Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 27. janúar 2010

Gúrkutíð

Kaktusarnir blómstra nú samt
Kaktusarnir blómstra nú samt
« 1 af 9 »
Ef ég á að segja eins og er þá er hér voðalítið fréttnæmt eða skrifþurð, ef það má segja svo, hér er allt í svo lágum gír vegna þess að veðrið hér er alveg einstaklega skrítið. Alltaf hægt að tala  um veðrið, því það ræður svo miklu um hvað við gerum á þessum og þessum tíma ekki satt. Hér hefur verið leiðinlegt íslenskt sumarveður alveg síðan í byrjun árs. Kalt, rigning og næstum snjóað en ekki hér á okkar svæði við höfum sloppið svona með heppni. Það hefur verið kalt núna alla þessa viku svo arininn og gasofninn sem Jón og Elín létu okkur fá hafa alveg bjargað lífi okkar hér, takk fyrir enn og aftur. Svo höfum við auðvitað verslað við rándýra Ibendrolu sem er okkar Okrubú.  Ég veit að það hefur verið góður vetur heima og kannski stundum hlýrra hjá ykkur, en hér er miklu bjartara og einhvern veginn blíðari veðrátta þó hitastigið sé kannski það sama, rakinn vill stundum vera leiðinlegur en svo kemur sólin og þá brosir maður aftur við lífinu og tilverunni.  Það snjóar nú enn fyrir norðan og skrítið að sjá skaflana á götum Spánar, bara vitlaust veður og kafaldsbyl.
Við höfum það samt alveg svakalega gott. Dúddi er enn að dunda við sturtuna og laga vaskinn sem hann ætlar að hafa fyrir sig til að raka sig, en þetta rými þarna frammi sem er eins stórt og allt húsið hefur verið skírt og heitir nú húsbóndaherbergið, og það með réttu, því þar er hann öllum stundum, það er nú með þeim stærri húsbóndaherbergjum sem ég hef séð. Ekki lítill bílskúr eða kjallarahola nei, 63 fermetrar að ég held. Það var Dedda litla systir hans sem fann þetta nafn á það og er það fínt, ekki bakherbergi eða bakgarður.
Svona aðeins til að viðra okkur fórum við í bíltúr til Crevillente í gær og fengum okkur göngutúr um bæinn, vorum nú reyndar í útjaðri hans en þar voru ekkert nema arababúðir og var ansi gaman að kíkja þar inn ægði öllu saman föt matur og rafmangstæki, ekkert verðmerkt þurftir að prútta held ég en við létum það nú vera. Þetta var svona tilbreyting frá Kínabúðunum sem við köllum svo og eru hér út um allt, annað á borðstólum þar.
Það rignir yfir okkur appelsínum og káli frá Fermín svo það er mikið borðað af þessu.
Hann hristir sig allan og segir fríó, fríó, kalt,kalt.
Góðir og kaldir dagar, en sól framundan. Guð veri með ykkur.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 21. janúar 2010

Rólegt í sveitinni

Karlos kokkur tekið fyrir mánuði
Karlos kokkur tekið fyrir mánuði
« 1 af 9 »
Hér er allt með ró og spekt og lífið gengur sinn vanagang. Fórum hjólandi til Rafal í morgun að kaupa ávexti og grænmeti á markaðnum. Nú á ég nefnilega svona mixara til að búa til safa og spæna í sundur ávexti, veit ekki hvað þetta er kallað, og nú er svoleiðis drukkið á hvegjum morgni, þannig að vítamínið það vellur í okkur allan daginn og svo er borðað grænmeti á kvöldin með matnum, svakalega hollt og gott. Allt er nú þetta gott í hófi, maður má nú ekki ofgera sér á hollustunni svo maður læðir með svona einu og einu rauðvínsglasi, til að styrkja hjartað, ekki satt?
Ég sagði ykkur um daginn að ég horfði alltaf á kokkinn Karlos kl. 3 á daginn, bæði til að læra spænsku og svo líka til að sjá hvernig hann fer með ýmsan mat sem maður er ekki vanur að elda og hef ég ýmislegt lært af honum, sérstaklega að fara með grænmetið. En í gær fór hann næstum alveg með það. Ég var ekki heima heldur hjá Helgu frænku og við sátum í sólinni svo fórum við inn að borða og hún kveikir á snjónvarpinu svo ég fer að horfa á Karlos minn.
 Þátturinn var byrjaður svo ég sá ekkert hvað hann var að elda, nema við sjáum að hann veiðir grænmeti úr pottinum og að í honum eru kjúklingabaunir, svo þetta er súpa hugsa ég, hann tekur grænmetið sem var laukur, gulrót og púrra, mixar það saman og setur svo aftur í súpuna, en við hliðina á eldavélinni er einhver matur sem ég sá ekki strax hvað var. Ég varð voða spennt, sýndist þetta vera fiskur en þó ekki. Hann tekur síðan utan af eggjum, svo tekur hann þetta stykki og fer að skera það og ég veina upp, "Helga hann er að elda svínseyru ojjjjjjjjjjjjjjjjj", það fór hrollur niður eftir bakinu á mér og mig klíjaði við þessu. Ég sé hann yfirleitt aldrei smakka á matnum en þarna skar hann bút af eyranu og stakk upp í sig og smjattaði á þessu, úff og ojjjjjj. Honum þótti þetta alveg örugglega mjög gott. Svo setti hann þau út í súpuna sem var örugglega góð en ekki með þessu út í. Ég hef oft séð svínseyru hér í búðum en aldrei dottið í hug hvernig þetta væri notað eða eldað, þetta fór alveg með mig , ég fæ enn hroll. Nú skil ég útlendinga sem koma heim og sjá okkur skófla upp í okkur sviðum.
Við vorum boðin í afmæli í gær en þá varð Sólmar Aron sonur Helgu Þurý og Jesú, 1 árs. Þar voru á borðum þessar líka fínu hnallþórur að hætti Helgu en hún er svakadugleg að baka góðar íslenskar tertur sem smakkast svakalega vel. Súkkulaðikaka með frosting og marenskaka með rjóma og aðalbláberjum nammmmm. Í síðustu viku varð Ivan 3 ára og þá vorum við líka mætt. Takk fyrir okkur kæra fjölskylda alltaf gaman að hitta ykkur.
Framundan eru bara rólegheit og að fara út í góða veðrið en í dag var 18. gr. og sól.
Okkur langar bara svolítið í þorramat en það gengur yfir eins og annað.
Allir dagar eru góðir dagar og njótum þeirra vel.
Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 15. janúar 2010

