Þórdís Guðmundsdóttir | laugardagurinn 14. febrúar 2009

Kerruævintýri

Þarna byrjaði það
Þarna byrjaði það
« 1 af 8 »
Það er óhætt að segja að síðustu dagar hafi verið erilssamir ef vægt er til orða tekið. Við fengum hringingu á mánudaginn og okkur sagt það sé verið að losa hús hér sem bankinn sé að taka og þar sé ýmislegt sem við gætum kannski notað hjá okkur.
Jú við förum á þriðjudag til að skoða þetta og þá eru þarna bara svo margir munir sem við höfum verið að treyna að kaupa vegna kreppunnar og krónunnar og við ákváðum bara að taka næstum allt. Ætla nú ekkert að fara tíunda það allt hér en þetta er búið að bjarga krónunni okkar í bili og gera fínt hérna hjá okkur.
Það var gott að geta hent út 30 ár gömlum sófa og fl.
En sagan er nú bara hálfnuð, við fengum náttúrulega lánaða kerruna hans Auðuns mikinn kostagrip og búinn að hanga aftaní mörgum bílum hér á Spáni þar á meðal okkar eina helgi áður.
Við förum á miðvikudagsmorgun, sækjum kerruna og förum svo í skólann voða spennt að fara að flytja dótið, geymum bílinn og kerruna fyrir utan veitingahúsið þar sem skólinn er.
 Við förum svo sem leið liggur frá skólanum og erum bara rétt komin að vatnsgarðinum þegar sæt löggukona kemur og biður okkur að fara á hliðarveg þar hjá. jú´ju við gerum það og hugsum nú taka þeir bílinn. Nei við erum ólögleg, það er ekki sama númer á bílnum og kerrunni og það má ekki. Nú voru góð ráð dýr, það var hringt í ofboði í Auðunn og hann beðinn að koma með bílinn og skírteini yfir kerruskrattann. Eða fæðingarvottorð eins og Auðunn kallar það.
 Ég hringdi líka í Gumma og sagði honum að við kæmum nú ekki strax því löggan væri búin að stoppa okkur. Hann var nefnilega í flutningaliðinu. Hann var bara svo sætur að hann, kom sem betur  fer því hann er bæði góður í spænsku og ensku. Allavega hefur hann verið okkar bjargvættur þessa daga. Þarna vorum við í 1 tíma að hanga meðan löggurnar voru að hringja útum hvippinn og hvappinn út af einni kerru. Svo kom dráttarbíll til að fjarlæga gripinn, heyrðu þá hafði hann enga kúlu og það þurfti að koma annar með kúlu, þeir voru ábyggilega þarna 10 löggur, þeir hefðu ábyggilega getað stöðvað einn tvö þjófa á meðan þeir voru að dudda þetta.  Þeir fóru með kerruna í geymslu.
Auðunn og Fríður komu alla leið frá La Marina með pappíra og svo áttum við að fara á lögreglustöðina sem er betur fer stutt hjá. Þar fengum við sektarmiða sem við þurftum að fara á pósthús til að borga!!! Siesta kl. 1/2 þrjú á Spáni öll pósthús lokuð, svo vildu þeir líka fá eigandann af bílnum ásamt öllum skírteinum plöggum og öðru sem fylgir bæði kerru og bíl  og við vorum búinn að senda hann heim.
Svo það kom panikk á okkur og við eltum þau til La Marina við þá komin á Bensinn hans og hann á okkar bíl. Skiptum aftur um bíla og ákveðið var að við myndum hittast á löggustöðinni daginn eftir. Tókum pappírana fórum á pósthús sem við fundum opið og borguðum sektina. Fórum svo og fylltum bílinn okkar og Gumma af dóti og fórum hingað heim. Þá átti Gummi eftir að keyra alla leið til baka, vorum öll orðin þreytt eftir svona löggudag.
Fimmtudagur: 6 1/2 tími í löggustúss!!!!!!!! Dýrt af hafa mann á kaupi 20 evrur. Jók
