með hækkandi sól.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 19. apríl 2010

Engar fréttir góðar fréttir

Þrjóska nautið mitt að setja upp enn eitt sjónvarpsnetið
Þrjóska nautið mitt að setja upp enn eitt sjónvarpsnetið
« 1 af 9 »
Eina og ég sagði í síðasta bloggi þá er nú ekkert sérstakt að ske hérna hjá okkur núna lífið gengur sinn vanagang. Veðrið er yndislegt, sól og logn og hitinn um 24 stig. Ég er nú reyndar á síðustu dögum að klára listaverkið á veggnum og hugsa mikið um hvað ég eigi að gera næst, það þarf að nota flísabrotin sem ég er búinn að safna, sem er nú orðinn ansi góður haugur.
Þetta er nú svolítið skondið þessa dagana nú opnar maður ekki sjónvarpið hér í fréttatímum án þess að sjá umfjöllun um eldgosið á Íslandi, við erum í öllum  fréttum sama hvaða stöð það er. Aðallega er nú fjallað um flugstoppið um alla Evrópu, eins eru oft sýndar myndir með af eldgosinu sjálfu og öskufalli heima í kringum þetta. Nú er verið að tala um hvað þetta er mikið tap í evrum fyrir flugfélögin. Manni finnst þetta svo skrítið því það er aldrei fjallað um Ísland hérna ekki einu sinni Icesave.  En vonandi fer þetta að lagast við þurfum að komast heim í vor. Við þurfum kannski að fara að panta okkur skipsfar. Verður ekki bara að ræsa gamla Gullfoss við aftur?, það var svo gaman að fara heim með honum þegar maður var 19 ára ójá.
Elín Þóra og Jón komu og voru hér hjá okkur í einn dag mikið spjallað fórum aðeins í göngutúr og fengum okkur rauðvín á litla barnum í bænum. Svo borðuðum við saltkjöt og rófur á laugardagskvöldið með Helgu og Gumma, en Kiddý og Diddi voru svo góð að koma með það með sér og gáfu okkur takk fyrir Kiddý og Diddi. Það hefur bara ekki verið tími til að borða það fyrr, því svona borðar maður með viðhöfn. Ég prófaði nýjan ætiþirslarétt þessi er voða góður með rækjum og fiskisósu, svolítið öðruvísi en voða gott.
Þið sem eruð naut vitið að þið eruð þrjósk, ekki satt, eins þeir sem umgangast naut, hef einn hérna hjá mér voða sætur og góður en alveg svakalega þrjóskur. Hér er komið í gagnið afruglari digital, sem allir verða að hafa til að sjá sjónvarp, hef nú ekki vit á þessu tæki, erum búinn að kaupa hann til að sjá á sjónvarpið, en við þurfum að kaupa líka nýtt loftnet og auðvitað kostar þetta allt full af evrum. Ég held að Dúddi minn sé búinn að prófa fimm, fengið þau lánuð til að prófa og einnig hefur honum veri gefið og allt skal prófa áður en hann kaupir nýtt. Nú sjáum við sjónvarpið ágætlega á meðan bjart er, en á kvöldin þegar dimmir hverfa tvær aðalstöðvarnar á aðra þeirra horfum við mikið á eða rás 1.
Nú fer maður bráðum að skella sér í góðan göngutúr á ströndinni þegar það er orðið svona hlýtt.
Bara stuttar fréttir núna hef um svo margt að hugsa.
 Sissa og Óli Páll eru að koma í heimsókn á fimmtudaginn og verða fram á þriðjudag, ætla að stunda golfíþróttina, ef það verður flogið, alveg rétt.
Eigið góða daga og Gleðilegt sumar öll.