Þórdís Guðmundsdóttir | fimmtudagurinn 19. mars 2009

El día de padre!

Góður hópur á ferð í San Pedro á leið á árshátíð
Góður hópur á ferð í San Pedro á leið á árshátíð
« 1 af 9 »
El día de padre!
19. mars er feðradagur á Spáni, það er allt lokað og þetta er rauður dagur á dagatalinu. Við fórum i morgun til Rafal, ætluðum að kíkja á markaðinn og finna lækninn (það er ekkert að) þá var bara allt lokað, ekki einu sinni markaður. Fólkið klætt í sitt fínasta púss og gömlu kallarnir með bros á vör, sólin skein og allir í góðu skapi.
Einnig fórum við í smá bíltúr og skoðuðum íþróttasvæðið í Almoradí. þar er stór æfingasalur með alla handa þrekhjólum og dóti. Þar eru einnig tvær eða þrjár sundlaugar, en okkur sýndist þetta nú vera lokað núna en er ábyggilega voða fínt á sumrin. Þetta er ekki langt héðan svona 5 mínutúr í bíl.
 Það hefur verið nóg að gera hjá nágrönnunum búin að vera veisla hjá þeim í allan dag og stórfjölskyldan saman komin.
Við fórum  í góðan hjóltúr eftir sólbað í klukkutíma og dauðöfunduðum þau af öllum fína matnum sem þau voru að borða, því lyktin var góð. Nú kom Fermin með niðursoðna ætiþirstla í dag, sem betur fer því ég á nóg af nýjum ennþá.

Við fórum á árshátíð á síðasta laugardag með íslendingum hér á Spáni, hún var haldin á hóteli á sama stað og í fyrra í San Pedro bæ sem er hér sunnan við Torrevieja. Þarna var mikið stuð og mjög gaman. Við mættum strax eftir hádegið á laugardag, til að skrá okkur á hótelið, fórum í góðan göngutúr með  fólki sem við vorum samferða . Fengum okkur tapas að borða niður við sjó, fórum líka niður á bryggju að skoða bátana, mjög skemmtilegur staður. Það var nú eins og maður væri komin á skemmtistað vestur á firði, því þarna hitti ég frændur mína úr Hnífsdal syni Sigga Sveins, Magnús og Óla, Maggi býr hér en Óli var í heimsókn það var gaman að hitta þá, ég hef ekki séð þá í mörg, mörg ár. Þarna hitti ég líka Pál Hrólfsson og hans konu og bað hann sérstaklega að heilsa þér Magni. Einnig voru Erna Sörensen og Einar þarna. Þessir vestfirðingar eru allstaðar. 
Takk fyrir skemmtunina góðu ferðafélagar, yndisleg helgi.
Unnsteinn og Rut komu okkur á óvart voru mætt á árshátíðina án þess að við vissum að þau væru komin hingað út, en þau hafa verið heima síðan í byrjun janúar og höfum við saknað þeirra mikið. Gott að vita af þeim hér heima hjá sér á Spáni. Við heimsóttum þau svo á sunnudaginn áður en við keyrðum heim í sveitina okkar.
Svo á mánudag var haldið áfram með vegginn í stofunni sem þið fáið nú að sjá myndir af. Þetta er svo flott gert hjá mínum manni. Nú er allt orðið fínt aftur, búið að skúra skrubba og bóna eftir sig, og allt í rólegheitum.

Á morgun eða annað kvöld kemur svo Svenni bróðir minn og Ása, mikið hlakkar okkur til, en hann verður 60 ára á morgun og verður á flugi hingað til okkar á afmælisdaginn.
Góður og rólegur feðradagur.
Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 13. mars 2009