Mættum á lögreglustöðina kl. 11 um morguninn með alla pappíra, og Auðunn, þá kom nú ýmislegt í ljós. Það þurfti að fara með bílinn og kerruna í skoðun eða okkur skildist það væri nú allt sem snerist um kerruna, nei það kom svo i ljós að bílinn þeirra var óskoðaður sem þeim var sagt að hefði verið skoðaður í desember. Auðunn búinn að skrifa nafnið sitt tvisvar á blaðið svo við héldum nú að hann væri laus og mætti bara fara á okkar bíl.
 Við vorum komin með þeirra bíl aftur og ætlum að fara og sækja kerruna til að fara með allt draslið í skoðun og sendum þau heim, nei,nei eigandinn verður að koma og skrifa undir, þið fáið ekki kerruna fyrr, "við erum með bílinn! en nei,nei hann verður að koma!,já þau þurfa líka að koma með spænsku kennitöluna, nú það er byrjað að hringja í þau og tók það þau smá tíma að svara, og þeim sagt að það þurfi líka að koma með spænku kennitöluna, svo þau fara alla leið heim og til baka aftur til að Auðunn gæti skrifað nafið sitt og kennitölu.
 Ókey, út kemur þessi fræga kerra og það er farið á skoðunarstöðina og ætlum að fara og láta skoða hana, við slepptum Auðunni  ekkert heim í þetta sinn sem var eins gott því bíllinn þurfi í skoðun, og létum við því skoða hann en  ekki var hægt að skoða fjandans kerruna því skoðunarskírteinið er týnt. Og okkur sagt að við gætum líklega fengið nýtt skírteini fyrir hana þar sem hún var keypt og það til er í Elche og komin Síesta ekki opnað aftur fyrr en fimm.
 Við fórum þá og fengum okkur að borða enda öll orðin svöng og þyrst. Fórum til La Marina því það var í leiðinni til Elche og var brunað til Elche, þá var þetta fyrirtæki farið á hausinn og aðrir teknir við og allir pappírar um kerruna glataðir þá voru nú bara keypt á hana ný ljós fyrst við vorum komin í umboðið. Við aftur til baka, Auðunn og Fríður skilin eftir heima þau orðin þreytt eins og við þetta var búin að ver 6 tíma törn.
 Og við aftur á skoðunarstöðina og þá var okkur bara sagt að það mætti þá bara henda kerrunni því það þarf að vera til skráningarskírteini fyrir henni.
Við fórum nú heim til Helgu og hún gaf okkur góðan fiskrétt að borða og ákveðið var að fara bara á föstudagsmorgun til að sækja pappírana sem löggan hélt eftir. Þeir fóru svo í flutninga Dúddi og Gummi, en ég fékk að vera eftir heima hjá Helgu enda búinn að fá nóg af þessu lögguævintýri.
Þeir fóru svo eina ferð hingað og voru svo reyndar að tala um það að ef löggann stoppaði þá fyrir utan húsið komið myrkur kl. 12 á miðnætti við að hlaða kerru fulla af dóti, þeir áttu þeir hvorki bíllinn, kerruna eða húsið sem þeir voru að tæma, svo eins líklegt er að þeir sætu í steininum núna ef hún hefi mætt á staðinn.
En við tókum nú með okkur góðan túlk á föstudeginum hana Helgu frænku mína og þetta gekk allt upp fengum pappírana og við og löggann brostum öll út að eyrum. En kerrufjandinn er enn óskoðaður og óskráð.
Það eru nefnilega lög hér að bara sá bíll sem er með sömu númer og kerran meiga fara saman út að  keyra, þetta vissum við bara ekkert um, við erum búinn að fara margar ferðir með þessa kerru en þarna vorum við tekinn. 120 evrur í sekt, en við græddum meira á þessu svo við erum bara ánægð.
 Auðunn og Fríður, takk fyrir góða daga og fyrir kerrulánið eða ólánið. Gummi og Helga takk fyrir alla hjálpina.
Sólin skín.
Eigið góða kerrudaga
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 10. febrúar 2009

