Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 25. júní 2008

Fjarbúð og fl.

Saga og lítill skógarþröstur sem var að læra að fljúgja
Saga og lítill skógarþröstur sem var að læra að fljúgja
« 1 af 10 »
Það hefur margt breyst í hinu daglega lífi eftir að við komum heim til Ísafjarðar. Eins og núna erum við Dúddi í fjarbúð, hann í vegavinnu fyrst inn í djúpi, og núna komin í Kollafjörð, þegar hann átti að fara að koma í helgarfrí. Hann kom heim í gærkvöldi og fór snemma í morgun til Kollafjarðar. En svona er lífið.
 Það er skrítið að vera svona án hans. Í átta mánuði vorum við alltaf saman allan sólarhringinn í mesta lagi 3 tímar, sem við sáum ekki hvort annað sem kom mjög sjaldan fyrir, bara einu sinni að mig minnir og núna sjáumst við á 10 daga fresti, ótrúlegt og hundleiðinlegt. Hann býr í vegavinnuskúrum og ég heima hjá Ágúst syni mínum, sem er auðvitað fínt en mann vantar heimilið sitt sem ég tel núna vera á Spáni, við erum enn að upplifa ævintýrið sem við fórum á stað í fyrir ári síðan. Enginn veit sinn næturstað gæti þetta næstum verið.
Ég hef verið í sveitinni í Skötufirði allar helgar og helgina sem Dúddi kom í frí síðast komu Helga og Lilli í heimsókn til okkar og stoppuðu lengi og var það mjög gaman að hittast almennilega eftir svona langan tíma.
Svo voru Ágúst, Hrefna og Saga Líf á síðustu helgi og var mjög gaman hjá okkur, Saga var alveg ofsalega ánægð með dvölina og að geta verið úti allan daginn og henda steinum í sjóinn og fara út á sjó á litla bátnum með pabba sínum. Ágúst notaði tímann vel til að taka myndir á svæðinu, svaka fínar myndir hjá honum eins og alltaf. Það var líka alveg svaka fínt veður sól en vinurinn svolítið kaldur.
Þessa helgi fer ég í afmælispartý hjá Magna bróðir á Seljalandi, og verður það gaman að hitta ættingja og vini, og að fá góðan grillaðan mat hjá Magna á pallinum.
Annars eru þetta bara góðir dagar sól á hverjum degi.


Þórdís Guðmundsdóttir | mánudagurinn 9. júní 2008

Lífið hér heima

Saga og Sverrir að syngja saman
Saga og Sverrir að syngja saman
« 1 af 9 »
Það hefur bara verið gott að vera hér heima, ganga í vinnuna, sækja Sögu á leikskólann og bara fara heim og prjóna. Það er svolítið gaman að vinna í barnafatabúð, þó mér þyki svakalega leiðinlegt að vinna í búð. Ég kann voða lítið á öll þessi númer á barnafötunum, hvað börnin eru gömul og hvaða númer þau nota, þá hugsa ég um mín barnabörn og reyni að muna hvaða númer þau nota þá gengur þetta nú nokkuð upp hjá mér.
Á síðastliðin föstudag var haldið hið árlega Skarðeyrarpartý starfsmanna bæjarskrifstofunnar á Ísafirði og var þetta haldið í fimmta sinn. Ég er nú fyrrverandi starfsmaður en fannst alveg voðalega gaman að þau vildu koma aftur í heimsókn í sveitina. En nú er komin hefð á þetta. Alltaf byrjað á því að fara í krikket eftir reglum Skarðseyrar og er yfirleitt mikið fjör í þessum leikjum. Þeir sem vinna þora yfirleitt ekki að koma aftur til að bjarga titlinum, eða ég fer að halda það. Í ár vann mannauðsstjórinn Gerður með miklum glæsibrag. Svo var sungið fyrir Halldór en hann hefur verið bæjarstjóri í 10 ár. Við vorum alveg einstaklega heppin með veður en það var logn og sólin skein svo erftitt var að hætta. Kæru gömlu vinnufélagar takk fyrir komuna og þið vitið að þið eruð alltaf velkomin aftur, eins þeir sem ekki voru þarna.
Nú er Dúddi komin í vinnu inní djúpi nánar tiltekið að keyra ofaní veginn í Ísafirði eða þar var hann í gær og hann gistir í Reykjanesinu og er bara ánægður með sig. Mikið er það skrítið að hafa hann ekki hérna hverja stund, eins og við vorum saman i átta mánuði, nú sjáumst við á 10 daga fresti í smátíma, það er eins og hægri hendin sé farin af eða þannig. Mikið verður gott þegar haustið kemur aftur.
Nú er ég barnapía því hjónin á bænum skruppu til borgarinnar og skildu gömlu konuna eftir með börnin, en þetta er nú lítið mál Saga fer í leikskólinn og svo er að sjá til þessa að Sverrir borði og fari á fótboltaæfingu, og elda kvöldmat. Þegar ég opnaði útidyrahurðina í morgun og var að fara með Sögu í leikskólann voru tveir fullir plastpokar af fiski á tröppunum. Ný Ýsa flökuð og flott og svo líka þverskorin sem verður borðuð í kvöld mammmmmmmm. Ég veit ekki hver kom með þessar kræsingar hingað en takk kærlega fyrir frá okkur öllum hér í Tangaötu þetta var fallega hugsað láttu vita af þér.
Fallegir góðir sumardagar í vændum
Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 27. maí 2008