Vorið er komið

Duglega fólkið ó göngutúr
Duglega fólkið ó göngutúr
« 1 af 8 »
Held bara að vorið sé komið, þó hér sé eins og heima að vorið kemur í apríl, en hér er fallegur fuglasöngur og blómin springa út, það er allt miklu grænna og fallegra hérna núna en í fyrra því það hefur ringt svo mikið í vetur.
Sáum að það var verið að slá og setja í garða og máttum til að taka eina mynd af því. Þetta hefur nú verið að gerast  öðru hvoru í allan vetur en vorið er komið í mann.
Á sl. sunnudag var mikið um að vera hjá okkur. Helga Þury, Jesu, Ivan og Sólmar komu í heimsókn um morguninn. Við fórum í heljarinnar göngutúr rúma 2 tíma hérna um svæðið. Ivan var duglegur að labba rétt 2 ára að það var alveg ótrúlegt en kerran var til staðar fyrir hann. Svo komum við hingað heim og fengum okkur kjöt og grænmetissúpu með graskeri í sem þeim finnst svo gott. Þetta var svo gaman að fá þau í svona langa heimsókn.
Svo um kvöldið var búið að bjóða okkur í partý til að halda uppá að einn áfanginn í húsinu hjá Hörpu og Vishnu var búinn. (Ég hef kallað hann Vigfús hér en hann er aldrei kallaður það, fyrirgefðu Vishnu).
 Vorum við mætt kl. 18:00 og var spjallað og verið út í sólinni þar til hún hvarf. Einnig voru í boðinu Helga og Gummi og Vazil frá Úkraínu en hann hefur verið vinnumaður hjá þeim við að flísaleggja og ýmislegt annað, skemmtiegur strákur  sem talar góða spænsku og  var hún aðallega töluð þetta kvöld og var bara ótrúlegt hvað maður gat fylgst með þeim tala.
Svo var okkur boðið uppá indverskan mat, sem ég hef nú ekki borðað oft en þessi var alveg svakalega góður ég bara sleppti því sterka en matseðillinn var svona:
Inversk djúpsteikt snakk, kjúklingakarrý, djúpsteik blómskál, réttur úr hvítkáli og gulrótum, hrísgrjón og salat, það vantar einn réttinn en ég man ekki hvað var í honum því hann var sterkur.
 Harpa sagði að þessir réttir hefðu ekkert sérstakt nafn hjá henni.
Gaman að borða þetta, framandi fyrir mig að borða indverskt í heimahúsi. Takk kærlega Harpa og Vishnu fyrir boðið.
Annars höfum við verið á fullu hér við að gera fínt í borðstofunni og lítur þetta bara vel út hjá okkur svolítið nýtískulegt í gömlu húsi. Dúddi hefur verið að flísaleggja núna í tvo daga og er voða spenntur að sjá hvernig þetta kemur út.
Leiðinlegt með svölurnar okkar þær eru líklega flúnar úr hreiðrinu sínu því að hávaðinn frá helv. hundunum í næsta húsi er svo mikill þeir eru vælandi næstum allan daginn, neinei, þetta hefur minnkað mikið en á tímabili var ég að hugsa um að kaupa mér byssu og skjóta helvítin, eins og vinur minn á Siglufirði sagði einu sinni. En svölurnar eru líklrga farnar og við fáum þá enga unga í húsið í vor.
 En þið ættuð að heyra hljóðið í hananum núna hann er eins og gömul grammafónplata svona rispuð þið  munið, ég lá í sólbaði á þakinu í dag í 23 stiga hita og var að hlusta á hundana og hanan og gat ekki annað en brosað af sveitalífinu, enginn umferð bíla bara dýr og fuglar himinsins líka.
Svo blönduðust inní þetta raddir fólksins sem var að borða, og falleg spænsk músík, yndislegt, vildi að þið gætuð átt svona rólega og góða stund á góðum degi.
Þórdís Guðmundsdóttir | laugardagurinn 7. mars 2009