Hvítlaukur Ajo

Hjónin með hvítlaukinn sinn
Hjónin með hvítlaukinn sinn
« 1 af 6 »
Ég vissi ekki að maður gæti orðið háður hvítlauk, en stundum verð ég bara að elda eitthvað svo ég geti sett hann í matinn. Eða steiki grænmeti og set alveg hellig með. Það er líka alveg staðreynd að við höfum ekki fengið kvef síðan við fórum að vera hér. Meira segja Dúddi sem alltaf lagðist í einhverja pest heima, hefur sloppið í tvö ár. Það er nú búið að vera kalt í vetur en ekkert kvef, eða pest hefur verið að angra okkur hér.
Við fórum hjólandi á markaðinn í síðustu vikutil Rafal  og á leiðinni sem við förum alltaf sátu hjón úti fyrir framan bílskúrinn sinn og voru að flokka hvítlauk, ekki þennan hefðbundna sem við þekkjum, nei þessi er líklari vorlauk og hélt ég alltaf fyrst þegar Fermín bóndi gaf mér svona að þetta væri vorlaukur, svo ég setti fullt af venjulegum hvítlauk og líka þessum, þangað til ég fattaði allt í einu hvað það var mikil hvítlaukslykt bakvið þar sem ég geymi þetta svo ég beit bara í og nammmm. Þessi er eitthvað svona mildari gefur einhvernveginn betra hvítlauksbragð enda er hann miklu dýrari en hinn, Fermín bóndi ræktar þetta í garðinum hjá sér svo við eigum alltaf nóg.
Ætli það hafi ekki verið um 1975 eða þar um bil sem ég fer að verða viltlaus í hvítlauk, lærði að borða þetta í Danmörku. Þá ristaði maður sér brauð í tíma og ótíma og tók svo rif og nuddaði brauðið með, svakalega gott, svo var það orðið svoleiðis að það var nuddað báðu megin. Það var líka oft sagt við mig að það væri vond likt út úr mér ég fattaði ekkert strax að það væri hvítlaukur fyrr en einhver sagði að ég lyktaði eins og Úlfur læknir, (fyrirgefið Úlfsbörn) þá fattaði ég hvað þetta var. En það var og er líka þannig að ef ég finn þessa lykt út úr einhverjum þá hugsa ég alltaf "ohhh hvað var þessi að borða gott". En hér finnur maður aldrei hvítlauks lykt út úr neinum því það eru allir að borð hann hér.

Þetta fann ég í einhverju blaði sem ég tók með mér að heiman um ýmsar jurtir þetta er um hvítlauk:
Hvitlaukur, Garlic, Allium sativum:
Rannsóknir benda til að regluleg neysla hvítlauks fyrirbyggi hjartasjúkdóma.
Hann er notaður til að fyrirbyggja æðakölkun og lækka kólestról í blóði.
Rannsóknir benda jafnframt til að regluleg notkun hvítlauks fyrirbyggi kvef og flensu.
Jafnframt eykur hann viðnámsþrótt gegn sjúkdómum.
Kærkomin fæðubót, ekki síst í skammdeginu þegar vetrarveðrin gera atlögu að heilsu fólks.

Svo fann ég þetta í ensku blaði, kannski ekki góð þýðing en læt þetta flakka, góð æfing í enskunáminu, reyni næst við spænskublöðin, þetta er úr grein um megrun og að líta vel út á efri árum hmmmm.
Þar segir:
Hvítlauksensímið gerir slæma fitu að lægri mörkum svo hún verði að fínni detoxfyllingu.
Brennisteinsefnasamband alllicin gefur hvítlauknum þessa römmu lykt, en að er í henni sem gæði hvítlauksins liggja.
Veit ekki hvort þið skiljið nokkuð í þessu, en nóg um hvítlauk.

Annars er bara allt fínt hér aðeins að hlýna aftur, hitinn komin yfir 15 gr. á daginn og ekkert þarf að vera að hita upp inni á daginn. Við erum búin að vera ansi upptekinn undanfarið ótrúlegt hvað tíminn flýgur.
Dúddi fer oft með Fermín yfir í garð til að hjálpa honum að saga í eldinn og fær grænmeti fyrir, þetta eru svona vöruskipti eða þannig. Þetta er fín æfing til að læra spænsku nú ætla ég að fara að drífa mig þegar hlýnar aðeins og fólk fer að vera meira á ferðinni hér í götunni.
Við erum voða duglega að læra sitjum á hverjum degi eftir morgunmat og lesum og skrifum, og reyndar öll kvöld yfir sjónvarpinu voðalega ánægð þegar við skiljum eitt og eitt orð þegar fréttaþulirnir eru að segja fréttir. Þetta er eins og fallbyssuskothríð þegar þeir tala.
Kiddý frænka mín til hamingju afmælið.
Eigið góða hvítlauksdaga.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 2. febrúar 2009