Dúddi byggir

Dúddilíus við vörubílinn
Dúddilíus við vörubílinn
« 1 af 8 »
Hér kemur sagan um Dúdda sem byggir... Þannig byrjar Ágúst bloggið en hann og Dúddi fóru í gær að sækja sláttuvélina inn í Gám, sem flestir vita hvað er sem þekkja okkur. Flotti bíllin sem Dúddi vinnur á og er að keyra hér í bænum núna varð á vegi þeirra og Ágúst náttúrulega með myndavélina með sér smellti þessu fínu myndum af kappanum og setti þær hér inn. En það er að vísu alveg satt að Dúddi er að hjálpa til viða að byggja. Því hann er að keyra úr grunninum úr húsinu sem KNH er að byggja á Grænagarði.
En við vorum í Sílakoti á Skarðseyri um helgina eða ég. Því ég fór ein á fösturdaginn en Dúddi kom um miðjan dag laugardag á puttanum og þurfti að bíða ansi lengi í Súðavík til að fá far. Það var bara enginn á ferðinni. Allir annað hvort að spara eða að bíða eftir söngvakeppninni.
En þetta var alveg yndislegt. Ég tengdi vatnið eða þannig að það rann fyrir ofan húsið. Svo skipti ég um slöngu á gasinu því mýsnar hafa verið eitthvað svangar í vetur og átu gat á slönguna helv.!! En þetta gekk bara vel hjá mér, maður verður nefnilega að fara að læra að bjarga sér sjálfur aftur. Það er voða þægilegt að kalla alltaf á kallinn og biðja hann að gera þessi kallastörf!!! en við getum gert meira en við höldum, ég komast að því um helgina. Bara horfa á þá gera hlutina nokkru sinnum og .....það er komið inn eða þannig. Við vitum nefnilega ekki hvað við höfum hvort annað lengi.
En nú er allt komið í stand á eyrinni, búið að tengja vatnið almennilega og gott að geta farið þangað á helgum í sumar. Komið við í kaffi ef þið sjáið að fáninn er uppi. Við gleymdum myndavélinni heima svo ég læt flakka með hér nokkrar myndir sem voru teknar í fyrra.
Góðir sumardagar í vændum.


Þórdís Guðmundsdóttir | miðvikudagurinn 21. maí 2008

Heimkoman

Bjarney Kata
Bjarney Kata
« 1 af 9 »

Það var skrítið að lenda um miðja nótt í Keflavík eftir 8 mánaða fjarveru frá rigningunni á Íslandi, Það ringdi fyrstu dagana okkar hér á landi, sem var mikil tilbreyting frá sólinni á Spáni.

Það var æðislegt að hitta aftur alla, tala nú ekki um barnabörnin og sjá hvað þau hafa stækkað, og gaman að sjá að þau mundu eftir gamla parinu sem kvaddi þau í september. Það var mikið um veislur, fyrst var verið að skíra litla prinsessu sem Helena og Harry eignuðust í febrúar og við höfðum ekki séð en hún fékk nafnið Hildur Hera, Hildur eftir móðurömmu sinni, og Hera ,fallegt nafn. Hún er því af þessari frægu HHHætt. Þar sem öll nöfnin byrja á H og föðurnafnið líka. Hún var skírð heima, mjög falleg athöfn þar sem byrjað var á að syngja afmælissönginn fyrir afa hennar hann Dúdda. En þetta var 10 maí á afmælidaginn hans.