Sólin skín

Svölurnar eru aftur mættar á hreiðurssvæðið sitt.
Svölurnar eru aftur mættar á hreiðurssvæðið sitt.
« 1 af 7 »
Undanfarna viku hefur verið hér alveg bálhvasst eða rok á stundum ekki verandi úti því allt í einu gat komið grengjandi rigning og svo sól eftir smátíma. En svona hvassviðri hefur verið um allan Spán undanfarið og mikið fokið um koll og skemmst og svo hefur líka snjóað fyrir norðan og svo kemur blessuð sólin og bræðir hann og þá koma svaka flóð. Við þekkjum þetta svo sem frá Íslandi og hefur þetta minnt mann svolítið á haustveðrin heima.
En einn daginn varð svona hálf stillt veður svo við drifum okkur í hjóltúr og ákváðum að fara eitthvað sem við höfum ekki farið áður. Jú við fundum einn veg sem lá til Callosa og fórum við framhjá bóndabæ með fullt af kindum ekki í túni heldur drullupolli, aumingjarnir voru að borða kál og appelsínur sem hafði verið fleygt fyrir þær. Svo voru komin lítil lömb en ekki eins sæt og heima, þessi eru ekki með eins fallegt höfuðlag, alveg satt, svo eru þær með langan hala. En ekki voru þetta fallegar grængar grundir eins og maður á að venjast að sjá lítil lömb leika sér.
Þessi hjóltúr tók nærri tvo tíma með smá stoppi hér og þar til að tína flísabrot. og skoða eitt og annað og svo að reyna að finna réttu leiðina heim sem tókst að lokum, þetta var bara hressandi að reyna svolítið á sig og hjóla á móti vindi.
Í fyrradag fengum við svo hálfgert æði því það var svo hvasst,  við  drifum okkur í að mála og pússa og flikka aðeins uppá borðstofuna sem við höfum ekkert gert fyrr. Nú er búið að mála og snúa öllu við og ákveða hvað á að gera við ljóta vegginn það kemur bara seinna i ljós hvort það tekst hjá okkur og þá fáið þið myndir af því.
 Ég var á fullu að vaska upp og þvo ljósakrónuna þegar allt í einu var kallað mörum sinnum Halldor, halldor, þá var þar Fermín bóndi með fulla fötu af baunum og rétti Dúdda það yfir vegginn, svo nóg er til af baunum.
Við fórum til Almoradí í morgun í göngutúr um bæinn til að skoða markaðinn en aðallega til að sína okkur og sjá aðra.
Svo settumst við í sólina fyrir framan húsið, síðan fór ég að gera að baununum og sjóða ætiþirslana sem hann gaf mér um daginn, svo frysti ég þetta bara og nota í súpur og pottrétti. Nóg að gera hjá sveitakonunni. Bara dugleg í dag.
Annars gengur allt bara sinn vanagang hér, sólin er farin að skína aftur og hitinn komin í 20 stig yfir miðjan daginn, svo ekki er hægt að kvarta hér á þessum bæ.
Nú eru litlu Svölurnar aftur komnar á sitt hreiðursvæði byrjaðar að taka til  og laga hreiðrið síðan í fyrra og skíta á gólfið.
Eigið góða daga, og takk fyrir innlitið á síðuna okkar en þið megið alveg vera duglegri að segja hæ.



Þórdís Guðmundsdóttir | sunnudagurinn 1. mars 2009

Litlar fréttir, góðar fréttir

Haninn í göngutúr
Haninn í göngutúr
« 1 af 10 »
Ætla að láta detta  inn svona smáblogg, er eitthvað svo löt og nenni varla að hugsa, lífið er svo gott hér.
Um síðustu helgi voru Helga og Gummi í heimsókn hjá okkur smá útilega voða gaman hjá okkur.
Á sunnudeginum eftir morgunverð var farið í bíltúr til Callosa og gengið upp til kirkjunnar og litlu kapellunnar sem er efst í gilinu en á þessa staði förum við með næstum alla sem koma hingað til gistingar. Það er svo gaman að ganga um gamla bæinn með sínum þröngu götum, vinsamlegu fólki og menn að labba úti með hanann sinn, sem verður nú líklega páskamaturinn.
Þarna vorum við að ganga upp mesta hallann upp í gilið og þar sjáum við mann í stiga og konan heldur við, þetta er svo ansi bratt þarna. Við förum nú að dást að því sem hann er að gera, hann var að mála með pínulitlum pensli örfínar línur á myndverk yfir hliðinu hjá sér(sjá mynd). Hann kom svo niður úr stiganum og spurði okkur hvort við værum þjóðverjar neinei, íslendingar,hann verður þá voða hissa. Býður hann okkur þá að fylgja sér og fer inn í húsið , gegnum það og út í bakgarðinn, þá var hann búinn að mála samskonar listaverk þar ótrúleg vinna og eljusemi en þetta var líka fallegt allt með gulli og bláum og gulum litum. Þarna í bakgarðinum var stór sundlaug og húsið svaka flott inni.
Svo var farið að ræða við hann  hann var spánverji, og við hvað vinnur hann, þá kom babb í bátinn við skildum ekkert hvað hann sagði, þó við værum með góðan túlk. Red sagði hann, textíl og svo var hann eins og hann væri að sauma, við skildum ekkert héldum kannski að hann væri teppagerðarmaður, þá fór vinurinn inn til sín náði í svaka stóra bók og sýndi okkur hvað hann er að vinna við getið, hann er netagerðarmaður, og er að búa til veiðarfæri og tekur við úr verksmiðjunni netum og saumar, og hnýtir. Eitthvað kannaðist ég við dót þetta á myndunum alveg eins og í gamla daga fast innpakkað þegar það kom á verkstæðið.
 Ég sagði honum jú að pabbi minn hefði verið netagerðarmaður. Svo bauð hann okkur uppá bjór eða vatn en við vildum nú ekki vera að trufla þau hjónin lengur,  mikið var þetta skemmtileg uppákoma en svona geta og eru spánverjar elskulegir og vilja garnan sýna okkur hvað þeir eiga, bara að koma rétt fram og fallega við þá, það er nefnilega stutt í brosið og elskulegheitin.