Hálf tómlegt

Á markaðnum í Callosa að kaupa í matinn
Á markaðnum í Callosa að kaupa í matinn
« 1 af 10 »
Hér er hálf tómlegt í kotinu við sitjum hér tvö og glápum á sjónvarpið eins og venjulega á svona kvöldi, nýbúinn kúrekamynd og Texas Renger að byrja svo það er varla hægt að tala við kallinn á meðan. En það er nú í lagi.
Helga og Lilli fóru í gærkvöldi áleiðis til Íslands með viðkomu á Gatwik flugvelli. Það var ansi kalt hér síðustu vikuna sem þau voru hitinn fór alveg niður í 1 gr. sem er mjög óvanalegt hér en það snjóaði nú ekki á okkur, það var líka ansi hvasst suma dagana og við vorum að mestu hér inni eða fórum í bíltúr og kíktum í búðir, en útsölurnar voru að byrja.
Við Helga stunduðum tilraunaeldhús hér í kuldanum og var það ansi gaman og fróðlegt. Helga keypti sér bók með spænskum uppskriftum og við fórum að prufa. Fyrst gerðum við súpu með grænmeti og kjúklingabaunum var hún mjög góð en karlpeningurinn var ekki mjög hrifinn þvi það var ekkert kjöt, svo við settum bara einn pylsupakka í fyrir þá.
Svo gerðum við kjúklingarétt með möndlum og granateplasósu hann var alveg svakalega góður, sá síðasti var nú ekki alveg fyrir minn smekk þegar hann var borinn fram, en það var súpa með rækjum, reyktum laxi og spínati, leit vel út í bókinni en spínatið skemmdi þetta allt, súpan varð eiturgræn og bragðið einum of mikið af spínatinu en fiskurinn var fínn, mikið af rækjum og við vorum nú bara með nýjan lax sem breytir líklega bragðinu. Þetta var voða gaman að prófa í kuldanum, en hitinn var góður í edhúsinu á meðan við vorum að elda og þegar búið var að kveikja upp í arninum.
Á miðvikudaginn var okkur boðið í 3 ára afmæli hjá Ivan hennar Helgu Þurý og var voða gaman að hitta þau aftur á nýju ári en þau voru ekki heima um jólin.
Við vorum svo eina nótt í Entre Golf, og fórum svo heim til að Helga og Lilli gætu pakkað.
Ég ætla nú ekki að fara tala um veðrið hér en bara láta vita að um leið og þau fóru þá fór hitinn uppávið því í dag var 18 gr. og sól og ég náði að þurrka tau úr þrem þvottavélum á nokkrum tímum alveg stórfínt.
Bara rólegt framundan og kannski set ég eitthvað af þessum uppskriftum á síðuna þegar ég verð í stuði til að skrifa.
Eigið góða og ljúfa daga með hækkandi sól, nú er ´solin aftur farin að skína í patíóið hér fyrir framan eldhúsdyrnar mmmmm.
Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 7. janúar 2010