Þá var farið í kirkju í Hafnarfirði á hvítasunnud. þar sem 2 frændur Dúdda voru fermdir Arnór Smári sonur Gurrýar og Rafn Ingi sonur Deddu, en þær eru báðar systur Dúdda. Síðan var farið í veislu til Hveragerðis og borðaður dýrindismatur. Í leiðinni fórum við til Úllu vinkonu. Hún hafði sent okkur bók út til Spánar en heimilisfangið var eitthvað vitlaust hún fékk hana því endursenda svo við komum bara við og sóttum pakkann til hennar. Takk fyrir Úlla.

Og mitt í öllu þessum veisluhöldum og heimsóknum keypti Dúddi bíl fyrir mig til að hafa í sumar. Fékk hann á mjög góðu verði, hjá mjög góðum vini. það þurfti aðeins að gera við hann svona ýmislegt en fín Toyota Avensis 98 módel og hún fékk fulla skoðun í dag.

Við fórum svo keyrandi til Ísafjarðar á þriðjudegi og gekk allt vel og ljómandi veður alla leið heim. Við erum bæði komin í vinnu, Dúddi að keyra stóran nýjan bíl hjá KNH en ég í Legg og Skel sem er barnafatabúð, nokkra tíma á dag.

En viðbriðgin að vera komin heim er aðallega að fara út í búð að versla. Einn daginn í Reykjavík fór ég að versla smávegis í Hagkaup grænmeti,ost, mjólk, banana og þegar konan sagði hvað ég ætti að borga og ég stóð þarna sæl með tvöþúsund krónur en nei, þetta kostaði þrjúþúsund og fimmhundruð krónur það leið næstum yfir mig og ég sagði bara úppps og aumingja konan leit bara á mig. Úti á Spáni hefði þessi peningur dugað okkur fyrir mat í heila viku.

Ísafjörður stendur nú alveg fyrir sínu alltaf jafn fallegur og fjöllin yndisleg, tala nú ekki um þegar sólin skín svona öðru hvoru eins og í dag og 13 stiga hiti úti.

Ætla að fara í sumarbústaðinn á morgun og eiga þar góða daga.

Þórdís Guðmundsdóttir | þriðjudagurinn 6. maí 2008

Dagur heimferðar

Litlir ungar í hreiðri
Litlir ungar í hreiðri
« 1 af 4 »

Hitinn í dag er 26 stig lítil sól og smá vindur.

Þetta er nú skrýtin dagur. Verið að pakka á fullu, skrúra, skrúbba og bóna svo allt verði fínt þegar maður snýr til baka. Þessi tími hér hefur verið ótrúlega fljótur að líða, enda hefur okkur liðið mjög vel hér á þessum stað og eigum við örugglega eftir að sakna hans í sumar, sérstaklega góða veðursins. Nú spáir hann rigningu á fimmtudaginn og þá erum við farin.

Við fórum á mánudaginn til Unnsteins og Rutar til að kveðja og við höfðum með okkur humarsoð og elduðum hjá þeim þessa líka fínu súpu með nokkrum tegundum af fiski. Það var voða gaman að hitta þau eins og alltaf.

Núna erum við með bílinn hans Jóns og Elínar, sem þau lánuðu okkur til að komast út á flugvöll. Þau eru á ferðalagi með mörgum öðrum Íslendingum og koma í dag, þá hittum við þau í La Marina og þau keyra okkur út á völl. Alveg einstaklega elskulegt af þeim að leggja þetta á sig eftir rútuferð allan daginn.

Við erum að fara núna, bara eftir að slökkva á tölvunni og loka húsinu.

Billinn okkar er komin inní BÍLSKÚR, við erum eiginlega orðlaus yfir svona góðsemi sem við fáum frá þessum ynsilegu hjónum. Þegar Dúddi kom með lyklana til Fermín og kenndi honum á bílinn, þá fór hann með lyklana til húsfreyjunnar og hún kom út og sagði að bíllinn færi inn í bílskúr. Þau fóru bara og týndu fullt af dóti út úr skúrnum og komu því fyrir bæði hér úti hjá okkur og í nýja húsinu hjá sér og bíllinn inn, við vorum eiginlega klökk yfir þessu öllu. Svo fórum við með smá dót úr ísskápnum og þá fengum við 4 appelsínur í nesti, ótrúlega gott fólk. Og svo ætla þau að passa allt í sumar.

Litlu ungarnir eru enn í hreiðrinu sínu og dafna vel.

Við gistum hjá Helenu yfir helgina og förum síðan vestur á Ísafjörð. Ég er nú ekkert hætt að blogga ,ævintýrinu er ekki lokið ennþá þið fáið meira að heyra síðar.

Það verður svo kveikt á ísl. gemsanum um leið og við lendum.

Heyrumst og sjáumst á góðum degi.