Síðasti spænkutíminn var á mikvikudaginn og við fórum að borða matinn sem ég vann á fyrstu skóladögunum alveg ágætur.
Um kvöldið fórum við svo út á flugvöll að sækja Þuru og Örn og gekk það allt vel. Við fórum svo saman á hitting í La Marina á föstudag og enduðum í kaffi hjá Kristúnu og Högna. Í gær fórum við á markaðinn í Almoradí og núna eru þau á leiðinni hingað til okkar labbandi, en eitthvað villtust þau af leið þvi við sóttum þau að sjúkrahúsinu í Orihuela góðan spotta í burtu.
Fengum okkar að borða saman hérna og svo keyrðum við þau heim aftur.
Í gærkveldi horfðum við á einn úrslitaþáttinn í eurovison, ég held hún heiti Soraya eða eitthvað svoleiðis sem keppir fyrir Spán í vor.
Núna er sólskin og hellirigning, ég sit og skrifa drekk Yasmin te og borða dökkar súkkulaðirúsínur frá Góa nammmmmm, og fylgist líka með Svenna bróður sem er að taka þátt í Vasagöngunni og gengur bara vel það sem af er komið.
 Áfram Svenni!!
Góður dagur.
Var að lesa að Svenni kláraði Vasagönguna bráðum fullorðinn maðurinn. Til hamingju bróðir.
Þórdís Guðmundsdóttir | föstudagurinn 20. febrúar 2009

Smámont

Ball
Ball
« 1 af 3 »
Eftir kerruævintýri og löggulæti, var reynt að slappa af og njóta sólar, vina og gleðskapar.
Þegar við vorum búinn hjá löggunni á föstudag fórum við á hitting í Las Mismosas og keyptum okkur miða á ball á laugardeginum og líka á árshátíðina hjá Fhs sem verður í mars. Bara ákveðið að slappa af.
Okkur var boðin gisting á laugardagskvöldinu hjá Helgu og Gumma og þangað fórum við seinnipart laugardags.
Fórum svo í mat og ball á sundlaugarbarnum þetta var svo gaman að hitta og heyra svona mikið af íslensku, á hverju borði.
Þarna voru spilarar að heiman og mikið dansað.
Á sunnnudag var svo borðaður fínn morgunmatur úti við laug, bacon og egg namm allir voru svangir eftir dansinn frá kvöldinu áður og rann þetta ljúft niður. Takk fyrir skemmtunina Helga, Gummi, Harpa, og Vigfús. Frábær helgi.
Ég verð nú að monta mig svolítið, ég keyrði báðar leiðir þetta er um 1/2 tíma akstur með mörgum hringtorgum en sem betur fer var lítil umferð. Þetta var nú ekki af því Dúddi væri fullur heldur hellti ég í hann Topas áður en við fórum, því hann var að fá kvef (hafði ekki fengið hvítlauk í 3 daga). Honum fannst nú eiginlega að hann ætti að vera fullur þegar svona væri stjanað við hann, hann gat bara horft út og notið ferðarinnar í fyrsta skipti.
Ég á örugglega eftir að gera þetta aftur, ekkert mál bara passa sig í hringtorgunum, því spánverjar nota þau öðruvísi en við, kann ekki að útskýra það en þeir nota aldrei innri hringinn, sumir segja að reglur hér sé að ytri hringurinn sé í rétti, en heima er það innri hringur. Sumir segja þetta og aðrir hitt svo gaman væri að fá að vita umferðarreglur á Spáni, það kann þær kannski einhver sem vill láta mig vita.
Meira mont. Ég er búin að fara tvisvar ein út að hjóla hérna, ég hef nú ekki þorað að fara mikið ein varla út að ganga, ekki veit ég hvers vegna, því allir hér eru ósköp vingjarnlegir og heilsa manni með brosi á vör. Mér finnst þetta mikið afrek hjá mér svo nú á ég örugglega eftir að fara oftar, þegar Dúddi minn er mikið upptekin í bakgarðinum.
Við höfum verið að koma nýju húsgögnunum fyrir og læra heima, þetta gengur fínt hjá okkur eða þannig. Nú eru bara tveir tímar eftir í næstu viku, svo er bara að halda áfram að tögglast á þessu.
Við erum aðeins farin að skilja Fermín betur núna, fullt til af káli, graskerjum, hvítlauk og appelsínum.
Svo var ég voða dugleg í dag þreif, bakaði brauð og brúna með brúnu.
Eigið góða daga.