Eitt og annað

Í hjól og göngutúr í Callosa
Í hjól og göngutúr í Callosa
« 1 af 7 »
Í síðustu viku var nóg að gera hér á bænum eins og venjulega. Alltaf að læra og læra þetta gengur svo hægt eins og ein setningin sem hún lét okkur þýða á spænsku segir: Ég þarf að hugsa mikið, til að læra lítið, sem er Nesesito pensar mucho para aprender un poco.
Á föstudaginn var okkur boðið í hangikjötsveislu hjá Helgu og Gumma, ásamt Hörpu, Vigfúsi, og einum spænskum hjónum hún heitir Felí en ég náði ekki nafninu hans. Þetta var alveg svakalega skemmmtilegt veisla. Svona hálfgert jólaboð. Helga gerði sína aspargussúpu sem hún hefur um jólin svo hangikjöt, og svo kom ég með ananasfrómasinn minn. Svo vorum við auðvitað að reyna að spjalla saman á spænsku Helga en nú mjög góð og sum hinna líka en ég notaði nú mest eyrun við að hlusta og reyna að skilja , það gekk bara svona!!!! Svo  spilaði Dúddi á munhörpuna nokkur lög svo það var hægt að dansa við Felí henni fannst það voða gaman.
Takk fyrir boðið Helga og Gummi.
Daginn eftir vorum við ótrúlega hress, við gistum hjá þeim hjónum, og fórum svo í að flytja húsgögn milli húsa og fórum 3 ferðir á milli La Marina og Torrevieja og svo heim með fullan bíl af dóti sem við fengum gefins, rosalega fínt.

Það hefur lítill tími gefist í það að fara í almennilega göngutúra eða hjóltúra bara svona rétt skroppið í 1 tíma eða svo í einu. Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn hér flýgur hratt og maður hefur alltaf nóg að gera og dunda sér við. Ekki er nú hægt að segja að maður hangi í sólbaði því það er alltaf svo kalt vindur eða rigning, eins og í dag, við erum búin að kveikja upp 10 stig úti og rigning. Ekki svona eins og maður hugsaði sér Spán, enda er veðrið hér búið að vera með undarlegasta móti. Að maður þyrfti að kveikja á miðstöðinni í bílnum nema til að kæla sig datt mér aldrei í hug. Í fyrra var miklu betra veður og þá sátum við á hverjum degi úti í sólinni og fengum okkur kaffi og lásum blöðin en núna varla nema einn dag.
Það er sko látið með konuna núna það er búið að kaupa fyrir hana STÓL, þó krónan sé veik þá er mitt bak verra og það var keyptur stóll áðan, ekki dýrasta tegund en fínn fyrir mig. Maður sparar bara eitthvað annað.

Atli Geir, Edda og börn til hamingju með nýju íbúðina ykkar í Kópavogi flottar myndir.
Harry til hamingju með afmælisdaginn 28. janúar.
Eigið góða daga öllsömul, með hækkandi sól.
Þórdís Guðmundsdóttir | sunnudagurinn 25. janúar 2009

Veður (El tiempo)

Erfitt að taka mynd af vindi
Erfitt að taka mynd af vindi
« 1 af 10 »
Hér gengur á með skrítnu veðri segir bóndinn Fermin, honum finnst þetta eitthvað einkennlegt veðurfar.
Á  laugardag var hér svakalegt rok víst leifar af fellibyl eða eitthvað svoleiðis. Þegar við vöknuðum hvein og söng í öllu og þegar við sátum í mestu rólegtheitum við að borða morgunmatinn og lesa eldgamla mogga þá flaug hér inn í patíóið hjá okkur, fúin og lúin spónaplata sem kom frá nágrannanum, okkur brá nú svolítið við. Svo er fína flækjutréð næstum ónýtt út af rokinu. Það er nú það eina sem skemmdist hjá okkur. Ja, fyrir utan að ein þakplatan fór eitthvað að losna, og var það lagað snarlega að spænskum hætti, sett grjót á. Eitt tré hjá Fermin bónda fór alveg í sundur niður við rót.
Við héldum okkur inni við framan af degi því það var varla stætt úti jafnvel ekki fyrir vana Íslendinga í roki. Við fórum svo í göngutúr seinna um daginn þegar mestu lætin voru gengin yfir og þá sáum við stór tré sem höfðu rifnað upp með rótum og einn stærðar kaktus. Enda voru lætin mikil. Fullt af rusli hér í patíóinu sem hafði fokið af trjánum og annað rusl, sem er nóg af hér. Það hefur verið óvenju kalt hér í vetur að sögn þeirra sem til þekkja.
Sunnudagur kom með fínu veðri sól og logni en bara 15 gr. yfir daginn, við fórum á markað og svo vorum við að keyra hér um sveitir og fórum til Rojales og þar var einhver hátíð verið að heiðra fólk og svoleiðis allaveg voru þeir sem voru í búningum allir með einhverjar stittur. Ferðinni var svo haldið áfram til Hörpu, að sækja meðul sem hún keypti fyrir mig heima. Og þá kom rok og svo hellirigning í smá tíma svo var blessuð sólin komin aftur.
En í dag mánudag var ég heima meðan Dúddi fór í skólann hlv. migreni, ég var að reyna að horfa á fréttirnar, og enn er veður vont á mörgum stöðum Spánar, miklar skemmdir af rokinu, og svo snjóar ennþá. En nóg um veður..
Dúddi fékk svaka krassandi tölfur í apótekinu svo mér tókst að klára þetta blogg.
Annars fer nú mesti tíminn hjá okkur núna í að vera í skólanum tvisvar í viku, það tekur nefnilega alveg hálfan daginn. Svo að læra þegar heim er komið því við þurfum að hafa svolítið fyrir þessu að reyna að muna öll þessi skrítnu orð. Svo hvort maður á að þýða þau á íslensku eða ensku og það er stundum bara betra að muna þau á ensku og vera ekkert að flækja íslenskunni í þetta.
Eigið góða daga í öllu veseninu heima.
Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 19. janúar 2009

