Svona eftir páska
Á páskadag vöknuðum við snemma og fórum til Almoradí til að sjá skrúðgönuna þar. Hún er mjög falleg og gaman að horfa á, þetta var aðeins öðruvísi en í fyrra. Maður stendur líka alveg bit yfir allri þessari vinnu sem liggur að baki þessu öllu og trúin er sterk hjá þessu fólki. Við sáum konur félla tár þegar líkneskið af Maríu mey fór hjá ótrúlegt. Það er líka lúðrasveit sem spilar á eftir hverju líkneski ,einnig ótal trommuslagarar og allt táknar þetta eitthvað. Þetta er því voða hátíðlegt.
Seinna um daginn vorum við svo sótt af Hörpu og Vishnu til að fara í 40 ára afmæli hjá Arnari frænda mínum syni Helgu og Gumma, sem haldið var heima hjá þeim. Þetta var heljarinnar veisla alveg voða gaman að vera með þessu fólki, spjalla og hafa gaman af. Það var boðið upp á kampavín og tapasrétti sem voru alveg ofsalega góðir og ungu konurnar höfðu gert sjálfar að mestu leyti, Helga tengdadóttir og Stefanía vinkona. Mikið af Helgum í þessari fjölskyldu. Dúddi spilaði afmælissönginn á munnhörpuna og fleiri lög við góðar undirtektir.
Þau höfðu líka alveg svakalega góða barþjóna sem voru Þorri og Óðinn Arnarsynir. Þarna vorum við í góðu yfirlæti framá kvöld.
Takk fyrir keyrsluna Harpa. Arnar og fjölskylda takk fyrir boðið þetta var svo gaman, svo ég tali nú ekki um að kynnast mörgum af nýju frændfólki.
Einn daginn ákváðum við að fara í smá hjóltúr ekkert langt bara að hreyfa okkur, áður en við vissum af vorum við komin í bæ sem við vissum bara ekkert hvað heitir eða hvernig við ættum að komast út úr honum þannig að best væri að fara aftur heim.
Mér finnst vont að hjóla á miklum umferðargötum, svo við löbbuðum í gegnum bæinn með hjólin þá var þetta orðin labbihjólatúr eins og þeir verða stundum. En allt í einu rákum við augun í Optiker San Bartólome, þá vissum við í hvaða bæ við vorum, það er bær sem er hér vestan til við okkur og við höfðum bara keyrt í gegnum einu sinni. Svo rákum við augun í sjúkrahúsið og þá vissum við hvaða leið ætti að fara heim. Úr þessu varð 2 tíma hreyfing sem átti bara að vera smá, en svona er þetta stundum hér. Það eru svo margar leiðir til að hjóla og ganga ef maður bregður út af vananum og prófar eitthvað nýtt má bóka að eitthvað svona gerist. Við förum nú líklega að verða búin að finna allar svona leiðir í næsta nágrenni.
Á þriðjudaginn sat ég hér úti í mesta sakleysi og var að lesa, og sá útundan mér einhverja litla hreyfingu hélt bara að þetta væri fluga, en nei í ræsinu hérna í pátíóinu var lítill snákur að leika sér að fara upp á milli rifanna, ég fraus í stólnum, Dúddi hafði farið á hjólinu með flöskur og nú voru góð ráð dýr, sem betur fer fór María Fermínsdóttir framhjá og ég sýndi henni þetta, hún hljóp og sótt pabba sinn , hann kom með prik , tók af honum hausinn og henti honum út í garð. Ég spurði hvort þetta væri hættulegt, nei,nei sagði hann og hristi hausinn.
Við höfum nú ekki orðið vör við neitt svona hér fyrr, einstaka skrítna pöddu en það er líka allt.
Við ætlum til La Marina í dag að hitta Íslendinga.
Eigið góða daga á góða Íslandi.