7. janúar 2010

Dúfurnar á þakinu
Dúfurnar á þakinu
« 1 af 10 »
Síðasta sunnudag þegar ég var nýbúinn að skrifa á síðuna, var svona að ganga frá og Dúddi að lesa yfir sá ég marga kalla koma hlaupandi og beint upp stigann og á þakið hjá Fermin, þetta var nú eitthvað dularfullt og forvitnin í mér er náttúrulega alltaf til staðar svo ég fór að gá hvað væri á seiði. Þegar ég kom fram í bakgarð eða húsbóndaherbergið eins og sumir kalla hann. Heyrði ég eins og vatni væri sprautað á þakið og hljóp upp stigann sá ég þá ekki stærðarinnar dúfuhóp á þakinu. Þær eru allar málaðar í mörgum litum svo þetta var mjög fallegt að sjá. Það hefur líklega verið keppni um hvort þær skila sér heim eftir að hafa verið farið með þær í burtu. Þarna voru allt að tíu kallar og einn með blað og býant til að skrifa eitthvað niður. Það var reglulega gaman að sjá allar þessar dúfur.
Í fyrradag var okkur boðið í mat til Auðuns og Fríðar, og vorum við þar í góðu yfirlæti fram eftir kvöldi. Alltaf svo gaman að koma til þeirra, takk kærlega fyrir okkur kæru vinir.
Lilli og Dúddi voru voða duglegir hér í húsbóndaherberginu, þeir múruðu heilan vegg strákarnir. Allir fá eitthvað að gera hér.
Það var síðasti dagur jóla hér í gær og allir í fríi. Hér er þetta rauður dagur á dagatalinu og kvöldið áður koma kóngarnir þrír með gjafir til barnanna og skrúðgöngur eru í öllum bæjum bæði strórum sem smáum.
Við ákváðum að fara í bíltúr upp í hæðirnar hér fyrir 0fan okkur og fórum við til Abanilla fyrst og fórum í hring þar og stoppuðum í litlu þorpi sem heitir Los Banjo og þar fundum fínan stað sem heitir Umbria, þar fórum við inn og keytpum okkur Tapas fyrir fjóra og Dúddi stóð sig eins og hetja við að panta þetta á spænsku. Þetta var alveg svakalega gott og gaman að sitja þarna á góðum degi eins og spánverji,með spánverja allt í kringum okkur og borða góðan mat nammm. Gott rauðvín með og bjór fyrir Lilla já stóra könnu. Þetta var ekkert ódýrt en heldur ekki dýrt og gaman var það.
Já nú eru jólin búin bæði hér og heima á Íslandi.Hér eru útsölur komnar á fullt og fórum við í moll í Elshe að versla smávegis í dag. Mikil lækkun á öllu allt upp í 80% afsláttur og margt fólk að kaupa og skoða.
Hér er riging núna og bara ansi kallt, kuldaboli ætlar ekkert að fara frá Spáni á næstunni, bara gott að ekki snjóar hér og hitinn kringum 10 gr.
Eigið góða daga og takk fyrir allar heimsóknirnar á síðasta ári.
Þórdís Guðmundsdóttir | sunnudagurinn 3. janúar 2010

Gamlárskvöld og fl.

Við Helga að máta hatta á markaðnum
Við Helga að máta hatta á markaðnum
« 1 af 10 »

Gleðilegt ár

Feliz nuevo anos




Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla allir þeir sem hafa kíkt á þessa síðu mína.
Hér hefur verið nóg að gera við að gera ekki neitt, nema að hafa það gott.
Við fórum 28. des í partý til Hörpu og Vishnu, þar var vel boðið í mat og drykk eins og vanalega og var þetta mjög skemmtilegt kvöld með góðum vinum sem hafa haldið jólin saman hér á Spáni í ár. Takk fyrir Harpa og Vishnu fyrir veitingarnar og þið öll takk fyrir skemmtileg kvöld saman.
Svo fórum við í helgarferð  niður í bæ eins og við segjum til að halda áramótin og vorum í húsinu hennar Boggu.
Við tókum heilan dag í að rölta um Torrevieja og annan dag í góðan göngutúr um svæðið. Það var nú alltaf verið að hugsa um hvað við ættum að gera á gamlárskvöld þetta var mikill höfuðverkur hjá okkur, svo margt í boði. Á endanum ákváðum við að fara á kínverskan veitingastað og var það alveg bráðskemmtilegt. Þetta var svona Wok staður þar sem maður eldaði sjálfur eða valdi það sem maður vildi borða og fórum svo með það til kokksins sem var mjög flínkur með pönnuna og spaðann.
Ekki vildi nú betur til þegar ég tók bakföll af hlátri út af einhverju skemmtilegu að bakið brotnaði af stólum sem ég sat á og það fóru allir að hlæja að mér, nokkrir tóku andköf en ég hló eins og bjáni. Ég fékk líka voða fínan stól eftir þetta, engan plastræfil.
Við fengum þessa fínu hatta og drasl til að skreyta sig með, svo fengum við Helga sjal, voða fínt og svo kom þetta svaka fína gull kampavín, sem heitir að vísu Cava hér á Spáni þetta var mjög skemmtilegt kvöld sem endaði eins og annað með mikilli flugeldasýningu klukkan tólf og þá skutu kínverjar, kínverjum.
Við fórum svo í göngutúr á ströndinni í Cabo Roig á nýársdag.
 Á laugardag fórum við svo á markað og komum hingað heim seinnipartinn eftir góða og skemmtilega ferð og mikla tilbreytingu.
En það er best í sveitinni við erum öll sammála um það. Fórum á enn einn markaðinn í morgun og svo á stöndina og nú sit ég hér og reyni að skrifa eitthvað. Lilli fór að slá litlar hvítar kúlur.
Eigið góða og skemmtilega daga.