Í skólanum í skólanum,

Flott grasker??
Flott grasker??
« 1 af 6 »
Í skólanum, í skólanum
er skemmtilegt að vera
við lærum þar að lita strax
og leirinn hnoða eins og vax.

Við erum nú kannski komin aðeins lengra en að læra að leira. En mikið skrambi er þetta nú efitt að muna öll þessi nýju orð.
Það eru nú samt alveg ótrúlegt hvað það síast inn svona orð og orð. Annars er þetta svaka munur að fá svona fría enskukennslu í leiðinni en ég er nú ekkert svakalega sleip í henni svo tíminn fer ansi mikið í að skilja hvað konan segir.
Það er alltaf dregið út nafn einhvers í skólanum í hverjum tíma og maður getur unnið máltíð fyrir einn og hinn aðilinn borgar bara 9.50 evrur. Ég vann svona miða í síðustu viku og ætlum við að fara og borða þegar við höfum tíma til þess. En þetta gildir frá mánudegi til föstudags og er Menu del día, matseðill dagsins. Við erum nú aðeins byrjuð að æfa okkur hér á nágrönnunum, þær stóðu  þrjár yfir Dúdda þegar hann var að laga beðið okkar hérna úti og svo komu þær og færðu honum blóm í beðið, þeim hefur líklega fundist það tómlegt. Mér stóð nú ekkert á sama þegar allar þessar senjórítur voru yfir honum, ég þarf líkalega að fara að passa hann betur hehe.
Í síðustu viku hjóluðum við meðal annars til Rafal og vorum búinn að taka stóran hring, þegar við vorum að fara heim í gegnum Rafal þá sáum við að það var búið að loka götunni og fullt var af fólki allir með börn á gangi, svo við vorum forvitinn um hvað væri í gangi. Þá voru bara litlu börnin frá 4 til 8 ára að fara í skólann, en hér fylgja foreldrarnir börnunum í skólann og bíða þangað til þeim er hleypt inn. Götunni er lokað í 1/2 tíma á meðan verið er að fara með börnin og svo er opnað og lokað í smátíma þegar þau koma út aftur. En hér byrja börnin mjög snemma í skóla.
Grasker, það er nú eitthvað sem ég hef aldrei matreitt og í eina skiptið sem ég smakkaði graskerssúpu þá vorum við í Sidney í Ástralíu með Erni og Guðnýju, þá fannst mér hún svaka vond.
Nú er ég með tvö stór hérna frammi sem Fermín færði okkur og hann sagði eins og alltaf sopa sopa, þegar hann færir okkur grænmeti. Helga Þurý fær annað því henni finnst það gott og Ívan líka. Ég fór nú á netið til að leita að súpu og verður hún líklega gerð þegar ég hef fengið nógu mikinn kjark til að borða þetta.
Svo fórum við í skó leiðangur á útsölunum og ég gerði þessi líka fínu kaup á tvennum skóm og fékk fría tösku með.

Hace buen día.